Fyrsta starfssumar á Bolaöldum

Nú þegar þetta er skrifað um miðjan ágúst er komin þokkaleg reynsla á það sem gert hefur verið á athafnarsvæði VÍK á Bolaöldum og í Jósepsdal í sumar. Í vor var stefnt á að ná vissum árangri í að þjónusta torfærumótorhjólamenn með lagningu enduroslóða og gerð crossbrauta. Nú eru komin ein fullvaxin motocrossbraut og tvær byrjendabrautir og net enduroslóðanna spannar tugi kílómetra.

Á hverjum degi koma á bilinu 20-40 bílar á kvöldin, en um helgar eru gestir mun fleiri. Ég hef verið að telja bílana sem koma á bílastæðin þegar ég er að vinna frameftir og um helgar, en flestir eru þessir bílar með tvö hjól hver.
Það var von okkar í vor að allir þessir enduroslóðar og stígar væru það vinsælir að um 50% af öllum enduroakstri kæmi á svæðið hjá okkur. Þetta virðist hafa náðst og gott betur því að á bilinu 60-75% alls enduroaksturs á Reykjanesskaganum fer fram á svæðinu upp á Bolaöldum, en gerð var óformleg athugun í þrjá daga í byrjun ágúst og var útkoman að u.þ.b 65-75% hjólamanna var á bílastæðunum á Bolaöldum, en aðeins voru taldir bílarnir sem þar voru og annars staðar þar sem menn leggja venjulega bílunum þegar þeir eru að hjóla. Þetta sést líka vel á því að notkun á enduroslóðum og stígum er svo mikil að stígarnir og slóðarnir sem áttu að duga í allt sumar og ekki stóð til að laga neitt er nú orðið óumflíjanlegt að laga. Nú er byrjað að hefla og slétta allar þær enduroleiðir sem hægt er að koma tækjum að án þess að raska miklu af þeim gróðri sem á svæðinu er.

Annað ánægjulegt efni er að aðeins eitt beinbrot hefur verið tilkynnt á svæðinu í allt sumar (þessi maður var að merkja slóða í vor), en þetta styður kenningar okkar að í merktum brautum eru mun færri slys en annars staðar þegar ekið er enduro. Einu sinni hefur sjúkrabíll komið á staðinn í sumar, en sá sem sóttur var af honum reyndist svo lítið slasaður að hann var kominn á svæðið aðeins nokkrum dögum seinna. Einnig hefur komið á óvart hversu grasið sprettur vel þarna, en búið er að sá í hluta af því svæði sem ekki er notað undir brautir og verður áframhald á því næsta sumar.

 Það eina sem hefur verið erfitt að koma í gegn er góð umgengni notenda svæðisins á bílastæðinu, en spól, prjón , hraðakstur á bílaplönunum og á veginum sem er á milli brautanna þar sem er 30 km hámarkshraði er enn allt of algengt. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar fyrir þá sem þetta stunda. Það er vissulega tilgangur þeirra sem svæðið nota að fara á mótorhjólinu eða fjórhjólinu til að nota kraftinn í tækinu og er það skylda allra að gefa rækilega í á græjunum sínum, en bara í brautunum en ekki á bílastæðunum! Á flestum stöðum sem svipa til þessa svæðis er einfaldlega bannað að setja hjólið í gang fyrr en komið er út fyrir bílastæðið og leiða menn hjólin út fyrir þar til gerðar merkingar. Það væri verulega fúlt fyrir fjöldann að þurfa að taka upp þessa reglu því það eru bara örfáir sem láta svona á bílastæðunum. Látum það því duga að það er bara búin að brotna ein bílrúða í sumar á bílastæðunum vegna spóls frá mótorhjóli og komum þessu í betra lag. Einnig hefur borið talsvert á því menn skilji eftir rusl sé á bílastæðunum á kvöldin en þetta hvort tveggja tefur mig á morgnana frá því að lagfæra brautirnar því við leggjum mikla áherslu á að svæðið sé snyrtilegt enda mun skemmtilegra að koma inn á þannig svæði.

Annars hefur þetta verið skemmtilegur tími og gaman að fá að starfa að þessari uppbyggingu.

Kveðja, Hjörtur L. Jónsson

Skildu eftir svar