Vefmyndavél

1. og 2. umferð Íslandsmótsins í enduro á Hellu

1. og 2. umferð Íslandsmótsins í enduro.

Haldin á Hellu 13.maí 2006.

Keppendur: Um 120 keppendur í Meistaradeild og Baldursdeild

Skipuleggjendur: Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar (AÍH)

Veður: Skýjað á köflum, 8° – 9° hiti, örlítil úrkoma

Úrslitin og tímarnir eru hér 

Fyrri frétt og nokkrar myndir eru hér

Fyrsta og önnur umferð Íslandsmótsins í enduro fór fram á Hellu laugardaginn 13.maí sl.  Enduro er Spænskt orð og þýðir úthald.  Orðið vísar til þess hvað keppnin gengur út á, þ.e. ekið er í langan tíma og það reynir á úthald keppenda.  Þessi íþrótt hefur átt ört vaxandi vinsældum að fagna á Íslandi undanfarin ár. Um 120 keppendur tóku þátt.  Veðrið var mjög gott þótt það hafi aðeins rignt undir lokin sem var ágætis rykbinding.  Brautin var lögð að mestu leyti í landssvæði Landgræðslunnar en einnig var hluti hennar lagður í landi Varmadals.  Var brautin lögð á því svæði sem hefur verið nýtt undir torfærukeppnir undanfarna áratugi.  Þetta svæði býður upp á frábæra aðstöðu fyrir bæði keppendur og áhorfendur.

Hart var barist í Baldursdeild, enda margir ungir og efnilegir ökumenn sem tóku þátt.  Baldursdeildin keyrir í 45 mínútur og geta keppendur stoppað á sérmerktu viðhaldssvæði til þess að taka bensín eða viðhalda hjólinu á annan hátt.  Baldvin Þór Gunnarsson númer 85 sigraði í Baldursdeildinni í þessum tveimur umferðum.  Baldvin Þór varð í sjöunda sæti í Íslandsmeistaramótinu í fyrra og var þá jafnframt valinn efnilegasti keppandinn.  Í öðru sæti varð Jón Kristinn Lárusson númer 678 og þriðji varð Árni Gunnar Gunnarsson númer 100. 

Meistaradeildin fór af stað með miklum látum.  Aron Ómarsson númer 66, Einar Sverrir Sigurðarson númer 4, Gunlaugur Karlsson númer 111, Kári Jónsson númer 46, og Valdimar Þórðarson númer 270 börðust um efstu sæti.  Valdimar tók strax forystu og hélt henni lengi vel en lenti í bilunum.  Þá tók Kári forystuna og Einar Sverrir Sigurðsson fylgdi honum fast á eftir.  Ánægjulegt var að sjá hversu sterkur Aron Ómarsson, sigurvegari í Baldursdeild 2005, kom til leiks í Meistaradeildinni.  Einnig var mjög gaman að fylgjast með fagmannlegu aksturslagi hjá Gunnlaugi Karlssyni og Valdimari Þórðarsyni.  Lokaniðurstaðan í umferðunum tveimur er sú að Einar Sverrir Sigurðsson sigraði, Kári Jónsson varð í öðru sæti jafn honum að stigum og í þriðja sæti hafnaði Aron Ómarsson.

Heilt á litið fór keppnin vel fram.  Keppendur og áhorfendur almennt ánægðir með keppnina.  Þó varð eitt óhapp sem skyggði örlítið á daginn en betur fór en á horfði og var einungis um tognun að ræða.

Næstu tvær umferðir í enduro verða haldnar 1.júlí á Akureyri en rétt er að geta að næst á keppnisdagskránni er stærsta mót sumarsins.  Um er að ræða bikarmót sem verður haldið á Kirkjubæjarklaustri þann 27.maí n.k. í landi Efri-Víkur.

Leave a Reply