Áfram ÍSLAND

Íslendingar í Evrópu

Áfram ÍSLAND
Áfram Ísland

Íslenskir motocross ökumenn eins og aðrir íþróttamenn hafa löngum haft þörf fyrir að bera sig saman við þá bestu í heiminum. Raggi og Nonni freistuðu gæfunnar á níunda áratug síðustu aldar og svo hafa nokkrir fylgt í kjölfarið, bæði í motocross og enduro. Á síðustu árum, eftir að Íslendingar hafa orðið fullgildir meðlimir í alþjóðasamfélaginu, eftir inngöngu MSÍ í FIM hefur orðið nokkuð áberandi aukning í þessum útflutningi. Motocross.is heyrði í tveimur ungum ökumönnum sem eru að freista gæfunnar í Evrópu um þessar mundir. Þetta eru þau Aron Ómarsson og Bryndís Einarsdóttir.

Aron í Crevillent brautinni á Spáni í Janúar

Aron er nú staddur á Spáni eftir að hafa brotið viðbein í keppni þar fyrir um 4 vikum síðan. Sárið er að gróa og er hann nýbyrjaður að hjóla aftur. Fljótlega stendur til að flytja sig upp til Belgíu til að hjóla, æfa og keppa. Aron fór strax til Belgíu síðasta haust til að hjóla og var á Spáni yfir háveturinn. Draumurinn er að halda til í Evrópu í nokkur ár en því miður er ekki nægileg innkoma og aðeins of mikið af útgjöldum þannig að það lítur út fyrir að hann komi heim í sumar.  Aron er að klára þriðja árið á samningnum sínum við N1 og Nítró og er gríðarlega þakklátur við þá fyrir hvað þessi fyrirtæki hafa stutt mikið við bakið á honum sem og stuðninginn sem hann hefur fengið frá foreldrum sínum í gegnum tíðina. Gunni í Cubic og Össi #21 hafa svo hjálpað honum mikið með hjólið og í ræktinni.  Aron verður því á Kawasaki KXF 450 í Belgíu í vor og eitthvað fram á sumar.

Áætlun Bryndísar er þétt setin í sumar. Smellið á kortið fyrir stærri mynd.

Bryndís Einarsdóttir náði góðum árangri í sænsku mótaröðinni síðasta sumar og endaði í 9.sæti, en það var hennar fyrsta sumar á erlendri grundu. Seinni part sumars keppti hún í 3 umferðum í heimsmeistarakeppninni og náði sérstaklega góðum árangri í síðustu umferðinni þar sem hún nældi sér í 10 stig. Í ár er stefnt nokkuð sunnar á landakortið og taka þátt í öllum umferðunum í heimsmeistarakeppninni auk þess að keppa í þýsku og hollensku meistarakeppnunum. Bryndís er því skráð í 23 keppnir í sumar og er vika í þá fyrstu.

Bryndís var í þrjár vikur á Spáni í þjálfunarbúðum undir stjórn Harry Everts en þetta er þriðja árið í röð sem Bryndís eyðir janúarmánuði þar.

Bryndís verður áfram á KTM SXF250 hjóli í sumar og er nú komin með Acerbis sem styrktaraðila sem klæðir hana frá toppi til táar í keppnum og á æfingum. Bryndís hélt utan í vikunni og byrjar að hjóla úti nú um helgina, hún verður með bækistöðvar í Belgíu og pabbi hennar, Einar Smárason, verður með henni á ferðinni.

Bryndís í Acerbis gallanum með Harry Everts

Motocross.is ætlar að fylgjast með þeim og fleirum sem verða á faraldsfæti í sumar.

3 hugrenningar um “Íslendingar í Evrópu”

  1. Ég er virkilega sáttur með þetta fólk og við ættum ölla að reyna styðja við þessa afreksmenn og afrekskonur!

Skildu eftir svar