Motocross-brautir – aðstaða – miðar – gjöld

Við skulum byrja þetta á einfaldri hagfræði. Ekkert í þessum heimi er ókeypis. Ef einhver fær eitthvað ókeypis þýðir það bara að einhver annar er að borga fyrir það. Svo er misjafnt hvernig annar aðili borgar fyrir það. Með peningum, vinnu eða með því að láta af hendi önnur verðmæti. Milton Friedman getur frætt ykkur meira um þetta HÉR og HÉR ef þið viljið skoða þetta af meiri dýpt.

Motocross brautir á Íslandi verða ekki til af sjálfum sér. Ekki frekar en aðstaðan í kringum þær. Þær brautir sem við höfum aðgang að eru að stórum hluta þar af því að einstaklingar tóku sig til og gáfu tíma og vinnu í að hanna og skapa þessar brautir. Þar borguðu einstaklingar fyrir brautirnar með því að gefa upp tíma með fjölskyldunni eða frá öðrum hlutum og í staðinn uppskáru þessir einstaklingar aðstöðu til þess að sinna áhugamáli sínu. En vinnan er ekki nóg. Það þarf stórvirkar vinnuvélar og alls konar efni og íhluti og þessir hlutir fást ekki öðruvísi en með peningum. Sagan er heldur ekki fullkláruð þegar brautin hefur verið sköpuð. Vinnan er rétt svo byrjuð og það þarf tíma einstaklinga og verðmæti til þess að halda brautunum í góðu standi. Þessi peningur verður að koma til frá þeim sem nýta sér aðstöðuna til þess að sinna áhugamáli sínu. Þess vegna eru seld árskort í brautirnar eða stakir dagspassar. Þessar brautir eru ekki reknar í hagnaðarskyni. Það er ekki einstaklingur eða einstaklingar sem hagnast persónulega á því með fjármunum að aðgangur sé seldur í þessar brautir. Allur peningurinn fer í að halda aðstöðunni við og eða gera hana enn betri. Til þess að brautirnar geti verið sem bestar þurfa allir að leggjast á eitt og taka þátt í því að byggja svæðin upp. Þau ykkar sem getið ekki fundið tíma í að aðstoða verðið að leggja málefninu lið með því að kaupa dagspassa eða árskort. Ef þið getið gert bæði er það augljóslega besti kosturinn í stöðunni.

Í gær var Pétur, sem hefur varið ólýsanlegum tíma uppi í Bolaöldu ásamt fleirum, að vinna á svæðinu og var að grípa nokkra sem höfðu ekki keypt miða. Það gekk það langt að einhverjir aðilar voru með svo gamla miða að það stóð ESSO á þeim. Þegar þetta var borið upp á viðkomandi einstaklinga kom viðmót og viðhorf sem gerði ekkert annað en að lýsa slöppum og döprum sálum.

Torfæruhjólasamfélagið er ekki mjög stórt á Íslandi. Það ætti að vera mjög auðvelt að fá samvinnu og sameiginlegan skilning á því hvernig hlutirnir virka. Það gerist ekki með þessu viðhorfi. Þetta á alls ekki bara við starf okkar í VÍK og í Bolaöldu. Þetta á við um allt starf í kringum torfæruhjólasportið á Íslandi. Við uppskerum nákvæmlega eins og við sáum. Ef stór hluti iðkennda fer að sýna þessu starfi og aðstöðunni sem við höfum vanvirðingu verður það til þess að það verður engin aðstaða eftir.

Gerið okkur og ykkur sjálfum greiða og nálgumst aðstöðu og starfið af virðingu. Gjaldið í brautir á Íslandi er ekki hátt. Reyndar er það ótrúlega lágt. Þess má geta að á árinu 2016 fóru 5 milljónir króna í Bolaöldusvæðið. Að borga 2.000 kr. fyrir dagpassa á svæðið og 15.000 kr. fyrir árskort á svona svæði er brandari. Þess má geta að slóðarnir á svæði VÍK eru gjaldskyldir. Það þarf dagspassa eða 5.000 kr. félagsgjald til þess að fá árskort í þá. Í þá hefur verið og verður lögð vinna sem kemur til með að kosta peninga.

Ekki vera slöpp og döpur sál. Til þess að draga þetta saman fékk ég Jackie Chan:

 

Sigurjón Snær Jónsson

Formaður Vélhjólaíþróttaklúbbsins

Slóðar í Bolaöldu opnir – ATH – farið með varúð

Jósepsdalur

Slóðarnir eru hér með opnir í Bolaöldu. Á nokkrum stöðum er samt smá snjór í slóðunum. Ekki fara framhjá snjónum til þess að færa slóðann. Farið í gegnum snjóinn. Sama á við ef um bleytu er að ræða og farið rólega í gegnum hana.

Við minnum svo á að gjaldskylt er í slóða VÍK.

Hittumst hress og kát í Bolaöldu og svo á Klaustri. 🙂

 

Stjórnin

Bolaalda – Motocrossbrautirnar opna í hádeginu á morgun 14.5.17

 

Þessi mynd er tekin 13.5.17 við undirbúning brautarinnar.

Á morgun, sunnudaginn 14.5.17 kl. 12:00 á hádegi, ætlum við að opna motocrossbrautirnar í Bolaöldu. Við höfum ekki komist í að skoða slóðana en við munum gera það á morgun og láta vita hvort þeir séu tilbúnir eða ekki. Við hvetjum flesta til þess að koma núna þegar rakastigið er flott eftir veturinn. Við minnum á dagspassana og árskortin. Hægt verður að kaupa bæði á staðnum en annars minnum við á ÞETTA og miðasöluna okkar á Olís Rauðavatni.

Stjórnin

Bolaalda er lokuð – Brautir og slóðar

Af gefnu tilefni viljum við benda á að Bolaöldusvæðið er lokað. Við erum ekki farnir að vinna í motocross-brautunum og getum því ekki tryggt að þær séu öruggar. Það er mjög líklega búið að renna úr þeim og það gætu verið hættulegir skurðir í þeim. Slóðarnir eru líka ennþá of blautir og akstur á þeim gæti valdið tjóni sem við þurfum að búa við í allt sumar. Þau ykkar sem vilja æfa fyrir Klaustur hefðuð átt að skella ykkur í Hellukeppnina og svo bendum við á Þorlákshöfn að svo stöddu. Við munum auglýsa það vel og rækilega þegar svæðið opnar. Fram að því biðjum við um að svæðið fái að vera friðað svo að við getum gert hlutina rétt.

Stjórnin

1. umferð Íslandsmótsins í Enduro 2017 – Hella

Sverrir lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Smellið á myndina til þess að sjá allar myndirnar hans úr keppninni.

VÍK hélt fyrstu umferðina í Íslandsmótinu í enduro á Hellu um helgina. Veðrið var algjörlega frábært með sól og hita sem gerði það enn skemmtilegra að horfa á keppnina. Það var góð þátttaka í keppninni og talsvert af áhorfendum. Nokkrir höfðu það á orði að þetta minnti á gömlu stemninguna og erum við í stjórninni alveg sammála því og það þykir okkur skemmtilegt. Við vonum að það sé að lifna meira yfir þessu skemmtilega sporti okkar.

Úrslit dagsins má finna HÉR. Þeim hefur verið breytt frá verðlaunaafhendingu. Það kom upp atvik, sem lesa má betur um í linknum sem er hér aðeins framar, sem þurfti að leggjast yfir og ræða fram og aftur. Á keppnisstað þurfti að taka ákvörðun en þegar rykið hafði sest og fleiri hliðar á málinu höfðu verið skoðaðar kom í ljós að það var ekki endilega besta lendingin á málinu. Það hefur verið leiðrétt hér með og er það gert í góðu með skilningi þeirra sem að málinu koma. Það er nú alltaf gott þegar það er hægt að leysa málin með því að ræða þau í sátt og samlyndi. Við biðjum alla sem ræða atvikið að gæta orða sinna og muna að það er auðvelt að koma með sína skoðun á málinu án þess að þurfa að taka ábyrgð á lokaniðurstöðunni. Við skulum ekki láta þetta atvik vera til þess að talað sé á neikvæðan hátt um keppnishaldið eða sportið. Tölum sportið upp sama hvar við erum og með hverjum. Þannig byggjum við það upp og gerum það betra.

Stjórn VÍK vill þakka þeim sem komu og aðstoðuðu með einum eða öðrum þætti. Þeim sem komu að leggja brautina. Þeim sem komu að taka saman brautina með okkur. Þeim sem komu að vakta brautina og keppendur á meðan keppni stóð. Flugbjörgunarsveitinni á Hellu fyrir aðstoð við að fá svæðið og með því að leggja til sjúkrabíl sem þurfti því miður að bregðast við einu atviki sem leiddi til þess að sjúkrabíll kom frá Selfossi og sótti einn keppanda. Okkur skilst að það hafi ekki verið jafn slæmt og það leit út í fyrstu sem er bót í máli þó að slysalaus keppni sé augljóslega það sem við myndum alltaf vilja sjá.

Ef þú ert með móral yfir því að hafa ekki komið á Hellu þá geturðu unnið það upp í lok mánaðarins. Klausturskeppnin er 27. maí n.k. og má sjá allt sem þarf um hana HÉR. Við minnum þó á að skráningarfresturinn á hana rennur út n.k. sunnudagskvöld á miðnætti.

 

HÉR er svo MYNDBAND sem þið hreinlega verðið að sjá úr keppninni. Birgir Georgsson tók þetta á dróna við þessar frábæru aðstæður sem voru þarna og það sést mjög vel í þessu myndbandi.

 

Stjórnin

Bein tímaútsending – Live timing

Smellið á myndina fyrir tímaútsendinguna

Á morgun ætlum við að prufukeyra beina tímaútsendingu úr enduro-kerfinu. Þorgeir Ómarsson tímatökuvörður og Sigurbjörn Jónsson eru búnir að leggja á ráðin og smíða eitthvað sem ég kann ekki að útskýra. Ef þið smellið á myndina endið þið á síðunni sem mun birta tímastöðuna í rauntíma á meðan keppni stendur. Flokkarnir sem eru þar inni núna eiga eftir að detta út og þeir réttu koma inn þegar við störtum. Við viljum benda á að þetta er prufukeyrsla og það á eftir að koma í ljós hvernig þetta gengur. Okkur þætti vænt um það ef einhver eða einhverjir tækju sig til og fylgdust með útsendingunni. Ef það koma upp villur eða vandamál, væri mjög gagnlegt að fá að vita hvers eðlis það er. Athugasemdir mega komu við stöðufærslurnar á Facebook þar sem við dreifðum þessari færslu.

Athugið að heildarúrslit dagsins koma ekki fram í lokin. Þetta verður bara rauntímakeyrsla.

Bolalada