Jeppamenn þjösnast á uppgræddu landi

Í þessari frétt sem birtist bæði í Fréttablaðinu og á Visir.is er minnst aðeins á hjólamenn. Ekki gott ef satt er, og viljum við ítreka það að allur akstur á svæðinu er bannaður, en að sjálfsögðu er sandbrautin í Þorlákshöfn opin fyrir hjólafólk. Hér er fréttin:
Jeppamenn þjösnast á uppgræddu landi.
umhverfismál „Þeir voru þarna í torfærukeppni inni á svæði sem er einfaldlega frábær náttúruperla," segir Þorvaldur Sturluson náttúruunnandi sem á sunnudag varð vitni að því hvernig jeppamenn óku utan vega ofan


 við fjöruna milli Ölfusárbrúar og Þorlákshafnar.

„Ég hef aldrei séð aðra eins fávita. Þetta voru fullorðnir menn sem höguðu sér eins og litlir strákar," segir Þorvaldur um aðfarir ökumanna þriggja upphækkaðra jeppa. Þeir hafi spænt upp sandöldur og melgresishóla.

Svæðið er annars vegar í landi Hrauns og hins vegar í landi Þorlákshafnar. Þarna hafa Landgræðslan og landeigendur ræktað upp svartan sandinn með melgresi frá því fyrir miðja síðustu öld.
Landeigandinn Hrafnkell Karlsson á Hrauni segir grátlegt hvernig bæði vélhjólamenn og jeppamenn fari hamförum innan landgræðslugirðingarinnar og spilli áratuga uppgræðslustarfi í sandhólunum. „Þetta er sárt. Það er víða komið rof í sandbakkana og gróðurinn þar á sér varla viðreisnar von," segir hann.

Að sögn Hrafnkels hefur ekki dugað að koma til móts við þessa ökumenn með því að útbúa sérstaka ökubraut í nágrenninu. Þótt flestir í þessum stóra hópi umgangist landið af virðingu séu alltaf svartir sauðir sem engan skilning hafi á afleiðingum gjörða sinna. Þetta gildi sérstaklega um vélhjólamenn. Skýrar merkingar eru á svæðinu um að akstur utan vega sé bannaður en ökuþórarnir sinna þeim ekki.

„Aðkoman var hrikaleg. Þeir spóluðu langt upp í bakkana og upp í grasbalana sem er verið að reyna að rækta upp. Það er skömm að þessu," segir Þorvaldur, sem tilkynnti lögreglu um spjöllin.

Að sögn Svans Kristinssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Selfossi, fóru lögreglumenn á fólksbíl á vettvang á sunnudag en sáu ekkert nema hjólför í fjörunni. Sennilega hafi þeir ekki komist á bílnum að þeim stað þar sem ummerkin eru mest.

Skildu eftir svar