Greiðsluseðlar v. félagsgjalda farnir af stað

Ágætu félagsmenn, greiðsluseðlar vegna félagsgjalda eru farnir út og sjást nú þegar í heimabönkum. Núna þarf félagið ykkar hjálp. Að byggja upp aksturssvæði til að stunda okkar frábæru íþrótt og útiveru kostar peninga og því þurfa sem flestir að leggja sitt af mörkum. Félagið heldur úti tveimur svæðum og hjá því er starfsmaður í vinnu auk sumarstarfsmanns sem er kostnaðarsamt. Því er um að gera að greiða félagsgjaldið STRAX!

Fjöldi manns vinnur líka sjálfboðastarf á vegum félagsins við að halda keppnir, byggja upp svæðið og tryggja rétt okkar á slóðum og vegum landsins.

Nánar um félagið sem er ágætt fyrir alla að vita
• Vélhjólaíþróttaklúbburinn, VÍK, er hagsmunafélag allra þeirra sem keppa og ferðast á torfærumótorhjólum.
• Umhverfisnefnd VÍK vinnur að því að fræða menn um góða umgengni við náttúruna og aðra útivistarhópa.
• VÍK rekur tvö akstursvæði í nágrenni Reykjavíkur. Á Álfsnesi ofan við Mosfellsbæ eru tvær motocrossbrautir, annars vegar fyrir 85cc hjól og hins vegar stærri hjól.
• Á Bolaöldusvæðinu til móts við Litlu kaffistofuna er komin frábær aðstaða fyrir sportið. Þar er byrjendabraut, 85cc braut og motocrossbraut í fullri stærð. Auk þess hafa verið lagðir þar tugir kílómetra af krefjandi enduroslóðum. Þar er nú komin fjórhjólaleiga, klúbbhús með hreinlætisaðstöðu,  háþrýstiþvottaaðstöðu og á næstunni verður sett upp vökvunarkerfi í motocrossbrautina. Félagið rekur  einnig jarðýtu og traktor til að lagfæra brautir og slóða reglulega.

Félagsgjald VÍK er fljótt að borga sig!
Félagsgjald VÍK er aðeins 4.000 krónur en við leyfðum okkur að bæta við 240 kr. greiðsluseðilsgjaldi til að standa straum af seðlunum. Með því að greiða félagsgjaldið styður þú starf VÍK og færð að auki afsláttarkort sem veitir 5-30% afslátt hjá fjölda aðila.

Afsláttur af bensíni hjá Olís og Litlu kaffistofuna
Miðar í brautirnar fást í sumar á bensínstöðvum Olís og í Litlu kaffistofunni. Olís styrkir félagið veglega á móti. Félagsmenn sem eiga kort frá síðasta ári fá sendan 2008 límmiða en nýir félagsmenn fá send viðskiptakort Olís sem félagsskírteini. Skírteinið veitir þeim 4 kr. afslátt af bensíni (af fullri þjónustu) og 2 kr. afslátt af hverjum lítra í sjálfsafgreiðslu auk 10% afslátt af flestri annarri vöru á Olís stöðvum og hjá Ellingsen. Af  öllum kaupum félagsmanna renna 0,5%  til VÍK sem viðbótarstyrkur þannig að þú styrkir félagið enn frekar með því að versla hjá Olís.

Lægri brautargjöld – frí afnot af enduroslóða á Bolaöldusvæðinu
Félagsmenn VÍK greiða aðeins fyrir afnot af motocrossbrautunum í Álfsnesi og Bolaöldu. Afnot af enduroslóðunum eru ókeypis en allir aðrir greiða dagspassaverð fyrir afnot af slóðunum. Þú sparar þér því umtalsverða fjármuni með því að vera félagi í VÍK.

Árskort í boði fyrir félagsmenn
Félagsmenn í VÍK geta keypt árskort á bestu kjörum í motocrossbrautirnar og eru nánari upplýsingar að finna annars staðar á vefnum.

Leggðu þitt af mörkum – borgaðu félagsgjald í VÍK 2008 sem fyrst
Þú getur greitt meðfylgjandi greiðsluseðil í næsta banka eða í gegnum heimabankann þinn.

Skildu eftir svar