Vefmyndavél

MXON 2011 frá Jonni.is

Kári Jónsson

Jónas Stefánsson var með myndavélina á lofti á MXON og hér er flott grein af blogginu hans í heilu lagi:

Þá er Motocross of Nations 2011 afstaðið og þvílíka spennan sem var í dag ! Dagurinn byrjaði á æfingum hjá öllum, fyrst B og svo A næst þar á eftir. Eftir æfingarnar var svo komið að íslensku strákunum að standa sig í B-úrslitum.

B-úrslitin fóru af stað og Kári Jóns byrjaði með rosa flottu starti, eftir fyrsta hring var hann um miðjan hóp en Viktor og Eyþór höfðu báðir lent í einhverju niggi og voru dottnir aðeins aftur úr. Viktor keyrði sig helling í gang og Eyþór komst í gírinn rétt seinna. Það endaði með því að Viktor kláraði efstur af Íslendingunum í 27. sæti, Eyþór næstur þar á eftir í 28. sæti og loks Kári  í 29. sæti sem missti hina báða framúr sér eftir eitthvað smávægilegt klúður á síðustu hringjunum. Semsagt fínn árángur hjá strákunum og auðvitað bullandi reynsla fyrir þá alla.

Eftir B-úrslitin var svo góð pása fram að A-úrslitunum en í millitíðinni var svaka „freestyle“ sýning og allskyns stemning. Í Race 1 í A-úrslitunum voru það eins og venjulega MX1 og MX2 sem mættu til leiks og þar var það enginn annar en Ástralinn Chad Reed sem tók startið og hélt forystunni allann tímann. Á eftir honum voru Bandaríkjamaðurinn Ryan Dungey og Þjóðverjinn Ken Roczen í bullandi baráttu og fór svo að Roczen hafði betur og endaði annar en Dungey þriðji.

Í Race 2 voru það MX2 og MX-Open sem börðust, þar var það Hollendingurinn Jeffrey Herlings sem tók startið og Ken Roczen þar á eftir. Fast á eftir þeim var Frakkinn Gautier Paulin en fljótlega náði hann framúr Roczen og byrjaði þá svakaleg barátta um forystuna milli hans og Herlings. En ekki leið á löngu þar til Paulin hirti forystuna og eftir það átti enginn séns og kláraði hann fyrstur. Á eftir honum endaði Herlings eftir hörku akstur og í þriðja kláraði Bandaríkjamaðurinn Ryan Villopoto eftir hrikalegan akstur en hann var mjög aftarlega út úr startinu.

Í loka híti dagsins, Race 3, voru það svo MX1 og MX-Open sem mættu á ráslínu. Þegar ráshliðin féllu var það enginn annar en Rússinn Evgeny Bobryshev sem tók startið en Ryan Villopoto tók forystuna áður en fyrsti hringur var búinn. En á öðrum hring tók Villopoto eina af sínum klassísku leggjum í beygju og þá náði Bobryshev aftur forystunni sem hann hékk á næstu þrjá hringi þar til rauðhærða kvikindið náði honum aftur. Eftir það stakk Villopoto af og sigraði örugglega en á eftir honum kom svo Ryan Dungey sem náði að vinna sig upp í annað sætið. Það var svo Suður Afríkubúinn Tyla Rattray sem endaði þriðji eftir svakalega flottan akstur.

Þannig að í enda dagsins voru það Bandaríkjamenn sem sigruðu enn einu sinni, en þeir áttu það fyllilega skilið eftir frábæran akstur hjá Villopoto og Dungey, Bagget gekk hins vegar ekki alveg nógu vel en það slapp samt til. Í öðru sæti enduðu Frakkarnir eftir gríðarlega flottan akstur hjá Gautier Paulin og þeir Marvin Musquin og Cristophe Pourcel stóðu sig mjög vel þrátt fyrir að Pourcel hafi reyndar hætt í Race 3. Í þriðja sæti enduðu svo Ástralar eftir frábæra frammistöðu hjá Chad Reed sem keyrði hrikalega í Race 1. Brett Metcalfe keyrði líka fantavel og Matt Moss skilaði sínu.

Alveg hreint mögnuð keppni í alla staði, alveg hrikaleg braut, brjáluð barátta og trylltir áhorfendur um allt svæðið !

Flestir Íslendingarnir ætla að halda stemningunni áfram hér á keppnissvæðinu í nótt en svo verður rúllað til Parísar á morgun og við Arna Benný, Signý og pabbi áfram til Brussel í flug annað kvöld.

Hér eru nokkrar myndir frá deginum en eins og ég sagði í gær mun ég svo hrúga inn myndum í albúm eftir helgina og auðvitað video fljótlega á eftir !

Leave a Reply