Kári Jónsson í sérflokki á Akureyri í 3 og 4 umferð ECC

Kári Jónsson á Akureyri um helgina

Tekið af motosport.is

Um helgina fór fram 3 og 4 umferðin í ECC (enduro cross country) og fór hún fram við frábærar aðstæður á Akureyri.  Eins og alltaf stóðust norðanmenn væntingar og vel að hvað brautarlögn varðar og voru keppendur mjög ánægðir með brautina og var hún með góðu flæði þó svo að norðanmenn kvarti undan því að það hafi vantað einhvern „grodda“ í hana til að gera hana virkilega spennandi.  En fyrir meirahluta keppenda að þá leyndi hún á sér og veit ég ekki til þess að nokkur hafi ekki verið farin að finna aðeins fyrir því í skrokknum eftir báðar umferðirnar og var þá mýrin lúmsk þó lítil væri.  Einnig var alltaf nóg um að vera við hliðið og er ég á því að þetta bólukerfi sé að bjóða upp á skemmtilegri upplifun en mælarnir.  Alla vega var alltaf eitthvað um að vera við hliðið og fólk gat miklu betur fylgst með hverjir voru fremstir þó svo að það hafi farið í skapið á einhverjum hvað sumir voru lengi að láta pípa á sig.

Kári Jónsson kom sá og sigraði í ECC1 og var hann hreinlega í algjörum sérflokki í þessari keppni.  Réði hann lögum og lofum og var hreint út sagt ótrúlegt að sjá kappann á köflum þar sem hann hreinlega henti hjólinu til í mýrinni eða í öðrum sambærilegum aðstæðum eins og um reiðhjól væri að ræða.  Er mér sérstaklega minnistætt hvernig hann tók mýrina í síðari umferðinni þar sem hann hreinlega tók hana eins og um beygju í motocrossbraut væri að ræða og var oftast ekki nema um 4-5 sekúndur yfir mýrina á meðan aðrir dvöldu lengur við.  Daði Erlingsson varð í öðru sæti og hefur þessi piltur bætt sig gífulega mikið.  Sótti hann á forskot Kára í þriðjuf umferðinni en mig grunar að Kári hafi einfaldlega stýrt hraðanum eins og honum þóknast þó svo að ég ætli mér ekki að gera lítið úr honum Daða.  Gunnlaugur R. Björnsson varð þriðji og er ótrúlega seigt í honum pundið ef svo má komast að orði, en Gunnlaugur var meiddur á hné fyrir keppnina og setti það einhvern strik í reikninginn hjá honum.

Í ECC2 sigraði Bjarki Sigurðsson eftir mjög jafnan og góðan akstur.  Var hann að elta Eyþór Reynisson í þriðju umferðinni en í fjórðu umferðinni fór reynslan að segja til sín hjá Bjarka og gerði Eyþór mistök sem kostuðu hann sigurinn.  Það er gaman að sjá Eyþór í ECC mótaröðinni og er hann að stríða Kára Jónssyni í fyrstu hringjunum en síðan tekur Kári þetta á seiglunni og reynslunni enda eru þeir að keppa í sitt hvorum flokknum.  Engu að síður áhugaverð innkoma Eyþórs í mótaröðina í ljósi þess að hann hefur hingað til eingöngu einbeitt sér að motocrossi.  Eyþór endaði annar eftir helgina og í þriðja sæti varð enginn annar en Jónas Stefánsson sem er feykilega duglegur í þessu öllu saman.

Í tvímenning sigraði Kristófer Finnson og liðsfélagi hans, Baldvin að mig minnir.  Vantar betri skráningu og upplýsingar um þetta á vef MSÍ.  Í öðru sæti varð Guðmundur H. Hannesson og liðsfélagi hans sem ég man ekki hver var (sorrý) og þriðja sæti enduðu þeir Jóhannes T. Sveinbjörnsson og Kristján D. Ingþórsson að mig minnir.  Hægt er að koma á mig nöfnum liðsfélaga með að senda á mig póst.  Biðst ég velvirðingar á þessu en þetta er svona þegar maður stingur af rétt áður en fjórða umferðin kláraðist og ætlar sér að stíla á að upplýsingar á vef MSÍ séu fullnægjandi sem þær eru ekki þegar kemur að tvímenning.

Það er ekki nóg með að það vanti upplýsingar um liðsfélaga þeirra sem keppa í tvímenning heldur vantar heildarúrslit í B-flokknum eins og hann leggur sig.  Afar leiðinlegt að vera að reyna að fjalla um keppnina og geta ekki talað um þá sem sigruðu.  Í óstaðfestum fréttum minnir mig að Einar Sigurðsson hafi unnið í 85cc flokknum, Signý Stefánsdóttir í kvennaflokknum og Guðbjartur Magnússon hafi tekið þetta í B-flokknum og farið létt með.  Alla vega var hann að keyra skuggalega það sem ég sá til.  Ég er ekki frá því að faðir hans Guðbjarts, Maggi Gas, hafi tekið öldunarflokkinn í B en ég bið fólk að hafa það í huga að þetta er byggt á því sem ég sá áður en ég fór af svæðinu sem var um það bil 30 mín fyrir lok fjórðu umferðar.  Afleitt að hafa ekki réttar upplýsingar um árangur keppenda og bið ég MSÍ að laga það hið snarasta.

Nú er ECC komið í smá frí og munu þeir keppendur sem til þess hafa verið valdir keppa fyrir Íslands hönd á ISDE keppninni sem fer fram í Finnlandi í byrjun ágúst.  Loka umferðirnar fara svo fram á Sauðárkrók 3 september að mig minnir.  Hvað KKA varðar að þá vill ég hrósa þeim fyrir skemmtilega braut og var hann mjög áhorfendavæn og skemmti ég mér konunglega við að fylgjast með keppendum.  Er það synd að hugsa til þess að hugur KKA er sá að draga sig hugsanlega út úr ECC mótaröðinni og halda í staðinn alvöru „extreme“ endurokeppni.  Ég vil gjarnan að þeir endurskoði hug sinn hvað það varðar og hætti ekki við að vera með í ECC mótaröðinni en hvet þá jafnframt til dáða hvað keppnishald í alvöru „extreme“ enduro varðar og yrðu það mjög góð viðbót við þá flóru sem er í dag.

Myndir hér

Úrslitin á MyLaps hér

 

Ein hugrenning um “Kári Jónsson í sérflokki á Akureyri í 3 og 4 umferð ECC”

Skildu eftir svar