Ábending vegna hjólaumferðar í Þykkvabæ

Um síðustu helgi var talsverð umferð hjólamanna í Þykkvabæ. Einn ábúandinn í nágrenni við afleggjarann kom þá að máli við Grétar Sölvason og vildi koma ábendingum til hjólamanna. Undanfarið hefur aðeins borið á því að menn séu að taka af á ólíklegustu stöðum s.s. á afleggjaranum að bænum og keyra svo í gegnum sveitina á leið niður á sand með tilheyrandi látum og truflunum fyrir íbúa jafnvel eldsnemma um helgar. Þetta er mjög illa séð og verður að breytast.

Það hefur verið litið tiltölulega jákvæðum augum af flestum á svæðinu að hjólamenn leiti á svæðið yfir vetrartímann þegar viðrar og ef menn hjóla einvörðungu þar sem hringurinn er í sandinum og létu alla sandhóla og gróin svæði í friði. Hins vegar er alveg ljóst að þetta ástand er mjög brothætt og lítið þarf til að svæðinu verði alfarið lokað. Hann vildi því koma þeim tilmælum á framfæri að menn færu alla leið niður á sand og tækju af þar eða amk. tækju tillit til annarrar umferðar og læddust niður eftir ef þeir kæmust ekki niður á sand á bílunum.

Skildu eftir svar