Íslandsmótið í Enduro hefst á laugardag

Titilvörn Kára Jónssonar hefst á morgun í Bolaöldu

Nýjar reglur í Íslandsmótinu í Enduro eiga eflaust eftir að setja nokkurn svip á keppnishaldið. Keppnin heitir nú Enduro CC sem stendur fyrir Enduro „Cross Country“ og verður lögð meiri áhersla á betra flæði í brautunum heldur en ófærur eins og hefur tíðkast undanfarið.

Önnur breyting er sú að nú er einungis ein keppni í Meistaraflokki á dag í stað tveggja áður. Keppnin er 150 mínútur í stað 2 x 90 mín. Þetta mun væntanlega leiða til þess að keppendur þurfa að koma inn í þjónustuhlé og taka bensín, sem er alltaf skemmtilegt fyrir áhorfendur og aðstandendur.

Áhorfendur er hvattir til að mæta í Félagssvæði VÍK við Bolaöldu en B-flokkur hefur keppni klukkan 12.00 og Meistaradeild klukkan 13.45.  Góð aðstaða er við rás- og endamark til að fylgjast með keppendum, en menn þurfa að vera vel skóaðir ef tekinn er göngutúr inní Jósepsdal til að sjá stærstu brekkurnar og þrautirnar. Spáð er góðu veðri á keppnisdag.

Við minnum keppendur á að skoðun hjóla hefst klukkan 11.00 og klukkan 11.30 fyrir þá sem eru í Meistaradeild.

Sjá dagskrá hér.

Því má bæta við að startið verður við motocross brautina í Bolaöldu eins og svo oft áður. Leiðin liggur upp úr brautinni sem hlykkurinn liggur rétt við veginn. Þaðan er keyrt inn í dalnum nálægt veginum og upp gilið, hringur tekinn í sandinum og niður eftir og inn á svæðið aftur. Meistaraflokkskeppendur keyra nokkrar sérleiðir sem B-flokkurinn sleppir. Pitturinn verður staðsettur meðfram bílastæðinu og tímatökuhliðið við innkeyrsluna í brautina.

Hljóðmæling verður gerð á hjólum og mega keppendur búast við athugasemdum í skoðun ef hjól reynast yfir hávaðamörkum. Hjól verða ekki útilokuð frá keppni en mælst er til þess að menn bæti úr þessu fyrir næstu keppni.

Hér sést hringurinn nokkurn veginn á GPS plotti en hringurinn er uþb. 14 km langur.