Frábærri keppni lokið á Klaustri

Ellefta Klausturskeppnin fór fram í landi Ásgarðs við Kirkjubæjarklaustur í gær, 25. maí.

klaustur 1Keppt er í 6 klukkutíma þar sem keppendur taka þátt í tveggja og þriggja manna liðum auk Járnkallaflokki þar sem keppandi keyrir einn allan tímann. Keppendur voru ríflega 300 í ár í 162 liðum. Á föstudaginn hellirigndi á svæðinu og stefndi í netta drullukeppni á laugardag. Enduroguðinn var þó með okkur í liði og á laugardagsmorguninn var komin glampandi sól og létt gola, fullkomið veður, frábært og ekkert ryk í brautinni. Rigningin virðist þó hafa fælt einhverja frá því talsvert mörg lið létu ekki sjá sig og misstu af einhverri skemmtilegustu keppni sem við höfum haldið.

Keppnin fór fram í landi Ásgarðs en ábúendur þar þau Eyþór og Þóra ásamt Herði syni þeirra og Grétur systur Þóru ásamt Guðmundi Vigni og Auði í Skaftárskála hafa tekið frábærlega á móti okkur og við getum hreinlega ekki þakkað þeim nægilega vel fyrir samstarfið. Og ekki má gleyma snillingnum Kjartani sem á heiðurinn af upphafi keppninnar en hann hefur verið óþreytandi í brautarlagningu og alls konar útréttingum á staðnum. Takk öll saman!

Þrír keppendur urðu fyrir meiðslum og voru tveir fluttir með þyrlu til Reykjavíkur til nánari skoðunar. Annar er enn á gjörgæslu og verður til morguns til öryggis, hann reyndist með marið milta og verður því á spítala undir eftirliti næstu daga. Hinn er á almennri deild en hann braut 3 rif og marðist einnig innvortis. Hann á þó að  útskrifast á morgun enda annálað hörkutól. Meiðsl þriðja mannsins voru ekki alvarleg.

Eftir mikla baráttu og gríðarlega góðan akstur voru það þeir Viktor Guðbergsson og Sölvi Borgar Sveinsson sem stóðu uppi sem heildarsigurvegarar dagsins. Járnkallinn 2013 er Jónas Stefánsson. Önnur úrslit urðu sem hér segir:

Tvímenningur – heildarúrslit

1. sæti Viktor Guðbergsson og Sölvi Borgar Sveinsson

2. sæti Eyþór Reynisson og Bjarki Sigurðsson

3. sæti Kjartan Gunnarsson og Kári Jónsson

 

Járnkallar

1. sæti Jónas Stefánsson

2. sæti Einar Sigurðsson

3. sæti Reynir Hrafn Stefánsson

 

Þrímenningur

1. sæti Aron Ómarsson, Örn Sævar og Hinrik Ingi Óskarsson

2. sæti Magnús Þór Sveinsson, Helgi Valur Georgsson og Þorvaldur Ásgeirsson

3. sæti Eiríkur Rúnar Eiríksson, Hörður Másson og Magnús Másson

 

Tvímenningur kvenna

1. sæti Anita Hauksdóttir og Karen Arnardóttir

2. sæti Björk Erlingsdóttir og Theódóra

 

Afkvæmaflokkur (feðgar, feðgin, mæðgin)

1. sæti Magnús Helgason og Guðbjartur Magnússon

2. sæti Hrafnkell Sigtryggsson og Helgi Már Hrafnkelsson

3. sæti Stefán Gunnarsson og Signý Stefánsdóttir

 

90+ (tvímenningur – báðir eldri en 45 ára)

1. sæti Haukur Þorsteinsson og Gunnlaugur Rafn Björnsson

2. sæti Ragnar Ingi Stefánsson og Reynir Jónsson

3. sæti Kristján Már Magnússon og Máni Sigfússon

 

Við biðjumst velvirðingar á mistökum í verðlaunaafhendingu á verðlaunum í 90+ flokki en ekki náðist að koma öllum leiðréttingum og breytingum á liðum og flokkum inn í tímatökukerfið áður en keppni hófst. Vegna þessarar rekistefnu láðist að afhenda öllum keppendum kippu af Mountain Dew sem var aðalstyrktaraðili keppninnar og við biðjumst sömuleiðis afsökunar á því.

Yfirskráningarstjórinn okkar Einar Sverrisson var einn þeirra sem fluttur var á spítala með þyrlu og því skarð fyrir skildi hvað breytingar á liðum á síðustu stundu varðar. Nú er unnið að því að yfirfara allar breytingar og uppfæra úrslit en endanleg úrslit verða birt hér von bráðar. Þangað til má skoða óstaðfest á tímatökusíðunni www.racetimerlive.com og slá inn leitarorðið „Klaustur 2013“

Við höfum fengið frábærar móttökur á Klaustri þau ár sem keppnin hefur verið haldin þar. Það var því með sannri ánægju sem við færðum klaustur 3Heilsugæslunni á Klaustri ávísun upp á 250.000 kr. frá félaginu og keppendum sem þakklætisvott fyrir veitta þjónustu og velvilja í garð keppninnar. Bestu þakkir fyrir okkur.

Að lokum vill félagið þakka öllum sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd keppninnar í ár og við vonumst til að sjá sem flesta keppendur aftur að ári.

Kveðja frá stjórn VÍK

 

Ein hugrenning um “Frábærri keppni lokið á Klaustri”

Skildu eftir svar