Nígeríusvindl hér í smáauglýsingunum

Upp hefur komist um svindlara sem reyndu að hafa fé af Íslendingi sem auglýsti hjól sitt til sölu hér á vefnum. Við viljum biðja fólk að vara sig á öllum dularfullum karakterum sem bjóða gull og græna skóga fyrir gamla góða hjólið þitt. Hér er bréfið sem okkur barst og sagan er rakin:

Ég auglýsti Husaberg hjólið mitt til sölu á vefnum hjá ykkur fyrir nokkrum vikum og það setti sig neðangreindur aðili í samband við mig varðandi að kaupa hjólið.

Mér fannst aðeins gruggugt hvernig hann stóð að málinu en hélt áfram með málið.

Í gær fékk ég tékka frá honum frá HSBC bankanum fyrir hjólinu plús flutningskostnaði.  Hjólið átti að kosta 3000 evrur en tékkinn hljóðaði uppá 6.500 evrur.

Ég skoðaði póststimpilinn á umslaginu sem tékkinn kom í og hann er frá Benin en það er ríki í Afríku sem liggur við hliðina á Nígeríu.

Ég lét kanna tékkann í mínum viðskiptabanka og hann er falsaður eins og við var að búast.

Nú er blessaður kallinn á fullu að reyna að láta mig skipta tékkanum og senda mismuninn á kaupverðinu og tékkanum til baka til sín í gegnum Western Union.

Þeir virðast vera búnir að uppgötva enduro.is smáauglýsingarnar til að leika þennan leik og ég vildi með þessum pósti upplýsa ykkur um þetta öðrum til varnaðar.

Trixið hjá þeim er að láta viðkomandi aðila innleysa tékkann og áður en bankinn er búinn að finna út að hann er falsaður (tekur allt að 3 vikum) þá er maður búinn að senda mismuninn (í mínu tilviki yfir 500.000) í gegnum Western Union og vonlaust að fá það til baka en maður þarf að borga bankanum andvirði tékkans til baka.

Vona að þessi póstur komi öðrum til hjálpar.

Árni Gunnar Vigfússon

3 hugrenningar um “Nígeríusvindl hér í smáauglýsingunum”

  1. Þeir eru heldur betur hressir þarna í Afríku. Gott að þetta komst upp áður en allt fór til fjandans

  2. Þetta eru miklir snillingar, fékk líka svona fyrirspurn. Hann vildi endilega vita hvort ég samþykkti kaupin svo hann gæti látið einkaritarann! sinn enda mér ávísun fyrir hjólinu. Hann hafði hins vegar engan áhuga á hjólinu og vildi ekkert vita um það og kippti sér upp þótt ég segði 85una vera fína fyrir 5 ára og hrikalega kraftmikla. „Já ok, en má ég senda þér ávísunina“ var svarið.
    Megafyndið en varasamt. Þetta hefur verið stundið á ferðaþjónustufyrirtæki í einhver ár og það hafa einhverjir tapað peningum á þessum vitleysingum. Kv. Keli

  3. Sæll Árni

    Kynnir þessi aðili sem Harry Jones? Var að fá tilboð í YZ85 sem ég er með til sölu og vill þessi aðili bara borga uppsett verð og að ég stofni PayPal. Ég spurði hann hvort hann ætlar að flytja hjólið út og hann hefur ekki svarað því, biður mig bara um að stofna PayPal reikning. Pottþétt svindl en greinlegt að þeir vakta orðið auglýsingar á motocross.is

Skildu eftir svar