Moto Crossfit æfingar hefjast í 3. október!

Sumarið hefur aldeilis verið upp og ofan en nú er það að baki og vetur framundan og svo kemur aftur sumar og þá er eins gott að vera klár í slaginn. Fimmtudaginn 3. október byrjum við aftur með Moto Crossfitæfingarnar sem VÍK hefur boðið upp á í samstarfi við Crossfit Reykjavík. Við Árni Gunnar Gunnarsson #100 höfum stýrt æfingunum undanfarin þrjú ár og ætlum að byggja á þeirri reynslu og bæta enn frekar við í vetur.cfr

Æfingarnar verða þrisvar sinnum í viku á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18-19 og laugardögum kl. 10-11 og verða lagaðar sérstaklega að þörfum hjólafólks. Í haust verður til að byrja með lögð áhersla á að auka liðleika, styrk og kenna tækni en inn í það verður blandað lengri úthalds- og þolæfingum í anda Crossfit Endurance. Eftir áramótin höldum við áfram á sömu braut en leggjum þá mesta áherslu á byggja upp þol og úthald fyrir sumarið. Crossfit Reykjavík er komið á nýjan og mun stærri stað í Faxafen þar sem við höfum meira pláss til að vinna með hópinn og laga æfingarnar að okkar þörfum.
Fyrstu vikurnar munum við fara í gegnum grunnatriðin í Crossfit, til upprifjunar fyrir þá sem hafa verið með okkur áður og til að koma þeim sem eru að byrja af stað af öryggi.  Crossfit Endurance er sérstakt æfingakerfi ætlað fólki sem vill leggja meiri áherslu á að byggja upp úthald og þol auk þess að bæta við styrk, kraft, snerpu, liðleika, nákvæmni og allt annað sem Crossfit æfingarnar gera fyrir mann. Fyrir hverja æfingu er upphitun með þjálfara þar sem farið er í gegnum sambland af teygjum og kennslu á æfingum kvöldsins og eftir hverja æfingu teygir hópurinn saman þá vöðvahópa sem fengu mest að finna á því það kvöldið og allt annað sem er stíft eða stirt. Eftir æfingar verður núna hægt að fara í gufu og heita og/eða kalda pottinn til skiptis og slaka vel á með hópnum. Við lofum engu klappi eða sérmeðferð en fyrst og fremst góðum og krefjandi æfingum sem nýtast öllum til framtíðar. Verðið fram að áramótum 24.000 kr. og 50.000 allur veturinn fram til 30. apríl. Hægt er að nota frístundagreiðslur sveitarfélaganna upp í æfingagjaldið fyrir alla yngri en 18 ára og / eða skipta greiðslum á kort eða greiðsluseðla.

Nánari upplýsingar fást í síma 669 7131 eða með pósti í vik@motocross.is

Hlökkum til að byrja aftur af krafti – sjáumst 3. október!
Kveðja Árni og Keli

Skildu eftir svar