Frétt af Mbl.is

"Átta teknir fyrir akstur utan vega
Lögreglan á Selfossi eltist í gær við átta menn á svo kölluðum mótorkross vélhjólum sem óku utan vega á Hengilssvæðinu. Notaði lögreglan þyrlu við eltingarleikinn og náðust mennirnir allir. Þeir verða allir kærðir fyrir utanvegaakstur auk þess sem sumir þeirra voru á óskráðum hjólum."

Þetta er ekki glæsileg frétt fyrir sportið. Hjólamenn verða að fara átta sig á því að utanvegaakstur er bannaður og Vélhjólaíþróttaklúbburinn fordæmir svona hegðun.

Á Bolöldusvæðinu hefur félagið yfir að ráða stóru svæði þar sem upp er komin frábær motocrossbraut og tugir kílómetra enduroslóða hafa verið lagðir. Aðgangur að enduroslóðunum er ókeypis en aðgangur í motocrossbrautina kostar 1.000 kr. Þar hafa allir hjólamenn fullan rétt á að vera svo framarlega sem þeir fara að reglum svæðisins og aka aðeins á merktum slóðum og brautum. VÍK nýtur velvilja Sveitarfélagsins Ölfus og fjölda fyrirtækja og stofnana við uppbyggingu svæðisins og svona óábyrg hegðun getur skemmt stórkostlega fyrir okkur og fengið þessa aðila til að snúast hugur um samstarf við félagið.

Innan VÍK og annara félaga eru tæplega 900 manns sem er á að giska 30-35% þeirra sem eiga torfæruhjól. Það er því gríðarstór hópur sem stendur utan okkar vébanda en það kemur hins vegar oftast í okkar hlut að svara fyrir hegðun allra hjólamanna. Það má reyndar alltaf deila um hvort það sé okkar hlutverk – FÍB er t.d. sjaldan beðið um svara fyrir hraðakstur bíla á götum borgarinnar. Það breytir því hins vegar ekki að hjólamenn hvort sem þeir eru utan eða innan félaga verða að fara að átta sig á því að utanvegaakstur mun einungis skemma fyrir okkur. Við verðum því að sameinast um að stoppa þetta og fara að nýta og byggja upp svæðin sem við höfum. Það er hins vegar ljóst að þau svæði sem við höfum duga ekki fyrir allan þann fjölda hjólamanna sem er t.d. á höfuðborgarsvæðinu. En til að fá fleiri svæði og/eða aðgang að fleiri slóðum en þá þarf líka að vera hægt að treysta mönnum til að æða ekki út um allt eftir sem áður.                                         

Þetta er einfalt mál. Utanvegaakstur er bannaður hvort sem það er á Hengilssvæðinu eða annarsstaðar. Þessi svæði/staðir verða að fara fá frið svo getum fengið að stunda okkar íþrótt og útivist í sátt.

 

Kveðja,

 

Hrafnkell Sigtryggsson formaður VÍK

Skildu eftir svar