Fjölmiðlamál VÍK

Margt fólk, bæði um allan bæ og eins ítrekað á spjallsvæðinu, hefur síðan í vor kvartar sáran (og réttilega) yfir lítilli fjölmiðlaumfjöllun í tengslum við keppnishald torfæruhjóla þetta sumarið og óskað öflugra starfs af hálfu fjölmiðlafulltrúa VÍK og forsvarsmanna félagsins. Til að leiðrétta misskilning og taka af allan vafa, þá tók ég undirritaður, Bjarni Bærings, að mér hlutverk fjölmiðlafulltrúa VÍK árið 2005 – en ekki í ár! Fyrir áhugasama kemur smá pistill hér að neðan um málið.  BB

Í fyrra tók ég að mér hlutverkið "Fjölmiðlafulltrúi VÍK" – sem var nýtt embætti innan VÍK.  Ég sá um að taka ljósmyndir og sjónvarpsefni af öllum mótum, skrifa fréttatilkynningu fyrir vefinn, fréttatilkynningu fyrir alla helstu fjölmiðla og senda ásamt myndum, skrifa heilsíðugrein í MBL-bílar af öllum mótum, búa til sjónvarpsfrétt fyrir Stöð 2 og SÝN af öllum mótum, skrifa um keppnistímabilið í tímaritið Bílar&Sport ásamt því að styðja almenna fréttaumfjöllun á vefnum og í fjölmiðlum um allt sem viðkemur sporti torfæruhjóla og lána myndir og sjónvarpsefni til allra þeirra sem voru að fjalla um sportið.  Þetta gerði ég samhliða því að framleiða sjónvarpsþættina SUPERSPORT á SIRKUS sem tengjast sportinu, og birta myndir af öllum mótum á síðunni www.supersport.is.

Þetta var rosalega mikil vinna sem ég hafði mjög gaman af.  Í ár ákvað ég að beina kröftum mínum og tíma í önnur verkefni og upplýsti stjórn VÍK um að ég myndi ekki sinna embættinu áfram. Því miður hefur ekki tekist að finna aðila til að gefa sig í þetta verkefni þetta árið og legg ég því til, ef þú ert til og telur þig geta sinnt þessu, að hafa samband við stjórn VÍK og sækja um.

Í fyrra unnu margir aðilar (t.d. Varði, Aron Icemoto, Maggi X-formaður, Gummi netstjóri omfl.) óeigingjarna vinnu við að koma fréttum af mótum okkar í helgarsporti RÚV, Motocross þættina á RÚV, SUPERSPORT á SIRKUS, fréttir Stöðvar 2, Olís-sport á SÝN, morgunsjónvarp Stöðvar 2, MBL-Bíla, Bílar&Sport, Bylgjuna, www.motocross.is og fleiri staði – en það gerist ekkert af sjálfu sér. Hjörtur Líklegur skrifar það sem hann kemst yfir, Gummi netstjóri birtir allt sem honum er sent…. en við viljum öll meira og ef þú átt umfram orku og tíma, ekki sóa því í að kvarta heldur sæktu um starf fjölmiðlafulltrúa VÍK eða sendu fréttir/greinar á vefinn (vefstjori@motocross.is). 

Að lokum: Þar sem fæstar keppnir sumarsins eru haldnar á vegum VÍK, heldur á vegum hinna ýmsu MX klúbba og félaga um allt land, þá væri eðlilegra að þeir sem halda mót komi umfjöllun á framfæri til fjölmiðla!!!   

Með innilegri von um öflugra fjölmiðlastarf,
Bjarni Bærings     

Skildu eftir svar