Greinasafn fyrir flokkinn: Events

The events calendar

Jonni sigraði síðustu umferðina í Enduro ECC

Jónas Stefánsson sigraði í síðustu umferð í enduroinu sem fram fór á Akureyri í gær laugardag eftir flottan akstur. Kári Jónsson gekk ekki heill til skógar vegna magakveisu og gat aðeins tekið þátt í fyrri umferðinni. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að Kári Jónsson er glæsilegur Íslandsmeistari í Enduro árið 2013 og er því tvöfaldur Íslandsmeistari þetta árið eftir að hafa landað titlinum í motocrossi um síðustu helgi. Til hamingju með það Kári!

Aðrir sigurvegarar dagsins voru Signý Stefánsdóttir sem sigraði kvennaflokkinn á fullu húsi stiga og er því ótvíræður Íslandsmeistari 2o13. Einar Sigurðsson sigraði B-flokkinn en þar varð Haraldur Björnsson efstur að stigum eftir árið. 40+ flokk sigraði Magnús Gas Helgason en Íslandsmeistarinn Ernir Freyr Sigurðsson varð í öðru sæti. Í tvímenning sigruðu Óskar Þór Gunnarsson og Michael B. David en þátttaka í tvímenning var aldrei nægileg til að flokkurinn teldi til Íslandsmeistara. Stigahæstir þar eftir sumarið urðu þó Pétur Smárason og Vignir Oddsson og hefði verið gaman að sjá fleiri taka þátt í þessum flokk í sumar.

Veðrið á Akureyri var eins og best var á kosið á þessum árstíma, logn og blíða. Brautin var frábær að hætti KKA manna sem fjölmenntu til starfa við mótið og stóðu sig með stakri prýði. Keppendur hefðu klárlega mátt vera fleiri eins og oft áður í sumarið en þeir sem mættu skemmtu sér mjög vel. Takk fyrir gott endurosumar.

Ítarleg úrslit og staðan í Íslandsmótinu er hér fyrir neðan

Lesa áfram Jonni sigraði síðustu umferðina í Enduro ECC

Síðasta keppni Íslandsmótsins í motocrossi 2013 að baki

Nýi kaflinn í Bolaöldu var farinn að þorna í lok keppni ... og hver segir að það myndist ekki röttar á Íslandi?
Nýi kaflinn í Bolaöldu var farinn að þorna í lok keppni … og hver segir að það myndist ekki röttar á Íslandi?

Kári Jónsson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í MX Open flokki í síðustu umferð Íslandsmótsins í motocrossi sem fram fór í Bolaöldu í dag. Vélhjólaíþróttaklúbburinn hélt keppnina en hún átti að fara fram í gær laugardag en var frestað vegna veðurs. Aðstæður voru mun betri í dag, gola en skúrir annað slagið sem auk rigningarinnar frá því í gær gerði það að verkum að brautin var vel blaut á köflum. Það olli keppendum þó ekki stórum vandræðum en einn og einn tók þó jarðvegssýnishorn til öryggis en stórslysalaust sem betur fer.

Sigurvegarar dagsins voru Sölvi Borgar Sveinsson verðskuldað í Mx Open eftir flottan akstur, Guðbjartur Magnússon sigraði í MX2 og Unglingaflokki og landaði þar með Íslandsmeistaratitli. Signý Stefánsdóttir sigraði kvennaflokkinn örugglega og varð jafnframt Íslandsmeistari rétt eins og Viggó Smári Pétursson í 85 flokki en Ragna Steinunn Arnarsdóttir sigraði 85 flokk kvenna en þar varð Gyða Dögg Heiðarsdóttir Íslandsmeistari. Í heldri flokki 40+ manna sigraði Gunnar Sölvason með stæl en Íslandsmeistaratitilinn þar átti Haukur Þorsteinsson skuldlaust eftir öruggan akstur.

Nánari úrslit og lokastaðan í Íslandsmótinu er hér fyrir neðan Lesa áfram Síðasta keppni Íslandsmótsins í motocrossi 2013 að baki

Glæsileg motocrosskeppni á Akranesi að baki

Guðbjartur með holeshot í moto 2 í unglingaflokki
Guðbjartur með holeshot í moto 2 í unglingaflokki

Vífa menn héldu 2. umferð Íslandsmótsins á Akrabraut sem stendur rétt norðan við Akranes. Rigning síðustu daga gerði þeim lífið ekki auðveldara en góður þurrkur í gær og nótt og dugnaður strákanna gerði gæfumuninn. Brautin var vel blaut víða og drullupyttir og mjúkir blettir hér og þar. Brautin breyttist mikið eftir hverja umferð og því var keyrður skoðunarhringur fyrir báðar umferðir til öryggis fyrir keppendur. Þegar upp var staðið tókst keppnin mjög vel, brautin þornaði þegar leið á daginn og engin meiriháttar óhöpp en hörkukeppni í öllum flokkum.

Kári Jónsson endurtók leikinn frá Selfossi innbyrti heildarsigur dagsins en þó með Eyþór og Sölva nartandi í hælana á sér allan tímann. Eyþór sigraði reyndar fyrra mótóið en Kári tók það síðara og sigraði því daginn í heild.

Lesa áfram Glæsileg motocrosskeppni á Akranesi að baki

Drullugaman í 1. umferð Íslandsmótsins í Motocrossi á Selfossi

Fyrsta umferðin í Íslandsmótinu í Motocrossi fór fram á Selfossi í dag. Það er óhætt að segja að veðrið hafi spilað stórt hlutverk í keppninni í dag en miklar rigningar undanfarna daga og í nótt gerðu keppnina að drullukeppni fyrir allan peninginn. Selfyssingar brugðu á það ráð að stytta brautina fyrir keppni og klippa út blautasta kaflinn sem bjargaði heilmiklu. Það breytti þó ekki því að brautin var á floti og hrikalega erfið. Keppendur kvörtuðu þó ekki og skemmtu sér stórkostlega.

Kári Jónsson, Íslandsmeistari í Enduro í fyrra var eins og á heimavelli og sigraði daginn í MX-Open á fullu húsi stiga en Viktor Guðbergsson, Íslandsmeistarinn í Motocrossi 2012,  varð í öðru sæti. Lesa áfram Drullugaman í 1. umferð Íslandsmótsins í Motocrossi á Selfossi

Enduro CC sem átti að vera á Akureyri 15 júní færð suður vegna ástands jarðvegar fyrir norðan

Því miður hefur sú staða komið upp vegna ástands jarðvegar fyrir norðan að færa þarf keppnina sem halda átti 15 júní á svæði KKA manna á Akureyri suður.  Keppnin mun því fara fram á suðvesturhorninu og hugsanlega á suðurlandi en MSÍ mun auglýsa það nánar þegar endanleg staðsetning hefur verið ákveðin.  Eins og staðan er í dag að þá er líklegast að keppnin fari fram á akstursíþróttasvæði VÍK við Bölaöldu en enduronefnd VÍK er að skoða aðra staði sem koma til greina og það verður að viðurkennast að fátt er um fína drætti hvað þetta varðar.  Skráning í keppnina hefur ekki verið opnuð á vef MSÍ en það mun gerast á næstu dögum.  Þannig að fólk verður að bara að vera duglegt að fylgjast með tilkynningum á vef VÍK og MSÍ.  Jafnframt munum við tilkynna nýjan keppnisstað á fésið.

Frábærri keppni lokið á Klaustri

Ellefta Klausturskeppnin fór fram í landi Ásgarðs við Kirkjubæjarklaustur í gær, 25. maí.

klaustur 1Keppt er í 6 klukkutíma þar sem keppendur taka þátt í tveggja og þriggja manna liðum auk Járnkallaflokki þar sem keppandi keyrir einn allan tímann. Keppendur voru ríflega 300 í ár í 162 liðum. Á föstudaginn hellirigndi á svæðinu og stefndi í netta drullukeppni á laugardag. Enduroguðinn var þó með okkur í liði og á laugardagsmorguninn var komin glampandi sól og létt gola, fullkomið veður, frábært og ekkert ryk í brautinni. Rigningin virðist þó hafa fælt einhverja frá því talsvert mörg lið létu ekki sjá sig og misstu af einhverri skemmtilegustu keppni sem við höfum haldið.

Keppnin fór fram í landi Ásgarðs en ábúendur þar þau Eyþór og Þóra ásamt Herði syni þeirra og Grétur systur Þóru ásamt Guðmundi Vigni og Auði í Skaftárskála hafa tekið frábærlega á móti okkur og við getum hreinlega ekki þakkað þeim nægilega vel fyrir samstarfið. Og ekki má gleyma snillingnum Kjartani sem á heiðurinn af upphafi keppninnar en hann hefur verið óþreytandi í brautarlagningu og alls konar útréttingum á staðnum. Takk öll saman!

Þrír keppendur urðu fyrir meiðslum og voru tveir fluttir með þyrlu til Reykjavíkur til nánari skoðunar. Annar er enn á gjörgæslu og verður til morguns til öryggis, hann reyndist með marið milta og verður því á spítala undir eftirliti næstu daga. Hinn er á almennri deild en hann braut 3 rif og marðist einnig innvortis. Hann á þó að  útskrifast á morgun enda annálað hörkutól. Meiðsl þriðja mannsins voru ekki alvarleg.

Eftir mikla baráttu og gríðarlega góðan akstur voru það þeir Viktor Guðbergsson og Sölvi Borgar Sveinsson sem stóðu uppi sem heildarsigurvegarar dagsins. Járnkallinn 2013 er Jónas Stefánsson. Önnur úrslit urðu sem hér segir:

Lesa áfram Frábærri keppni lokið á Klaustri