Dakar 2014 – Dagur 3

Ruben Faria

Leið dagsins lá frá San Rafael til San Juan, byrjaði hún á 292km ferjuleið en svo átti að taka við 373km sérleið alveg til enda en sérleið dagsins var stytt um 130km þar sem fyrriparturinn af henni var ekki talin nógu öruggur eftir miklar rigningar sem hafa geysað þarna og er allt landslagið illa skorið, endaði dagurinn því í 535km í heildina. Jarðvegurinn í dag var frekar grýttur og má segja að þessi leið í dag sé forsmekkurinn af því sem koma skal í fjöllunum með tilheyrandi tæknilegum leiðum. Hjólin fara hæðst í um 4300 hæð yfir sjávarmáli og blasir þá við keppendum stórkostlegt útsýni en kannski ekki miklar lýkur á að þeir gefi sér tíma til þess að njóta þess en þessi mikla hæð mun það reyna mikið á menn og tæki.

Það er svo annað sem sker úr með þennan dag en þetta er fyrri dagurinn af fyrri maraþonhlutanum, þ.e.a.s í kvöld verða þeir einangraðir frá öðrum keppendum og þjónustuliði, verða þeir að reiða sig á eigin kunnáttu og aðra keppendur með aðstoð og þá varahluti sem þeir eru með sjálfir eða „vatnsberarnir“ þeirra.

157 hjól áttu að hefja daginn en 152 fóru af stað þar sem nokkrum tókst ekki að græja hjólin fyrir daginn.

Það urðu mikil afföll af toppnum í dag, þegar þetta er ritað eru margir af topp 20 sem ekki eru búnir að skila sér í mark. Rubin Faria(KTM) sem var í 6 sæti yfir heildina í gær datt illa og er úr leik, sömu sögu er að segja frá Frans Verhoeven(Yamaha) en hann braut á sér olnbogann. Sigurvegara gærdagsins Sam Sunderland(Honda) kom í mark í dag í 74 sæti og liðsfélagi hans Paulo Goncalves(Honda) sem var í 7 sæti í gær en kom í 65 sæti inn í dag en þeir stoppuð báðir og biðu eftir þyrlu vegna slasaðs keppanda, ef ég man rétt þá er í reglum Dakar að keppandi getur ýtt á hnapp á hjólinu þínu þegar hann stoppar til að aðstoða slasaðan mann og ýtir svo aftur á hann þegar hann hefur lokið aðstoð og á sá tími að dragast frá heildartímanum. Reyndar lentu þeir svo báðir í að villast og töpuðu miklum tíma þannig líka. Er Sam Sunderland(Honda) í 30 sæti yfir heildina og Paulo Goncalves(Honda) er í 28 sæti yfir heildina.

En það eru ekki bara karlar að keppa í Dakar, frá Spáni kemur margfaldur heimsmeistari í enduro og trial keppnum og er þetta hennar 4 dakar rall og vonast hún eftir betri árangri eftir að hafa gert samning við Honda fyrir þessa keppni, er greinilegt að Honda er að leggja mikið á sig í Dakar núna og er greinilega að gera það gott þar sem Honda hefur unnið allar þrjár sérleiðarnar sem eru búnar.

Maður dagsins er Joan Barreda(Honda) en hann vann sinn annan sérleiðarsigur þetta árið og ekki nóg með það. Hann er fyrsti keppandi í Dakar sem fer í svona mikla hæð, 4300 yfir sjávarmáli, en hann er á fljúgandi ferð, jók hann forskot sitt í næsta mann og er rúmum 13mín á undan. Næstu menn voru þeir Cyril Depres(Yamaha) og Marc Coma(KTM) en þeir voru 4:41 og 6:56 á eftir í mark í dag.

Joan Barreda(Honda) sagði þetta í kvöld „þetta er búið að stórkostleg leið í dag, eitthvað sem Dakar hefur aldrei séð áður, ekki bara þessi mikla hæð heldur einnig allar þessar hæðir og brattar brekkur, þetta var næstum eins og trial. Annar gír, inngjöf, stopp til að ná andanum, aftur af stað, þetta var ekta trial þar sem maður mátti ekki gera nein mistök og halda ferðinni líka. Það reyndi líka mikið á rötun og í raun aldrei almennilegur tími til að líta upp til að átta sig á staðsetningu. Ég fór framúr nokkrum og sá einnig nokkra sem höfðu valið ranga leið enda var mikið um villuleiðir þarna í fjöllunum. Undir lokin var ég bara einn á ferð og gat svo farið að gefa vel í en það reyndi mikið á alla í dag“.

Sam Sunderland(Honda) sagði í kvöld þegar hann kom loks í mark „í byrjun var ég einn fremstur en svo villtist ég af leið og gekk illa að finna rétta leið, það voru leiðir útum allt. Og í yfir 4000 metra hæð þá hugsar maður ekki alveg skýrt, svo rakst ég á Paulo Goncalves(Honda) en hann var að bíða eftir þyrlu vegna Rubin Faria(KTM) sem lá slasaður og eftir að þyrlan kom þá fylgdumst við að restina. Ég datt nokkrum sinnum ásamt því að við villtumst nokkrum sinnum líka, þetta er reynsla sem við verðum að læra af“.

Cyril Despres(Yamaha) sem kom annar í mark í dag 4:41 á eftir fyrsta manni en þá er hann komin í 2 sæti yfir heildina úr því 10 frá því í gær. Er hann nú 13:04 á eftir Joan Barreda(Honda). Hann hafði þetta að segja eftir daginn „leið dagsins í dag fer beint á topp 5 af þeim leiðum sem ég hef keppt á í þau 13 ár sem ég hef verið að keppa og trúðu mér, ég hef keppt ansi víða. Eins og þið vitið þá var sérleiðin stytt vegna mikilla rigninga undanfarið og fyrsti hluti leiðarinar ekki talin öruggur, restin var samt ekkert auðveld, þegar maður var komin langleiðina á sérleiðinni þá komum við að ótrúlegum 3ja km löngum kletti þar sem gekk illa að finna leið upp og get ég rétt ímyndað mér að þarna detti margir keppendur út og þá er ég ekki bara að meina áhugamennirnir sem verða í vandræðum. Eftir það tóku við um 60km af stórkostlegu landslagi, svo fallegu að það var erfitt að einbeita sér að því að rata. En í restina náði ég framúr David Casteu(KTM) og Marc Coma(KTM), í heildina var þetta frábær dagur sem bæti upp slæman gærdag þar sem ég datt og það líkar mér illa, ég dett ekki oft og það sló mig svolítið útaf laginu en þetta er allt að komast í réttan gír“.

Þriðji í mark í dag var svo Marc Coma(KTM) en hann kom 6:56mín á eftir fyrsta manni í mark og er hann nú í 3 sæti yfir heildina. Var hann níundi af stað í morgun og fylgdust þeir fyrrum liðsfélagar, hann og Cyril lengi vel að og hafa gaman að því að keppa við hvorn annan. Ekki náði ég að finna neitt viðtal við Marc Coma(KTM) eftir leiðina en hann sagði fyrir þennan maraþonhluta „dekkjaslit er eitthvað sem maður verður alltaf að fylgjast með, í Suður Ameríku förum við í gegnum nokkur lönd og allskonar jarðveg. Í Afríku var þetta að mestu sandur en hérna er undirlagið oftast harðara og mun grýttara og einnig þessar fjallaleiðar, Argentína er sérstaklega erfið fyrir dekkin“.

Í dag má reikna með að „vatnsberar“ topp keppendana hafi farið frekar varlega í dag þar sem þeir hafa líklega reynt að spara dekkin sín svo þeir geti skipt í kvöld svo topparnir geti haldið áfram fullri gjöf á morgun.

Fyrstu fimm í mótorhjólaflokki á sérleið á degi 3:

1 sæti Joan Barreda(Honda) 3:47:03
2 sæti Cyril Despres(Yamaha) +4:41
3 sæti Marc Coma(KTM) +6:56
4 sæti Alain Duclos(Sherco) +10:51
5 sæti David Casteu(KTM) +11:17

Fimm fyrstu yfir heildina í mótorhjólaflokki :

1 sæti Joan Barreda(Honda) 9:56:44
2 sæti Cyril Despres(Yamaha) +13:04
3 sæti Marc Coma(KTM) +13:56
4 sæti Alain Duclos(Sherco) +16:38
5 sæti Francisco Lopez(KTM) +18:39

Casale D3Í fjórhjóladeildinni var það Marcos Patronelli(Yamaha) sem fór fyrstur af stað en hann hélt því ekki lengi að vera fyrstur því í gegnum fyrsta “cheakpoint” var Ignacio Casale(Yamaha), 22sek á eftir honum kom svo Rafal Sonik(Yamaha) og svo Sebastian Husseini(Honda), Marcos Patronelli(Yamaha) kom svo 1:32mín á eftir og virðist eitthvað vera að hrjá hann.

Við “checkpoint 2” hafði Ignacio Casale(Yamaha) aukið forskot sitt, kom þar í gegn 3:24mín á undan Sebastian Husseini(Honda) og svo Rafal Sonik(Yamaha) og Marcos Patronelli(Yamaha) var þá orðin 6:44mín á eftir. Það var svo Rafal Sonik(Yamaha) sem kom fyrstur í mark í dag á heildartímanum 4:58:00 og 3:50mín seinna kom Ignacio Casale(Yamaha) en ekkert bólaði á Marcos Patronelli(Yamaha), kom seinna í ljós að hann hann hafði tapað öllu vatni og endaði með því að hann gat ekki lengur hjólað og var hann sóttur þar sem hann þjáðist af vökvaskorti og er úr leik að þessu sinni, sorglegt að missa hann úr keppni en þetta er allt partur af Dakar.

Eins og sést á listanum eru 4 menn að stinga restina af.

Fyrstu fimm í fjórhjólaflokki á sérleið á degi 3:

1 sæti Rafal Sonik(Yamaha) 4:58:00
2 sæti Ignacio Casale(Yamaha) +3:50
3 sæti Sergio Lafuente(Yamaha) +4:02
4 sæti Sebastian Husseini(Honda) +4:51
5 sæti Mohammed Abu-issa(Honda) +47:47

Fimm fyrstu yfir heildina í fjórhjólaflokki :

1 sæti Rafal Sonik(Yamaha) 12:23:45
2 sæti Ignacio Casale(Yamaha) +6:10
3 sæti Sebastian Husseini(Honda) +7:19
4 sæti Sergio Lafuente(Yamaha) +7:26
5 sæti Mohammed Abu-issa(Honda) +1:51:50

Látum þetta duga í bili

Dakar kveðja

Dóri Sveins

Skildu eftir svar