En ef ég get ekki mætt á Klaustur !??

Nokkur umræða hefur orðið um stöðuna sem kom upp vegna eldgossins í Grímsvötnum.  VÍK neyddist til þess að fresta keppninni um óákveðinn tíma á meðan staðan var óljós.  Nú hefur komið á daginn að gosið var ekki langvinnt né heldur askan á svæðin svo mikil að hún setji stopp á keppnishald.  Þess vegna hefur verið ákveðið að halda keppnina þ. 12. júni n.k.
Eins og gefur að skilja þá setur þetta strik í reikninginn fyrir suma en hentar öðrum jafnvel betur. Langflestir eru sjálfsagt í einhverjum vandræðum með gistingu, en við því geta menn brugðist á ýmsan máta.  Einhverjir ætla bara að keyra fram og til baka og aðrir munu taka með sér tjaldið.  Þar sem er vilji þar finnast ráð.


Einhverjir hafa haft af því áhyggjur hvað verði um keppnisgjaldið, komist viðkomandi ekki á keppnina á þessum tíma, eða ef keppnin hefði mögulega verið feld niður.  Stjórn VÍK hefur skoðað þetta mál vel.  Löngu fyrir keppni hefur verið lögð mikil vinna og fjármunir í undirbúning.  Bæði klúbburinn og landeigandi hafa lagt út töluvert fé og vinnu sem ekki er afturkræft.  Þegar svo hamfarir eins og eldgos ríða yfir og öll fyrirhöfnin og kostnaðurinn er í uppnámi – þá eru góð ráð dýr!  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt kemur uppá og viðskiptaheimurinn hefur fyrir löngu sett sér reglur um þetta.  Alþekkt er svo kallað „Force Majeure“ ákvæði sem í stuttu máli segir að við slíkar óviráðanlegar aðstæður sé ekki hægt að gera einhvern einn ábyrgan fyrir mögulegu tjóni.
Í ljósi þessa hefur stjórn VÍK ákveðið að halda keppnina og keppnisgjöld verða ekki endurgreidd.  Lang flestir sjá sér væntanlega fært að mæta og keppa eins og lagt var upp með en einhverjir geta það ekki.  Þeir hafa alltaf möguleika að selja sætið sitt en ef það gengur ekki þá horfa menn í versta falli á eftir gjaldinu til uppbyggingar á keppnisaðstöðu fyrir komandi Klausturskeppnir.
MSÍ og VÍK munu leggja sitt að mörkum við að aðstoða þá sem vilja koma sætinu í sölu og leikreglurnar varðandi það verða settar fram hér síðar í dag.

Stjórn VÍk harmar það ef einhverjir ná alls ekki að nýta sér keppnisgjaldið, en vonar að menn mæti þessu með skilningi og góðvilja gagnvart sportinu.

4 hugrenningar um “En ef ég get ekki mætt á Klaustur !??”

  1. Er að velta fyrir mér hvernig það verður með skoðun á hjólunum ég er búin að missa gistingu og er að spá að keyra fram og aftur á keppnisdag en í fyrra þurfti að koma degi fyrr með hjólið í skoðun. Verður maður að vera komin laugard 11 júní eða er nóg að koma á keppnisdag 🙂 ??

  2. Mögulegt verður að koma með hjól í skoðun á laugardeginum á milli ca. 15 og 19, og svo á sunnudeginum frá ca. kl. 9.

    Nákvæmari tími og staðsetning verður tilkynnt eftir einn tvo daga.

  3. Hvernig er með tjaldsvæðið þarna, er hægt að komast í rafmagn ?
    Og er eitthvað gistigjald þarna fyrir fellihýsi ?

Skildu eftir svar