Vefmyndavél

Sólheimasandur lokaður

Landeigendur á Sólheimabæjunum í Mýrdal hafa tekið þá ákvörðun að loka Sólheimasandi fyrir allri umferð, bæði vélhjóla og bíla.  Ákvörðun um þetta var tekin á fundi landeigenda laugardaginn 17.maí, og getum við hjólamenn kennt sjálfum okkur um að svona er komið.
Bændur á Sólheimabæjunum hafa undanfarin ár verið sérlega liðlegir til að veita hjólamönnum leyfi til að hjóla á sandinum og hefur umferð hjólamanna oft verið mikil.  Það hefur hins vegar…


..verið skilyrði að hjólafólk hefði samband og fengi leyfi til að hjóla, og héldi sig neðarlega á sandinum þar sem engin gróður er og vindur og regn eyðir förum á skömmum tíma.
Okkur hjólamönnum hefur ekki tekist að fara eftir þessu.  Mjög mikil umferð hjólafólks hefur verið um sandinn undanfarið, í framhaldi af fréttaumfjöllun um hjólamann sem missti hjól í ánna Klifandi, en Klifandi markar austurjaðar svæðisins sem um ræðir.  Fáir af þeim sem hafa nýtt sér sandinn undanfarið hafa hirt um að láta vita af sér og hafa þess vegna ekki haft vitneskju um hvar mátti hjóla á svæðinu.  Afleiðingin er auðvitað sú að menn hjóla allsstaðar.  Þykir landeigendum nú nóg komið, sérstaklega eftir að einn þeirra gaf sig á tal við hjólamenn til að biðja þá að hjóla neðar á sandinum, utan gróinna svæða, og var svarað með skætingi.
Hliðum að Sólheimasandi verður lokað og settar upp merkingar um að öll umferð sé bönnuð.  Þessi ákvörðun verður hugsanlega endurskoðuð næsta haust.

Ólafur H. Guðgeirsson
Umhverfisnefnd MSÍ

Leave a Reply