Allra síðustu forvöð. Klaustur 2016.

Ef þú varst að kaupa þér torfæruhjól og veist ekkert hvað Klaustur er, skoðaðu þá ÞETTA og ÞETTA.

Á miðnætti, mánudaginn 23. maí 2016, lokum við fyrir skráninguna á Klaustur. Ef þú ert að velta því fyrir þér hversu langur tími er til stefnu, þá er niðurteljari á Klausturssíðunni. Þess má einnig geta, að þá er skráningin búin að vera opin í tvo mánuði. Hjálpumst að við þennan viðburð og klárum allar skráningar og liðabreytingar í tíma. Við erum ekki margar manneskjurnar að baki þessari keppni og þetta er allt unnið í sjálfboðavinnu. Við þurfum að taka tíma frá fjölskyldu okkar og vinnu til þess að sinna þessu kauplaust og því væri gott ef það væri hægt að vinna þetta allt í tíma þannig að það sé hægt að bregðast við ef eitthvað klikkar. Notum þessa viku og alveg í síðasta lagi helgina í að skrá okkur eða láta mig vita af liðabreytingum.

Ef þú sendir okkur póst kl. 23:00 á mánudaginn og spyrð hvað þú þurfir að gera til þess að vera með á Klaustri, þá bendi ég þér á að spyrja mig aftur í mars 2017. Við lendum í því trekk í trekk að fólk sé að skrá sig 5 mínútum fyrir lokun eða reynir að komast inn eftir lokum og þetta verður alveg ofboðslega þreytandi. Þetta er svolítið eins og aðilinn sem mætir í partý til manns en hellir svo bara niður og skiptir um tónlist.

Þannig að, ég bið ykkur, hjálpið okkur að hjálpa ykkur. Ef þið eruð skráð en vitið um einhvern sem er að draga lappirnar í þessu máli, endilega rekið á eftir viðkomandi.

Listinn verður vonandi birtur á næstu dögum, en liðarbreytingar hafa verið að detta inn og því þurfum við að halda utan um þær og laga listann til.

Með vinsemd og virðingu.

Sigurjón Snær Jónsson

Skildu eftir svar