ANNAR mótorhjólamaðurinn í röð var sýknaður

Af mbl: ANNAR mótorhjólamaðurinn í röð var sýknaður af ákæru um utanvegaakstur í gær þegar héraðsdómur dæmdi í máli hans vegna aksturs í hlíðum Dyrfjalla í Ölfusafrétti. Maðurinn var stöðvaður í þyrlueftirliti í byrjun júní og neitaði sök í málinu. Hann viðurkenndi að hafa ekið í umrætt sinn á vegslóða og hélt því fram að slóðinn væri gamall og notaður af bifreiðum, vinnuvélum, fjórhjólum og torfærutækjum. Ákært var fyrir utanvegaakstur sem er brot á náttúruverndarlögum en dómurinn tiltók að engin skilgreining væri í lögunum á hugtakinu "utan vega" eða "vegur". Í greinargerðinni með lagafrumvarpinu væri vísað til 2. gr. umferðarlaga en þar væri vegur skilgreindur sem vegur, gata, götuslóði, stígur, húsasund, brú, torg, bifreiðastæði eða þess


háttar, sem notað er til almennrar umferðar.
Dómurinn skoðaði ljósmyndir af svæðinu og fór dómari einnig í vettvangsgöngu. Segir í niðurstöðum dómsins að á myndunum megi greinilega sjá veg eða slóða sem ökutæki hafi farið um í langan tíma.

Möl keyrð í slóðann
Greinilegt væri að ekki væri eingöngu um að ræða slóða sem myndast hefði eftir dýr, svo sem fjárgötu, heldur slóða sem sums staðar hefði verið keyrð möl í en sums staðar hefðu myndast för í jarðveginum eftir ökutæki og þá bifreiðar, traktora eða annars konar farartæki svo og væntanlega einnig dýr. Á hluta slóðans mætti einnig sjá að hann hefði verið ruddur að hluta. Að mati dómsins var um að ræða götuslóða eða veg og talið var að akstur á honum væri ekki utanvegaakstur.
Segir í dóminum að hafi það verið tilgangur löggjafans að útiloka akstur á slíkum slóðum þá yrði verknaðarlýsing í náttúrverndarlögum og umferðarlögum að vera skýrari. Við fyrrgreindan slóða hafi engar merkingar verið sem bönnuðu akstur en full þörf væri á slíkum merkingum ef banna ætti akstur á honum.

Ástríður Grímsdóttir, dómari við Héraðsdóm Suðurlands, dæmdi málið. Verjandi ákærða var Björn Þorri Viktorsson hrl. og sækjandi var Gunnar Örn Jónsson, fulltrúi sýslumannsins á Selfossi.

Skildu eftir svar