Góð stemming við opnun Bolöldu síðasta fimmtudag

Bílastæði Bolöldu við opnun
Bílastæði Bolöldu við opnun

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum sem hefur áhuga á hjólamennsku, að Bolaalda opnaði með pompi og prakt fimmtudaginn 9. apríl og hefur hún aðeins einu sinni verið opnuð fyrr.  Var það 3 apríl árið 2007.  Var frábær stemning á svæðinu og óhætt að segja að bílastæðið hafi verið kjaftfullt af bílum, hjólum og skemmtilegu fólki sem var komið í þeim eina tilgangi að hafa gaman af því að vera til.  Ekki var hægt að kvarta yfir brautinni og er ljóst að Bolaalda á bara eftir að verða betri í sumar og er það von VÍK að hún muni eiga sitt blómaskeið í sumar með tilkomu vökvunarkerfisins sem sett var upp í lok síðasta sumars.  Mun VÍK reyna að fínstilla brautina betur eftir efnum og aðstæðum.  Síðan má ekki gleyma því að óðum styttist í Álfsnes og má vænta frétta þaðan í vikulok.  Á meðan bendum við á, að kaupa þarf miða í brautina og er hægt að gera það á Litlu kaffistofunni.  Enn að sjálfsögðu þurfa þeir ekki miða sem búnir eru að kaupa sér árskort á vildarkjörum VÍK.  Að lokum skal bent á að ekki er búið að opna fyrir enduroslóðana og biðjum við hjólamenn að virða það, þar sem landið er mjög viðkvæmt núna.  Nánar verður auglýst þegar opnað verður inn á slóðana.

Skildu eftir svar