Deiliskipulag fyrir akstursíþróttasvæði kynnt

Í gær var haldinn formlegur fundur þar sem Hafnarfjarðarbær kynnti deiliskipulag fyrir akstursíþróttasvæðið í Kapelluhrauni. Vel var mætt á fundinn – um eða yfir 50 manns. Yngvi frá Landmótun kynnti deiliskipulagið og síðan var opnað fyrir spurningar. Fulltrúar Hraunvinafélagsins kynntu sjónarmið sín í langri ræðu. Félagið er að mestu sátt við deiliskipulagið fyrir utan staðsetninguna á motocrossbrautunum því þar sé óraskað hraun.


Nefndu þau sem tillögu að motocrossbrautirnar gætu verið á námusvæðinu sem er sunnan brautarinnar og er á að giska 4-5 hekarar. Hins vegar þurfa motocrossbrautirnar meira landssvæði en það og auk þess værum við að fjarlægjast öll þjónustumannvirki sem er mjög slæmt fyrir okkur. Þess fyrir utan eru námurnar á svæði sem búið er að taka frá í aðalskipulagi sem iðnaðarsvæði og eru of nálægt framtíðarbyggð til þess að mæta kröfum um þá hávaðamengun sem við völdum. Lúðvík bæjarstjóri svaraði spurningum og ekki var annað á honum að heyra að það sé orðið löngu tímabært að ljúka þessu máli og hefja framkvæmdir. Hann benti á að verið væri að vernda stærra landsvæði með því að koma hjólunum af fjöllum og öðrum vernduðum svæðum inná lokað svæði.
Okkur í stjórn AÍH finnst vægast sagt mjög sérstakt að Hraunvinafélagið skuli ganga fram nú með þessum hætti. Þessi skipulagsvinna er búin að vera í vinnslu síðan árið 2001 og hefur sá hópur sem kemur að Hraunvinafélaginu komið að þessu frá upphafi og verið upplýstur um framgang mála. Félagið hefur því haft nægan tíma til þess að gera þessar athugasemdir og þeirra sjónarmiðum hefur að miklum hluta verið mætt í þeirri grendarverndun sem skipulagstillagan inniheldur. Okkur finnst það því skjóta skökku við að þetta fólk skuli stilla okkur upp með þessum hætti nú á síðustu metrunum undir þeim formerkjum að það sé við Hafnarfjarðarbæ að sakast en ekki okkar félag. Og að nú krefjist þeir þess að okkur sé úthýst úr þessu skipulagi og fundinn nýr staður. Við spyrjum okkur hvað býr að baki þessu upphlaupi nú á síðustu stigum málsins. Síðastliðið ár hefur verið raskað mun fallegri hraunsvæðum en þessu vegna framkvæmda við Hellnahraun tvö. Það heyrðist ekki múkk frá Hraunvinafélaginu vegna þeirra framkvæmda. Getur verið að það liggi eitthvað annað þarna að baki en verndunarsjónarmið ? Liggjum við sem hópur betur við höggi en atvinnulífið í Hafnarfirði ? Það er allavega ljóst af umræðunni í gær að samúð okkar hóps með sjónarmiðum Hraunvinafélagsins eru hverfandi í ljósi þess sem á undan er gengið.
Vinnubrögð þeirra eru með ólíkindum og við fáum ekki annað séð en að tilgangurinn sé sá einn að vekja athygli á málstaðnum á kostnað okkar ágætu íþróttar með mótmælabrölti. Það er kannski rétt að benda félagsmönnum og öðrum áhugamönnum um akstursíþróttir að hægt er að senda inn athugasemdir (jákvæðar athugasemdir eru líka athugasemdir) til bæjarins. Fresturinn rennur út 6.feb. Annað sem vert er að hafa í huga, við skulum vera málefnaleg og uppbyggjandi í umræðunni. Við erum jú, eftir allt, íþróttafólk sem reynum að haga okkur íþróttamannslega 🙂

Skildu eftir svar