Stefnan tekin uppávið

img_5270
Stefán Gunnarsson landsliðseinvaldur kemur skilaboðum til sinna manna

Íslenska landsliðið í motocrossi er nýkomið heim frá Ítalíu eftir að hafa keppt á Motocross of Nations eins og lesendur síðunnar ættu að vita. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland tekur þátt í keppninni en fyrsta skiptið sem Stefán er landsliðseinvaldur. Við slóum á þráðinn til Stefáns og spjölluðum aðeins við hann.

Sæll Stefán og velkominn heim. Hvernig er þetta ferli búið að vera?

Þetta byrjaði bara strax í ágúst þegar við völdum liðið og þá fór allt í gang. Við þurftum að útvega kostendur, flutning, flug, galla, límmiðasett og allt sem þessu fylgir þannig að við hittum keppendurnar og aðstandendur þeirra og skiptum með okkur verkum. Samstarftið gekk bara vel og þetta small allt.

Myndaðist góð stemmning í hópnum?

Já, strákarnir náðu vel saman en kannski var þetta aðeins öðruvísi en áður þar sem núna var elsti keppandinn 21 árs í staðinn fyrir að vera sá yngsti. Þeir hafa náttúrulega brennandi áhuga svo það var auðvelt að virkja þá og þeirra nánustu.

Og svo var bara komið að brottför?

Við fórum út 10 dögum fyrir keppni og sóttum bílinn okkar úr skipinu í Rotterdam. Svo var náð í hjólin og farið beint á verkstæði sem heitir Ultimate Racing Suspension sem sá um að „búa til“ dempara fyrir strákana. Eigandi þess fyrirtækis kom svo með okkur að hjóla á laugardeginum í Hollandi og kláraði að fínstilla demparana með strákunum.

Á sunnudeginum tóku þeir svo þátt í Belgíska meistaramótinu til að kynnast aðeins umhverfinu. Í þetta skiptið voru allir helstu ökumenn heimsins skráðir í keppnina í undirbúningi fyrir MXoN þannig að standardinn var eins hár og hugsast getur. Það tók aðeins vindinn úr okkar drengjum að vera með þeim allra síðustu í keppni sem fyrirfram við héldum að væri einhver venjuleg keppni.

Var einhver uppgjöf í þeim?

Neinei, við fórum svo niður til Ítalíu á mánudeginum og hjóluðum stíft í tveimur brautum á þriðjudegi og miðvikudegi og það gekk mjög vel. Strákarnir voru bæði að glíma við hitann og svo nýjar brautir þar sem wúppsarnir og stökkin eru talsvert stærri en þeir hafa vanist á Íslandi. Við náðum góðri stemmningu þar í hópinn og allt á áætlun.

En keppnin, hvenær mættuð þið á svæðið?

Við fórum svo á keppnisstaðinn á fimmtudaginn og slökuðum á. Föstudagurinn fór í þessi formsatriði sem fylgja þessu, skoðun, hljóðmælingu og þess háttar. Svo löbbuðum við brautina til að kanna hana einnig og fengu þeir held ég hroll við að sjá þessi svakalegu stökk sem voru enn stærri en þessi frá því nokkrum dögum áður. Þeir enduðu nú með að stökkva alla pallana nema kannski eitt stepup og eitt annað sem aðeins örfáir stukku hvort sem er.

Náðuð þið markmiðum ykkar í keppninni?

Já og nei. Í upphafi var ég nú mjög bjartsýnn og vildi stefna á A-úrslitin en svo þegar við sáum að 37 þjóðir voru skráðar til leiks sem er 6 þjóðum meira en í fyrra, þá tónuðum við þetta aðeins niður og stefndum á B-úrslitin. Þau markmið náðust og við enduðum með 7 þjóðir fyrir aftan okkur sem við eru miklu fleiri þjóðir en síðast. Við erum enn einhverjum 18 sekúndum hægari á hverjum hring en núna vita líka strákarnir hvar þessar sekúndur tapast, það er í wúppsum og beygjum, þar þarf að æfa sig.

Stefán ásamt Aroni og Gulla á æfingu
Stefán ásamt Aroni og Gulla á æfingu

Hvert er framhaldið? Er hugur í liðinu?

Þrátt fyrir að hafa fengið á túlann nokkrum sinnum í ferðinni er engin uppgjöf í þeim. Þeir eru staðráðnir í að reyna að komast til æfinga erlendis á næsta ári til að ná enn lengra. Það er einfaldlega nauðsynlegt í hvaða íþrótt sem er að spreyta sig erlendis til að ná skrefinu hærra. Þeir þurfa að fá að glíma við ýmislegt sem þeir fá einfaldlega ekki heima. Aron er kominn svo langt með það að hann býr nú í Mekka íþróttarinnar í Belgíu og er að gefa allt sitt í að fá að hjóla með þeim bestu en þangað fara langflestir þeirra Evrópubúa sem vilja eða hafa náð langt og æfa þar stóran hluta af árinu.

Hvað með reglurnar, verða þeir ekki að keppa á Íslandi til að komast í liðið?

Það virðist vera einhver misskilningur með það að sú regla sé í gangi. Það var ákveðið á formannafundi hjá MSÍ að hafa þessar viðmiðunarreglur en sá fundur hefur ekki æðsta vald sambandsins. En hverju sem því líður mun ég koma til með ræða það á næsta formannafundi að breyta þessum reglum þannig að valið verði í liðið óháð árangri á keppni í Íslandsmótinu.

Ertu farinn að skipuleggja næsta ár?

Ég er svo sem ekki beint að því vegna þess að liðið er aðeins valið í eina keppni í einu. Það er svoleiðis með öll liðin í MXoN að valið fer fram kannski 1-2 mánuðum fyrir keppni og þangað til er enginn viss um sitt sæti. Ég útiloka ekki að taka þetta verkefni að mér aftur á næsta ári en það verður ekki auðvelt að safna fyrir ferðalaginu til Denver í Colarado nema ef ástandið skáni eitthvað. Við reyndum þó að koma okkur upp samböndum við menn í kringum keppnina um að útvega hjól og búnað fyrir næsta ár en það er á byrjunarstigi enn.

Þannig þú ert ánægður með þetta í heildina?

Já ég er það, svo er ég líka spenntur að fylgjast með sjónvarpsþættinum sem Maggi og Þorri tóku upp með okkur í allri ferðinni og verður sýndur á RÚV fljótlega. Ég vona að það geti verið íþróttinni til framdráttar að sýna landanum hvað við erum að leggja mikið á okkur og hvað þetta er í raun vinsæl keppni um allan heim.

Aron Ómarsson, Stefán Gunnarsson, Viktor Guðbergsson, Karl Gunnlaugsson, Gunnlaugur Karlsson
Liðið sem keppti á MXoN ásamt fararstjórum. Helstu kostendur liðsins voru Eimskip, Icelandair og Jarðböðin Mývatni.

Skildu eftir svar