Vefmyndavél

Yfirlýsing frá KKA vegna vali á landsliði í MXON

Stjórn KKA vill koma að athugasemdum við val á liði sem á að fara á Motocross of Nations í Frakklandi.

KKA – Akstursíþróttafélag

Akstursíþróttafélag vélsleða- og véhjólamanna á Akureyri
e mail: th@ALhf.is
Vættagili 24, 603 Akureyri
sími: 892 9806, 460 9800, fax. 460 9801

Yfirlýsing stjórnar KKA vegna vals í landslið Íslands í MX

birt á vef KKA og send stjórn MSÍ f.h. valnefndar og liðstjóra

Á vef MSÍ kemur fram val á mönnum í landslið Íslands fyrir Motocross of Nations 2011, sbr. http://msisport.is/pages/frettir/;jsessionid=5C82D609B52ADD269249965B3E2 B7743?iw_content_rs_url=%2Fcontent%2Ffiles%2Fcms%2Farticle%2F2011 %2F08%2F20110804-0922.article .

Stjórn MSÍ skipaði Gunnlaug Karlsson liðstjóra landsliðsins ennfremur samþykkti stjórn MSÍ að skipa Karl Gunnlaugsson og Stefán Gunnarsson til að velja landslið í samráði við Gunnlaug til að keppa á Motocross of Nations þann 17. og 18. sept. n.k. í Frakklandi.

Í liðið voru valdir Viktor Guðbergsson, Eyþór Reynisson og Kári Jónsson.

Stjórn KKA telur að í þessum hópi hefði Bjarki Sigurðsson átt að vera. Vitanlega er erfitt að velja landslið og þar getur komið margt inní sem menn geta verið ósammála um og getur verið að æra óstöðugan að ræða og gagnrýna það mat sem fram getur þurft að fara. Í þessu tilfelli verður þó ekki komist hjá að gagnrýna valið vegna þess að augljóslega er ekki farið að reglum.

Reglur sem fylgja á við valið eru hér:

http://msisport.is/content/files/public/reglur/MX%20of%20Nation%20reglur.pdf

Í því tilfelli sem hér um ræðir koma aðallega til skoðunar 6. og 7. tl.

Við val á 1. keppanda liðsins skal valinn efsti keppandi í Íslandsmótaröðinni í MX-Opnum flokki eftir 4. umferð.

Eyþór Reynisson er efstur í þessum flokki og fer því ótvírætt í landsliðið. En hvernig á að velja 2. og 3. keppanda í liðið? Um það segir í 7. tl.: 2. og 3. keppandi liðsins skal valinn eftir árangri á yfirstandandi keppnistímabili í Íslandsmótaröðinni eða eftir árangri í keppnum erlendis.

Meginreglan hlýtur að vera sú, að valdir eru þeir sem koma í næstu sætum. Vitanlega getur verið undantekning frá þeirri reglu t.d. ef einhver hefur ekki getað tekið þátt í t.d. einni umferð og er því með færri stig en t.d. sá í 2. sætinu en hefur unnið sínar keppnir og sýnt augljóslega betri árangur í þeim keppnum sem hann tók þátt í en hinn.

Meginreglan er hins vegar einfaldlega sú að stigin ráða, þ.e. sá sem hefur fleiri stig hefur staðið sig betur og sýnt betri árangur og á því að vera í landsliðinu.
Í því tilfelli sem hér um ræðir eru engar sérstakar aðstæður sem réttlæta það að fara ekki einfaldlega eftir stigum efstu manna við val í landsliðið.

Bjarki keppir bæði í MX-2 og MX open. Viktor og Kári keppa bara í MX Open. Eftir 4. umferð er Bjarki í 2. sæti í MX2 með 177 stig. Í MX Open er Kári í 2. sæti með 160 stig, Bjarki í 3. sæti með 153 stig og Viktor í 4. sæti með 138 stig.

Skv. 7. tl. reglnanna var maðurinn í 2. sæti valinn næst, þ.e. Kári. Næsta val hefði átt að vera jafn einfalt þ.e. velja manninn í 3. sæti þ.e. Bjarka. Því miður var gengið framhjá Bjarka og maðurinn í 4. sæti valinn í liðið, þ.e. Viktor. Fyrir þessu þurfa að vera veigamikil rök en þau eru ekki fyrir hendi.

Bjarki er 7 stigum á eftir Kára en Viktor er meira en helmingi fleiri stigum eða 15 stigum á eftir Bjarka.

Bjarki varð í þessum sætum í fyrstu fjórum umferðunum, 2.-5.-5.-2. eða 3,5 sæti að meðaltali. Viktor varð í 9.-3.-4.-4. sæti eða í 5. sæti að meðaltali. Ef tekin eru moto-in þá er frammisstaðan þessi:
Bjarki: moto: 3-3-3-6-6-3-1-4 Meðaltal: 3,62

Viktor: moto: 10-8-5-2-2-5-4-3 Meðaltal: 4,87

Bjarki er einfaldlega með mun betri árangur á yfirstandandi keppnistímabili og því hefði átt að velja hann í landsliðið skv. reglunum.

Í rökstuðningi með landsliðsvalinu segir orðrétt:

„Bjarki hefur náð heldur betri árangri þegar litið er yfir heildina í fyrstu fjórum keppnum ársins.“ sbr. http://msisport.is/pages/frettir/;jsessionid=5C82D609B52ADD269249965B3E2 B7743?iw_content_rs_url=%2Fcontent%2Ffiles%2Fcms%2Farticle%2F2011 %2F08%2F20110804-0922.article

Skv. reglum um valið hefði þessi skoðun ein og sér átt að nægja valnefndinni til að sjá að velja bæri Bjarka en ekki Viktor.

Það sem virðist ráða úrslitum hjá nefndinni er að Viktor hafi náð oftar betri tímum í tímatöku en Bjarki. Það ættu allir að sjá að ekki er átt við þetta þegar segir í reglunum að velja skuli þann sem hefur náð betri árangri á yfirstandandi keppnistímabili. Valnefndin virðist velja eftir því hver fór einstakan hring hraðast og verður því valið aftur óskiljanlegt þegar segir síðar í röksemdunum að Bjarki hafi að vísu oftar náð betri tíma í keppninni sjálfri. Ekkert er farið út í það hvernig Eyþór hafi getað nýtt sér að hafa náð besta hring í tímatökum.

Nefndin segir ennfremur í rökum sínum að Viktor hafi mikla reynslu af keppnum erlendis og keppti með landsliðinu 2009. Þessi reynsla er talin dýrmæt fyrir liðið. Ekki er það skýrt nánar hvernig þessi reynsla er talin vera dýrmæt fyrir liðið. Almennt séð er það vitanlega liðstjórinn sem miðlar sinni reynslu og sér um skipulag fyrir keppendur. Ef valnefndin telur að vegna reynslu sinnar erlendis muni Viktor ná betri árangri en Bjarki er það alveg úr lausu lofti gripið. Bjarki er hraðari en Viktor, hann hefur náð betri árangri í ár (þrátt fyrir reynslu Viktors erlendis) og það breytist ekki við að fara til Frakklands. Bjarki heldur áfram að vera betri þar.

Stjórn KKA telur reyndar að valnefndin hafi snúið þessu með reynsluna á haus. Nefndin var í vafa með valið og því hefði hún átt að velja þann sem ALDREI hefur tekið þátt í MX of Nations frekar en þann sem MSÍ hefur sent út áður. Að fara út er vegsauki og viðurkenning fyrir þann sem út fer, hins vegar er kannski ekki líklegt að við munum vinna til verðlauna enn sem komið er.

Auk þess fá menn ekki reynslu nema með því að fá að keppa erlendis. Þess vegna er það hringavitleysa, að setja það fram sem rök, að Viktor sé valinn núna vegna þess að hann hafi verið valin áður. Með þeim rökum munum við alltaf senda sömu menn út. Með tilliti til þess að Viktor hefur áður verið sendur út þá hefði átt að leyfa Bjarka að komast að núna, sérlega vegna þess að hann hefur náð betri árangri hér heima.

Að síðustu segir nefndin að hún hafi valið Viktor vegna þess að hann ekur á 450cc hjóli en Bjarki á 250cc hjóli. Engin stoð er fyrir þessu í reglum um val í liðið. Hvergi er tekið fram að það eigi að velja eftir flokkum, það á einfaldlega að velja þá þrjá menn í liðið sem hafa náð bestum árangri. Valnefndin segir að reynsla Viktors á 450cc hjóli sé betri fyrir heildarútkomu liðsins. Hvernig finnur valnefndin það út? Bjarki hefur náð betri árangri á 250 cc hjóli sínu en Viktor á 450cc hjólinu og heldur áfram að gera það þó keppt sé í Frakklandi.

Þegar öllu er á botnin hvolft þá hefur Bjarki náð betri árangri á Íslandsmeistaramótinu og því hefði átt að velja hann skv. reglum um valið. Okkar mat er að nefndin hafi ekki farið eftir reglum um val á liðinu.

Augljóslega er það yfirmáta bagalegt að slíkt skuli koma fyrir þar sem margir hafa lagt mikið á sig og sett sér markmið í samræmi við reglurnar um val í liðið.

Engin ákvæði eru um að láta önnur viðhorf hafa áhrif á valið, eins og t.d. hvers konar hjól menn aka í keppnum á Íslandi o.s.frv.

Stjórn KKA telur valið ekki vera skv. reglum og því rangt og mjög ósanngjarnt gagnvart Bjarka sem eins og aðrir hefur keppt að því að komast í þetta lið með því að ná sem bestum árangri í mótaröðinni. Við teljum að valnefndin hafi ekki staðið sig vel í þessu máli. Spurningin er hins vegar m.a. sú hvort valnefndin sé því sammála og hvort hún geti yfirleitt eitthvað gert í málinu til að leiðrétta þetta svo vel sé.

Stjórn MSÍ skipaði valnefndina og veitti henni vald til verksins. Nú sýnist okkur ljóst að nefndin hafi ekki farið að lögum sambandsins og er spurning um gildi ákvörðunar valnefndar, sem fékk vald sitt frá stjórn MSÍ að sjálfsögðu með því skilyrði að farið yrði að lögum sambandsins. KKA skorar á stjórn MSÍ að taka málið fyrir á fundi sínum. Fara yfir lögmæti og gildi ákvörðunar valnefndar. Ef stjórnin kemst að því að ekki hafi verið farið að lögum hlýtur ákvörðun valnefndar að vera ólögmæt og valið verður þá framkvæmt upp á nýtt á grundvelli laga sambandsins.

Liðið verður þá skipað upp á nýtt í samræmi við 3. tl. reglnanna þ.e.:

Liðsstjóri í samvinnu við stjórn MSÍ skipar í keppnisliðið.
Stjórn KKA taldi rétt að koma þessum viðhorfum á framfæri til að minnka líkur

á því að sömu mistök verði gerð í framtíðinni. Akureyri 9. ágúst 2011.

Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar KKA Þorsteinn Hjaltason form

Yfirlýsingin er hér á pdf formi

1 comment to Yfirlýsing frá KKA vegna vali á landsliði í MXON

  • KKA hefur birt á heimasíðu sinni þessa viðbót við greinina. Hún er birt hér ef einhver hefur misst af…

    Val valnefndar á landsliðinu er á rökum byggt, engin óheilindi eða annarleg sjónarmið eru þar að baki. Stjórn KKA telur hins vegar með vísan í reglur um valið að ekki megi byggja á öðru en árangri í Íslandsmótaröðinni þegar landsliðið er valið en ekki rökum sem valnefndin byggði á. Aðilar skilja og túlka reglurnar með mismunandi hætti. Málefnið er ekki flóknara eða víðtækara en það.

    KKA kaus að birta yfirlýsingu sína opinberlega vegna þess að þetta á erindi til allra félagsmanna. Opin umræða og skoðanaskipti eru af hinu góða en menn verða að vanda sig við hana. Stjórn KKA fannst valið gagnrýnivert en var ekki með því að vega að einum eða neinum persónulega. Mennirnir sem tengjast þessu eru allir sómamenn og vitanlega ekkert við þá að athuga. Það er augljóst að Viktor er einn af okkar bestu ökumönnum og er góður landsliðsmaður. Liðsstjórinn er vel menntaður þjálfari, með mikla reynslu, góðan árangur, framtakssamur og duglegur. Valnefndarmennirnir eru valinkunnir menn, sem hafa árum saman fórnað tíma sínum og efnum fyrir íþróttina. Hins vegar geta allir gert mistök, nema auðvitað Guð og sá sem aldrei gerir neitt. Það rýrir ekki mannkosti manna eða gildi þó það hendi þá að gera mistök eða túlka reglur öðruvísi en stjórn KKA telur að eigi að túlka þær. Æskilegt er að umræðan sé málefnaleg.
    KKA óskar vitanlega landsliðinu alls hins besta.

Leave a Reply