Vefmyndavél

Klaustur brautin klár – brautarverðir óskast

Kjartan og fleiri hafa síðastliðnar tvær helgar verið að vinna í brautinni sem er að verða klár í keppni. Í dag var sandurinn sléttaður og nú eru margar beygjurnar með böttum og mjög flottar. Ýtufarið merkir brautina enn betur en auk þess verður brautin greinilega merkt með stikum, borðum og keilum.

Brautin verður að mestu á sama stað. Í sandinum hefur mest af grjótinu annað hvort verið týnt eða spólast úr brautinni. Við töldum því ekki verða til neinna bóta að færa brautina og fá þá upp grjóthauga í nýjar leiðir. Í grasinu var það hreinlega ekki réttlætanlegt að breyta brautinni – gróðurinn lætur verulega á sjá undir brautinni og það var bara ekki forsvaranlegt að breikka það sár nema á fáum stöðum. Það verður þó farið með ýtu eða traktor á nokkra staði og þeir lagaðir eftir því sem hægt er.

Hjáleiðir hafa verið lagðar við nokkrar erfiðustu brekkurnar til að gera minna vönum ökumönnum kleift að fara léttari en lengri leiðir. Þar sem hjáleiðirnar koma aftur inn í brautina verða biðskyldumerki.

Brautarverðir óskast!
Brautarvarsla verður hert til muna í ár ekki síst vegna ævintýralegra styttinga í brautinni í fyrra. Því vantar okkur harðsnúið lið til að halda röð og reglu á svæðinu. Hlutverk brautargæslumanna er að fylgjast með akstri í brautinni, rétta af stikur og gæta öryggis. Í boði verður gott skipulag, matur og bensín. Allir sem vilja taka þátt og fá að fylgjast með keppninni frá besta sjónarhóli geta skráð sig með því að senda póst á vik@motocross.is

Kveðja, undirbúningshópur Klausturkeppninnar.

Leave a Reply