Breytt fyrirkomulag í Enduro 2014?

Vefnum hefur borist bréf frá Pétri Smárasyni sem birtist hér fyrir neðan:

Enduro – Miklar breytingar – Allt að vinna – Ekkert að tapa

Þetta sumarið hefur Enduro verið mér ofarlega í huga, sérstaklega eftir þáttöku á Klaustri í vor þar sem voru hátt í 300 keppendur í flottri keppni.

Því miður hefur allt annað verið uppi á tenignum í Íslandsmótinu í Enduro og tók steininn úr í Bolöldu þegar aðeins 33 keppendur tóku þátt í öllum flokkum þrátt fyrir góðar aðstæður, frábæra braut og einstaklega vel lagða þó svo að hringurinn hefði mátt vera styttri.

Ég hef verið í kringum þetta skemmtilega sport í 20 ár, ég tók þátt í minni fyrstu Cross keppni árið 1993 og í minni fyrstu Enduro keppni árið 2000 í Þorlákshöfn þar sem var einn opinn flokkur og svaka stemming allan tímann.  Á þessum 20 árum hefur sportið mikið þróast og miklar framfarir orðið.  Ég er persónuelga rosalega sáttur við þann farveg sem motocrossið er í, í dag þó ég vildi sjá fleiri aldursflokka þar. Í sumar hefur umgjörðin, dagskráin, brautaraðstæður og annað verið til fyrirmyndar og ber sérstakelga að hrósa því.

Að mínu viti er staðan allt önnur þegar kemur að íslandsmótinu í  Enduro.  Því hlýtur maður að spyrja sig hvað sé að og hvað veldur því að aðeins 33 keppendur skrá sig í keppni á einu skemmtilegasta Enduro svæði landssins þar sem brautarlagning og aðstæður eru til fyrirmyndar.  Því vil ég með bréfi þessu koma mínum hugmyndum á framfæri en ég vil sjá breytingar á fyrirkomulagi á Enduro keppnum.  Ég vil taka það sérstaklega fram að ég hef ekkert út á keppnisstaði að setja, né brautarlagningu enda hafa brautirnar í sumar verið vel lagðar og verið skemmtilegar.

Tillaga mín að breyttu mótafyrirkomulagi í íslandsmóti í Endruo.

Aksturstími 12:00 – 15:00

Eingöngu 3 aðalflokkar:  Opinn flokkur, kvennaflokkur og Tvímenningur ( Klausturs fyrirkomulag)

1: Opinn flokkur, aldursskiptur.  Keyrt í 2 x 60 mín.

Undirflokkar eru aldursskiptir. 12-15ára 16-19ára 20+ 30+ 40+ 50+ 60+

2: Kvennaflokkur, opinn.  Keyrt í 2 x 60 mín (jafnvel aldursskiptur)

3: Tvímenningur með sama fyrirkomulagi og Klaustur.  1, 2 eða 3 saman í liði og keyrt í 3 tíma.

Í lok keppnisdags er eingöngu veitt verðlaun fyrir yfirflokka en í lok sumars eru veitt verðlaun fyrir þá undirflokka þar sem lágmarksþátttaka hefur náðst.

 

Dagskráin:

Kl: 12:00 – 13:00        Opinn flokkur og Kvennaflokkur

Kl  12:01 – 15:01        Tvímenningur

Kl  14:00 – 15:00        Opinn flokkur og Kvennaflokkur

 

Brautarlagning þarf að vera með því sniði að hver hringur má ekki vera lengri en 14-20 mínútur til að allir nái pásu á milli híta.  Tvímenningur keyrir allan tímann.  Ég veit að með þessu fyrirkomulagi er ekki hægt að snúa brautinni þar sem Tvímenningur er að keyra allan tímann.  En þar sem Klaustur hefur slegið í gegn finnst mér tilvalið að flétta það fyrirkomulag inn í Íslandsmótið með það að leiðarljósi að styrkja mótið.

Þetta er eingöngu tillaga mín og er hugsuð til að opna umræðu um það fyrirkomlag sem er við líði í dag en mér finnst persónulega að við eigum helling inni þegar kemur að íslandsmótinu í Enduro og er ég sannfærður um að hægt sé að gera það mót meira spennandi með breyttri dagskrá og uppsetningu með það að leiðarljósi að fjölga keppendum.

Hjólakveðja Pétur Smárason #35 með bros á vör 🙂

3 hugrenningar um “Breytt fyrirkomulag í Enduro 2014?”

 1. Hérna í Bretlandi eru endúrókeppnirnar samfellt í 3 klst í öllum flokkum og því mikið undir strategíu keppenda komið hvernig gengur.

  Helsti munurinn sem ég hef fundið miðað við Ísland er að brautarstjórinn er fljótur að breyta brautinni ef einhver kaflinn verður ófær til að halda flæðinu í keppninni og passa þannig skemmtun þeirra sem eru að keppa. Þá eru einnig allaf auðveldari (en lengri) leiðir í kringum mjög tæknilega/erfiða kafla.

  Þetta tryggir að allir sem keppa geta klárað brautina þótt vissulega reyni hún á. Endúróið fer þá að snúast um báráttuna við sjálfan sig, strategíu gagnvart öðrum keppendum (fjöldi stoppa o.s.frv.) frekar en að vera í dauðabaráttu við að koma hjólinu nokkurn veginn ósködduðu á leiðarenda eins og keppnir t.d. á Sauðárkróki og Akureyri snérust stundum um.

  Þetta er líka það sem maður hefur alltaf kunnað að meta við Klaustur, þ.e. að keppnin er fyrst og fremst við sjálfan sig og strategíuna sem maður beitir, á braut sem skemmtileg en krefjandi.

 2. Athyglisverðar hugmyndir frá Pétri. Nú er full ástæða fyrir alla að íhuga þær vel. Augljóst að breytinga er þörf.

 3. Flottir punktar frá Gumma, um að gera að skoða alla möguleika til að lífga Enduróið við. Það var prófað að keyra 1x3tíma og var það ekki að gera sig hér eins með að keyra meistaraflokk í sumar 2x90mín aðeins 3 til 5 keppendur. Ég er búinn að hugsa hvað sé gott að gera í 2 ár og eru þetta mínir helstu punktar en endilega að skoða alla möguleika. Ef ég næ þessu í gegn ætla ég að berjast fyrir því að fá 100+ keppendur í fyrstu keppnina og mun ég þá grilla hamborgara fyrir alla eftir keppni 🙂

  Kveðja Pétur #35

Skildu eftir svar