Félagið fær hús að gjöf frá ÍAV

Hlutirnir gerast hratt hjá félaginu þessa dagana. Í kvöld var flutt hús upp á Bolöldusvæði sem ÍAV gaf félaginu. Húsið er í mjög góðu ásigkomulagi, um 75-80 fermetrar að stærð og hefur verið notað sem vinnuaðstaða að undanförnu við nýja Morgunblaðshúsið. Í húsinu er um 45 fermetra salur, tvær geymslur, lítil skrifstofa og klósett.

Húsinu var komið fyrir ofan við brautina þar sem er góð yfirsýn. Um leið hefur bílastæðið verið stækkað og inn og útkeyrslum í brautina verið breytt. Hér eftir verður keyrt inn og út úr brautinni vestan megin (Reykjavíkurmegin) við litla húsið sem stendur við bílastæðið. Litla húsið mun svo fara fljótlega niður í Álfsnes. Í gærkvöldi var brautin ennfremur lagfærð enn frekar en stærsta breytingin var þó sú að startinu var snúið í 180 gráður þannig að það liggur upp brekkuna og fyrsta beygja verður til vinstri og svo hægri beygja inn á flatann ofan við gryfjuna. Um leið var útkeyrslunni breytt þannig að hún er orðin auðveldari fyrir alla. (Freyja, hvað gerum við ekki fyrir þig? 🙂

Á næstunni verður tengt vatn inn á húsið úr borholu sem boruð var nýlega auk þess sem við erum að kaupa öfluga rafstöð til að hita og lýsa húsið og knýja vatnsdæluna. Einnig verður sett niður rotþró fljótlega og þá verður komin viðunandi salernisaðstaða á svæðið. Á næstunni verða auglýst vinnukvöld sem verða nýtt til að lagfæra húsið lítillega að utan, byggja pall og jafnvel fataskiptiaðstöðu, helluleggja, merkja bílastæði í kringum húsið og ganga betur frá rafmagni og hita í húsið. Þá mun okkur vanta verulega góða aðstoð frá handlögnum, smiðum, rafvirkjum, málurum og pípurum til að ganga frá húsinu sem best fyrir endurokeppnina 2. september.

Fylgist því endilega vel með auglýsingum fyrir vinnukvöldin eða sendið tölvupóst á vik@motocross.is ef þið getið/viljið hjálpa til.

Húsið breytir öllu fyrir aðstöðuna á svæðinu og verður klárlega til mikils gagns. Við viljum því þakka ÍAV og Gylfa sérstaklega fyrir þetta rausnarlega framlag til félagsins.

Kveðja, Hrafnkell formaður 

Skildu eftir svar