Matarprógram í boði Jóa Péturs, VÍFA Akranes / Bootcamp Akranes.

Næstu daga mun ég birta hér nokkra punkta frá Jóa Pétri, en hann er einkaþjálfari og hjólari af skaganum. Þakka honum kærlega fyrir að leyfa okkur að fá smá innsýn í hvað hann ráðleggur sínu fólki. Kannski getum við nýtt okkur eitthvað af þessu hjá honum, jafnvel allt.

 

Matarprógram

 Inngangur

Eftirfarandi ráðleggingar henta öllum þeim sem vilja ná árangri.

Hvort sem markmiðið er að léttast eða þyngjast, er hér um að ræða

raunhæfar leiðbeiningar að settu marki. Hér eru engar skyndilausnir heldur er áherslan

lögð á nýjan heilsusamlegan lífsstíl til að fylgja eftir til frambúðar.

____________________________________________________

Grundvallareglur um mataræði

Mikilvægt er að borða fleiri máltíðir á dag en minni í senn. Gildir þá einu hvort

markmiðið er að léttast eða þyngjast. Það er almenn regla að borða skuli á 2–3 tíma fresti

og miða stærð máltíðar við orkunotkun næstu þriggja tíma. Ef mikil áreynsla er í

vændum, líkamsæfing eða spenna og álag á vinnustað, allsherjar tiltekt á heimilinu eða

áreynsla við að bera þunga hluti, þá er þörf á stærri máltíð en ef ætlunin er að leggja sig

eða horfa á sjónvarp. Fyrir hverja máltíð er þess vegna gott að spyrja sig: „Hvað mun ég

gera næstu þrjá tímana?“

Með því að borða á 2–3 tíma fresti er hægt að viðhalda jöfnum blóðsykri, en það

tryggir stöðuga orku og jafna fitubrennslu í líkamanum. Að borða reglulega og sleppa

ekki máltíðum er þess vegna jafn nauðsynlegt fyrir fólk sem leitast við að létta sig og það

sem vill þyngjast.

Þegar líkaminn fer á mis við máltíð fer hann í varnarstöðu því að hann finnur á sér

að hann fái ekki næga orku. Þegar við „sveltum“ líkamann á þennan hátt, gætir hann þess

sérstaklega að varðveita uppsafnaðan fituforða sinn og byrjar á því að sækja sér orku með

því að brjóta niður vöðvana og brenna þeim. Þar sem vöðvar líkamans sjá um að breyta

fitu í orku, hægist við þetta á reglulegri brennslu í líkamanum og okkur hættir til að fitna.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga, svo og þá staðreynd að stærri vöðvar brenna meiri fitu

en litlir allan sólarhringinn, hvort sem við sofum, sinnum störfum okkar eða stundum

líkamsrækt. Þetta táknar þó ekki að maður þurfi að vera vöðvabúnt því að vöðvar eru

eðlisþyngri en fita og því fer töluvert minna fyrir 1 kíló af vöðvum en 1 kíló af fitu.

Það ræðst af störfum okkar og umsvifum hve góðan tíma og aðstöðu við höfum til að

neyta matar og skipuleggja máltíðir. Þess vegna er flestum nauðsynlegt að skipuleggja

morgundaginn vel og útbúa einhvern hluta þeirra máltíða að kvöldi sem neyta á næsta

dag. Það er auðvelt að fá sér ávöxt, lítinn skammt af skyri eða brauðsneið með hollu áleggi ef þessi matur er til staðar þegar kemur að máltíðinni. Einnig má kaupa og hafa

prótíndrykki eða orkustangir til taks. Ef nestið er búið til að kvöldi og til taks í vinnu eða

skóla næsta dag, eru meiri líkur á að við borðum reglulega hollar máltíðir. Reglulegt

mataræði er umfram allt spurning um skipulagningu og vilja.

 

 

 

Skildu eftir svar