3. umferð Íslandsmóts MSÍ í Moto-Cross á Álfsnesi 25. júlí

3. umferð Íslandsmóts MSÍ í Moto-Cross fer fram á akstursíþróttasvæði VÍK á Álfsnesi laugardaginn 25. júlí. Lokadagur skráningar er um miðnætti þriðjudaginn 21. júlí. Það skal áréttað að skráningu líkur á fyrrgreindum tíma og eru engar undanþágur frá því, best er því að skrá sig tímanlega þannig að hægt sé í tíma að greiða úr einhverjum mistökum í tíma. Álfsnes brautin hefur nýlega verið tekin öll í gegn en hefur tréspæni verið blandað við jarðveginn allann hringinn. Þetta var einnig gert í brautinni hjá KKA á Akureyri og gafst vel.

Hörkubarátta hefur verið í flestum flokkum í fyrstu tveimur umferðum ársins og staðan til Íslandsmeistara opinn í flestum flokkum.

Rétt er að minna keppendur á að „MX dagskrá 2009“ er að finna undir „Reglur“ á heimasíðu MSÍ og gott er að prenta hana út og hafa með sér á keppnisstað. Einnig er gott að hafa meðferðis útprentun af keppnisreglum.

Keppendur undir 18 ára aldri þurfa að koma með þáttöku yfirlýsingu sem skal undirrituð af forráðamanni, þáttökuyfirlýsingu er að finna undir „Reglur“ á heimasíðu MSÍ. Það sparar mikinn tíma fyrir skoðunarmenn að þeir keppendur sem þurfa þáttökuyfirlýsingu hafi hana með sér tilbúna þegar þeir mæta í skoðun.

Keppendur ATH. reikna má með að hjól verði hávaðamæld á Álfsnesi og því rétt að passa upp á að púst / hljóðkútar séu í lagi.

Stjórn MSÍ

Skildu eftir svar