Vefmyndavél

Stöðvum utanvegaakstur við Þorlákshöfn

Nú er stutt í páskafrí og þá fara margir í hjólagírinn. Vegna mikillar aurbleytu í Bolaöldu verður líklega lítið hægt að hjóla þar um páskana. Hjörtur mun hins vegar vinna við brautina í Þorlákshöfn næstu daga og aðstoða þá við að gera brautina sem besta fyrir frídagana. Sveitarfélagið Ölfus leggur til tæki auk þess sem VÍK leggur til traktor, hefil og krafta Hjartar.

Talsvert hefur borið á kvörtunum í Þorlákshöfn vegna utanvegaaksturs í fjörunni og við golfvöllinn en þar hefur sést til jeppa og fjórhjóla auk torfæruhjóla. Það þarf vonandi ekki að taka það fram að þetta getur skaðað okkur og verður að stöðva með öllum ráðum. Sveitarstjórinn hefur t.a.m boðað okkur á sinn fund eftir páska til að ræða þessi mál alvarlega.

Hvað félögin VÍK og Þór snertir er þetta einfalt – utanvegaakstur er ólöglegur og lögreglan er hvött til að stoppa menn. Sveitarfélagið Ölfus hefur stutt okkur gríðarlega með svæðunum við Þorlákshöfn og Bolaöldu. Það verður að taka tillit til þess og stöðva utanvegaakstur í nágrenni Þorlákshafnar – við verðum að halda góðu samstarfi við sveitarfélagið.

Það er okkar framlag til að leysa málið að Hjörtur geri sitt besta til að lagfæra brautina við Þorlákshöfn. Hún ætti því að vera í góðu standi um helgina og næstu viku. Við hvetjum því alla til að kíkja þangað um páskana.

Kveðja, Hrafnkell formaður VÍK

Leave a Reply