Mótorhjólamessa á mánudaginn

Mótorhjólamessa í samstarfi þjóðkirkjusafnaða og Hvítasunnukirkjunnar verður í Digraneskirkju, annan í Hvítasunnu klukkan 20. Flestir mótorhjólaklúbbar munu eiga fulltrúa í messunni með þátttöku sinni.

Mótorhjólamessan er árlegur viðburður þar sem hinir ýmsu mótorhjólaklúbbar ríða fákum sínum í fylkingum til Digraneskirkju. Sjaldan koma svo mörg vélhjóla saman á einum stað svo almenningi gefst tækifæri á því að skoða fákana og spjalla við ökumenn þeirra. Messan er ALVÖRU messa, með prédikun og altarisgöngu, svo það er ekkert slegið af í helgihaldinu, þó svo umbúnaðurinn sé sveipaður léttleika og prestarnir (sem verða að vera mótorhjólafólk) eru búnir sama klæðnaði og viðbúið er af vélhjólafólki (hefðbundnum öryggisbúnaði vélhjólamanna). Leður og Goretex er því "viðeigandi" klæðnaður. Mótorhjólamessan er einnig samstarfsverkefni Þjóðkirkju og Hvítasunnu og hafa prestar frá báðum þessum kirkjudeildum annast um helgihald. Það er stórkostlegt að sjá svo fjölbreytilegan söfnuð koma saman til helgihalds og ekki spillir nú fyrir að þetta minnir líka á það að við erum líka til í samfélaginu og umferðinni.

Æskulýðsfélagið Meme sem starfar í Digraneskirkju er að fara til Prag á evrópskt æskulýðsmót í ágúst. Krakkarnir eru dugleg að safna sér fyrir ferðinni og ætla að hafa kaffisölu eftir messuna.

Kaffið sjálft verður reyndar frítt en mikið kökuhlaðborð og nýsteiktar vöfflur verða í boði fyrir 650 krónur á mann. Einnig verða krakkarnir með litla sjoppu opna sem selur sitt lítið af hverju, sæglæti, gos og frábær lítil vasaljós. Um að gera að allir komi og njóti þess að fá sér kökur og vöfflur og styrkja með því frábært málefni.

Tekið af sniglar.is

Skildu eftir svar