Motocrossbrautin í Bolaöldu lokuð í dag – HÆTT VIÐ LOKUN!

Frederick Hedman, sænski þjálfarinn hjá Nítró hefur það að aðalstarfi á heimaslóðum að hanna og byggja brautir. Hann hefur keyrt Bolaöldubrautina undanfarið og hefur verið mjög sáttur við brautina og svæðið í heild. Hann hefur hins vegar komið með nokkrar ábendingar um breytingar sem ákveðið hefur verið að reyna. Brautin verður því lokuð amk. í dag og jafnvel á morgun nema annað verði tilkynnt.

Hedman er líkast til einn öflugasti ökumaðurinn sem hingað hefur komið og hefur sýnt að hann kann eitt og annað fyrir sér sem aðrir þjálfarar og ökumenn sem hingað hafa komið þekkja ekki. Á meðal æfingafélaga hans á sínum tíma voru ekki minni spámenn en m.a. Joel Smets og Stefan Everts enda var kallinn talinn eitt mesta efni Svía þegar hann var upp á sitt besta. Hann er hins vegar hættur keppni núna og einbeitir sér að þjálfun og brautahönnun og uppbyggingu.

Meðal ábendinga sem Frederick hefur komið með er t.d. gagnrýni á of mikið viðhald brautanna hér á landi. Í sumar hefur t.d. brautinni í Bolaöldu verið mikið haldið við og hún jöfnuð og sléttuð oft í viku. Að mati Fredericks á leggja mun meiri áherslu á uppstökk og lendingar til öryggis en láta brautirnar slitna meira og verða grófar og tættar. Garry, þjálfarinn frá N-Gage benti á nákvæmlega það sama og vildi helst þjálfa í gatslitinni brautinni á Akranesi. Motocross snýst að þeirra mati ekki síst um að finna og keyra leiðir í gegnum holur og whoops sem flestir hér kvarta mest undan. Skemmtilegt komment frá Frederick var að "menn ættu kannski að eyða meiri tíma í að hjóla og æfa en að kaupa nýtt dót og líma flotta límmiða á hjólin sín!" 🙂

Þetta snýst því kannski ekki síst um hugarfar þeirra sem keyra brautirnar. Eru menn orðnir of vanir því að horfa á Supercrossið frá USA og óaðfinnanlega sléttar brautir og gera því óraunhæfar kröfur um sí-sléttar brautir hér?

Annað áhugavert sem Frederick benti á var mikilvægi upphitunar fyrir æfingu/hjólatúr og teygjur á eftir. Að hans mati eru allt of margir að sóa hálfum hjólatímanum sínum með því að mæta bara, stökkva í gallann og beint á hjólið og hita upp á því. Með því að skokka um á staðnum, pumpa hendurnar og gera einfaldar teyjguæfingar geta menn farið mun betur tilbúnir út í braut.

Amk. er gaman að fá sjónarhorn svona reynslubolta eins og Fredericks á umhverfið hjá okkur og það er klárlega áhugavert að fá hann aftur til landsins. Eins verður gaman að sjá hvernig hugmyndirnar hans varðandi brautina koma út þegar við opnum brautina aftur.

Kv. Hrafnkell formaður

Skildu eftir svar