Bikarkeppnin um helgina – samantekt

Bikarkeppnin um helgina tókst með mestu ágætum og það eina sem hefði mátt vera betra var veðrið.

Viktor #84 á nýja stepdown pallinum í Bolaöldu

Eftir langvarandi sól og blíðu tók hávaðarok og kuldi á móti keppendum á sunnudagsmorguninn. Um 40 manns voru skráðir til keppni í öllum flokkum en sumir voru ansi fámennir þó. Brautin var í mjög góðu standi eftir lagfæringar vikunnar og eins hafði rignt hressilega á föstudagskvöldið þannig að góður raki sat í brautinni Keppnin var keyrð í tveimur hópum: MX-Open, MX2 og Unglingaflokkur saman og Kvennaflokkur, 85, B og 40+ keyrðu saman, tvo moto hvor hópur.  Tæknilegir örðugleikar (byrjendamistök) seinkuðu birtingu á úrslitum en þau eru komin inn núna á Mylaps.com hér

Í MX Open leiddi Viktor bæði motoin og sýndi fantagóðan akstur og hann átti langbesta brautartíma dagsins. Í öðru sæti var Hjálmar sem sýndi frábæran akstur á 125u og í þriðja sæti var Helgi Már sem er koma til baka eftir meiðsli sl. ára. Í MX2 börðust Ingvi Björn og Kjartan um sigurinn en Ingvi Björn vann seinna motoið og flokkinn en Björgvin Jónsson tók þriðja sætið.

Unglingaflokkurinn er alltaf jafn rólegur og yfirvegaður eða ekki. Guðbjartur Magnússon kláraði daginn með fullt hús, Kristján Daði varð annar og Friðrik Freyr Friðriksson frá Selfossi átti gott comeback í þriðja sætið.

Kvennaflokkurinn hefur oftast verið fjölmennari en Guðfinna Gróa var sú eina sem lét sjá sig um helgina og sigraði því sinn flokk en átti vonandi góða keppni við strákana.

85 flokkinn átti Íslandsmeistarinn að norðan Einar Sigurðsson skuldlausan en hjólið bilaði hjá Þorsteini Helga en hann er sá eini sem hefur eitthvað náð stríða Einari í sumar. Hlynur Örn varð í öðru sæti og Viggó Smári í því þriðja.

B-flokkurinn var stærsti flokkurinn og oft var þar hörkukeppni. Sigurvegari dagsins Pálmar harði Pétursson, Skúli Þór Johnsen kom sterkur inn með flottan akstur og varð annar en Ernir Freyr varð þriðji.

40+ jaxlarnir sátu flestir heima en Sigurður Hjartar Magnússon sigraði flokkinn og Hörður Hafsteinsson varð í öðru en hann keyrði flott og var m.a. hársbreidd frá því að taka holeshot í seinna mótoinu.

Annars var þetta fín prufukeyrsla á nýju pöllunum og strax á mánudag voru smávægilegar breytingar gerðar á þeim, uppstökk lagfærð og annað sem betur mátti fara. Það hefði verið gaman að sjá fleiri landsliðsmenn og aðra toppökumenn taka þátt til að fá grimmari keppni og æfingu fyrir helgina en þannig er það bara. Annars er magnað að ekki fleiri skuli taka þátt í bikarkeppnum. Þetta eru vanalega um 30 manns +/- sem mæta sem dugar varla fyrir kostnaði við keppnina. Á sama tíma óska margir eftir fleiri keppnum – þarna vantar eitthvað. Bikarkeppnir eru yfirleitt afslappaðri og betri vettvangur til að prófa að keppa, æfa sig í brautinni eða rifja upp gamla takta. Okkur sem stöndum í þessu finnst því í raun að bikarkeppnirnar ættu jafnvel að vera mun stærri en Íslandsmótin. Þetta breytist vonandi og við höldum bara okkar striki þangað til 🙂

Við þökkum öllum keppendum fyrir mætinguna og öllum þeim sem aðstoðuðu við keppnishaldið fyrir hjálpina. Að lokum óskum við Gísla Guðjónssyni góðs bata en hann varð fyrir því óhappi að detta og handleggsbrjóta sig á leiðinni að flagga.

 

3 hugrenningar um “Bikarkeppnin um helgina – samantekt”

  1. Sorrí, seinna mótoið hjá Hóp1 kom ekki inn, komið núna. Og það er leiðrétt hér með að Skúli Johnsen varð annar í B-flokki en ekki þriðji.

  2. Þetta var skemmtileg keppni. Voru teknar einhverjar myndir af keppninni? Sá einn með myndavél en ég veit ekki hver það var.

Skildu eftir svar