Motocross er hættuleg íþrótt – förum varlega!

Þeir leiðu atburðir gerðust í dag að tveir menn fóru úr Bolaöldubrautinni með sjúkrabíl. Fregnir hafa ekki borist af líðan þeirra en við vonum að báðir hafi sloppið án alvarlegra meiðsla. Bæði óhöppin gerðust við stóra pallinn, annar yfirstökk pallinn og datt en hinn datt og fékk svo næsta mann á sig. Það er því nauðsynlegt að ítreka það að stóri pallurinn við húsið er uþb. 30 metra langur og er ALLS, ALLS EKKI fyrir alla, og allra síst óvana!

Slysin geta komið fyrir alla, vana og óvana og það er full ástæða til að brýna fyrir þeim sem keyra brautina að fara varlega á pallinum. Þeir sem hafa aldrei stokkið svona langt verða að æfa sig aftur og aftur á litlu pöllunum áður en þeim svo mikið sem dettur í hug að láta vaða á stóra pallinn.

Ef óhapp verður í brautinni og einhver liggur í brautinni er mikilvægast að stoppa þá sem koma á eftir til að þeir lendi ekki á þeim sem liggur í brautinni. Ef einhver liggur í brautinni þá lykilatrriði að menn hægi á sér og athugi með þann sem datt. Ef hann er í lagi þá er það almenn kurteisi að taka því rólega fram hjá og spóla ekki grjóti á þann sem er að koma sér af stað 🙂  

Vinsamlegast sýnið aðgát og farið varlega í brautinni – það vill enginn missa af sumrinu vegna meiðsla eða valda því hjá einhverjum öðrum.

Kveðja, Hrafnkell Sigtryggsson formaður VÍK

Skildu eftir svar