Skráning hafin í fyrstu umferð Suzuki bikarmótaraðarinnar sem hefst á Selfossi

Búið er að opna á vef MSÍ fyrir skráningu í fyrsta mótið af þremur í bikarmótaröð Suzuki en fyrsta mótið fer núna fram í töluvert breyttri braut þeirra á Selfossi, en búið er að lengja hana töluvert ásamt að búið er að setja upp starthlið.  Þátttökugjald er 5.000 kr. og þurfa hjól að vera tryggð og á númerum til að geta tekið þátt.  Almennar keppnisreglur MSÍ gilda í þessari keppni og ef þú átt ekki tímamælir, að þá er hægt að leigja hann hjá Nitró.  Boðið er upp á „Nýliðaflokk“ og er það flokkur fyrir þátttakendur sem aldrei hafa keppt í Íslandsmeistaramóti en vilja prófa að keppa til að fá tilfinningu fyrir því hvernig það er.  Hægt er að skrá sig í þann flokk með að senda póst í netfangið motocrossumfs@gmail.com.  Koma þarf fram nafn, kennitala og hjólastærð og þú ættir að fá svar um hæl yfir reikningsupplýsingar til að greiða þátttökugjaldið en þátttökugjaldið er það sama.  Þeir keppendur sem skrá sig í nýliðaflokk þurfa ekki að leigja sér senda þar sem talið verður í stað þess að nota senda MSÍ enda er tilgangurinn með þessum flokki fyrst og fremst að veita þeim sem hafa ekki keppt áður tækifæri á að taka þátt í svona viðburði.

Það þarf vart að taka það fram að þetta er ein besta æfing sem væntanlegir keppendur í Íslandsmeistaramótinu geta fengið því Selfoss er á keppnidagatali MSÍ í ár, fyrir utan að aðalverðlaunin eru glæsileg í „Pro“ flokknum.  Einnig verða góð aukaverðlaun í boði.  Ungmennafélagið ætlar að gefa þrú árskort í brautina og verður dregið úr nöfnum þeirra sem eru þátttakendur í bikarmótinu.  Veðurspáin fyrir fimmutdaginn 17 maí, sem er almennur frídagur, er hreint út sagt ágæt þó svo að við hefðum hugsanlega viljað sjá hitastigið lítið eitt hærra.  En gert er ráð fyrir að það verði léttskýjað, blankalogn og sex stiga hita.

Skildu eftir svar