Álfsnes lokar á morgun kl. 20 – Bolaöldubrautin lokuð fram að helgi

Nú er mikil vinna í gangi í Álfsnesi. Stóru fréttirnar eru að í dag var borað eftir vatni og vonandi næst vatn upp úr henni á morgun og þá breytist vonandi margt á nesinu. Það vantar þó enn rafmagn inn á svæðið en það verður leyst með rafstöð amk. fyrst um sinn Vonandi næst að koma upp safntank og aðrennslislögn í hann fljótlega en fyrst um sinn munum við nota haugsugu til að bleyta brautina. Búið er að fá 40 feta gám sem verður settur undir brautina við startið þannig að hægt verði að keyra inn á það án þess að þvera brautina og margt fleira. Á morgun miðvikudag lokar brautin kl. 20. Eftir það er öll aðstoð vel þegin en  vinnukvöld verður í brautinni á fimmtudagskvöldið frá kl. 18. Það þarf að týna rusl á svæðinu og úr trjákurlinu og því eru menn beðnir um að mæta með ruslapoka og hrífur með sér. Á föstudag er spáð skúrum á svæðinu og vonandi brautin nái að blotna aðeins fyrir helgina.

Bolaöldubrautin hefur verið í ágætu standi undanfarna daga enda er búið að keyra vökvunarkerfið nánast stanslaust undanfarið sem er mjög dýrt. Aðsókn hefur verið frekar lítil eins og í öðrum brautum og greinilegt að menn eru í sumarfríi þessa dagana. Starfsmenn VÍK, Garðar og Arnar Ingi verða að undirbúa brautina í Álfsnesi næstu daga og því verður Bolaöldubrautin lokuð fimmtudag og föstudag. Enduroslóðarnir og byrjendabrautirnar eru opnar eins og vanalega.

Skildu eftir svar