Bréf úr Þykkvabænum

Vefnum barst bréf frá Guðlaugi Frey Jónssyni varðandi Þykkvabæjarfjöruna og svæðið þar í kring. Gott bréf og þörf ábending.

Sælir félagar.
Þannig er mál með vexti að pabbi minn á land og býr í Þykkvabænum. Síðasta sumar var mikil hjólamennska í Þykkvabænum og reikna ég með að það verði svipað nú í sumar, menn eru meirasegja byrjaðir að fjölmenna núþegar. Hingað til hefur ekki verið neitt nema gott um það að segja, enda þröngt um menn og fá svæði til að hjóla á, eins og umfang sportsins er mikið. Það þarf þó ekki að benda ykkur á það.

Aðalefni þessa tölvupósts er samt einskonar „viðvörun“ til hjólamanna. Ég veit það með ákveðinni vissu að íbúar í Þykkvabænum, bændur og aðrir, hafa ekki verið að fetta fingur út í hjólamenn sem hafa komið þangað

til að iðka íþróttina, svo lengi sem þeir halda sig í fjörunni (sem er gríðarstór) og á söndunum. Aðeins bar þó á því síðasta sumar að menn voru að spóla í nýrækt og kartöflugörðum (sem oft líta út eins og ómerkileg drullusvöð). Eins voru menn að keyra hratt og ógætilega eftir vegunum þarna og bar á því að keyrt væri í gegnum heimreiðar hjá bændum (meðal annars hjá pabba) til að komast niður með ánni. Það er þesskonar hegðun og háttarlag sem úthýsir motorsport-mönnum, og viljum við (og þið) það væntanlega ekki.

Það eru því vinsamlega tilmæli (og ábending til hjólamanna), að reyna að beina þeim sem ætla í Þykkvabæinn, að hjóla í fjörunni (vestan Rangár) og halda sig frá nýrækt, kartöflugörðum, vegum og heimreiðum bændanna. Að því uppfylltu hugsa ég að hjólamenn gætu fengið að vera óáreittir þarna við leik og æfingar um ókominn tíma. En það er þó viðkvæmt og brýnt að árétta fyrir mönnum að fáir ‘kjánar’ skemma auðveldlega fyrir fjöldanum.

Ég skal reyna að verða mér úti um myndir og betri lýsingu á fjörunni (aðkomu að henni) og koma því til ykkar. Þó held ég að þeir sem hafa komið þarna áður viti nokkuð ágætlega um hvað er verið að tala.

Með vinsemd, virðingu og von um að gott sport geti orðið betra.

Kveðja,
Guðlaugur Freyr Jónsson

Skildu eftir svar