Skráning í Klaustur hefst 10.mars

Startið á Klaustri í fyrra

Klausturskeppnin, Transatlantic Offroad Challenge 2011 verður haldin 28. maí í 10. sinn

Ein fjölmennasta íþróttakeppni og langstærsta akstursíþróttakeppni sem haldin hefur verið hérlendis, Klausturskeppnin svokallaða verður haldin á Kirkjubæjarklaustri um 28. maí nk. Skráning í keppnina hefst fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 22. Síðastliðið ár skráðu yfir 400 manns sig til keppni á innan við sólarhring og því vissara að vera viðbúinn þegar skráning hefst þar sem keppendafjöldi í ár takmarkast við 400 manns.

Vélhjólaíþróttaklúbburinn og MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands standa að keppninni ásamt landeigendum á Ásgarði við Kirkjubæjarklaustur. Keppnin á síðasta ári laðaði að sér um 460 keppendur. Þá reyndist brautin mörgum keppendum og hjólum gríðarlega erfið en stór mýrarfláki reyndist ófær er leið á keppnina sem varð til þess að brautinni var breytt þegar leið á keppnina. Undanfarið  hefur gríðarleg vinna verið lögð í að gera keppnissvæðið betur úr garði, slóða hefur verið ýtt upp í gegnum mýrina alræmdu auk þess sem brautin hefur verið lengd.

Langtíma samningur við landeigendur um keppnishaldið hefur haft í för með sér að varanleg salernisaðstaða fyrir keppendur og áhorfendur er í byggingu sem mun verða til mikilla bóta á meðan keppni stendur. Að auki er stefnt að því að bjóða tjaldsvæði í nágrenni keppnissvæðisins þannig að keppendur og áhorfendur.  Allt samstarf við ábúendur og aðra á svæðinu hefur verið mjög ánægjulegt og keppnin hefur reynst mikil lyftistöng fyrir íþróttina ekki síður en ferðamennsku á svæðinu. Ábúendur á Ásgarði og og fleiri samstarfsaðilar á svæðinu eiga bestu þakkir skyldar fyrir að bjóða hjólafólk velkomið á landið sitt.

Markmið aðstandenda er að halda skemmtilega keppni við allra hæfi og laða að jafnt keppendur og aðstandendur þeirra og búa til sannkallaða fjölskyldustemningu. Það er ennfremur mikilvægt markmið okkar að þetta samstarf og umgengni á svæðinu öllu verði til fyrirmyndar. Mikil áhersla verður á gott skipulag og samstarf við landeigendur og aðra samstarfsaðila á svæðinu.

Keppnin hefst kl. 12 á hádegi og lýkur ekki fyrr en 6 tímum síðar eða kl. 18. Þolakstur á mótorhjólum er ein erfiðasta íþróttagrein heims og því er þessi keppni langt frá því að vera auðveld þó svo skemmtunin sé lykilatriði flestra þátttakenda. Keppt verður í nokkrum flokkum s.s. einstaklingsflokki en sigurvegarinn þar fær sæmdarheitið „Járnkarlinn“ að keppni lokinni enda gríðarleg þolraun að keppa einn í 6 tíma í keppni sem þessari. Einnig verður keppt í tveggja og þriggja manna liðum auk þess sem veitt verða ýmis skemmtileg verðlaun s.s. í flokki feðga, mæðgina, eldri en 90  ára samanlagt í tveggja manna flokki og eldri en 135 ára samanlagt í þriggja manna flokki. Það verður því stutt í léttleikann og stemninguna þegar menn safnast saman í grennd við Kirkjubæjarklaustur 28. maí nk.

Í tengslum við keppnina mun Vélhjólaíþróttaklúbburinn styðja gott málefni og mun hluti keppnisgjalda renna til málefna Blóðbankans og Blóðgjafafélag Íslands. Að auki mun félagið standa fyrir sérstöku blóðsöfnunarátaki meðal hjólafólks undir heitinu „Gefum í – Blóðbankann“ í tengslum við keppnina.

Skráning í keppnina fer fram á vefnum www.msisport.is og hefst skráning þann 10. mars nk. kl. 22 og það er því um að gera fyrir menn að vera vel vakandi á fimmtudagskvöldið því röðun á startlínu verður “fyrstir koma – fyrstir fá”!

Stjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins

Nánari upplýsingar gefur Hrafnkell Sigtryggsson, formaður klúbbsins í síma 669 7131, eða í tölvupósti vik@motocross.is

4 hugrenningar um “Skráning í Klaustur hefst 10.mars”

  1. vantar liðsfélaga! endaði í 20 sæti í fyrra, ætla hærra núna 😉 keppi á suzuki rm 250 áhugasamir hafið samband í 662-1234

  2. Athugið. Það er búið að laga prentvillu sem var í textanum. Skráningin hefst klukkan 22 á fimmtudagskvöld! (ekki klukkan 2)

Skildu eftir svar