Motocross – Fuglafriðlönd og fjaran við ströndina

Motorcross er karlmannleg og skemmtileg íþrótt sem stunduð er af frísku og kröftugu fólki – oftast þó af stæltum strákum með vit í kollinum og kapp í kinnum. Til þess að ná árangri þarf gott andlegt og líkamlegt jafnvægi, góða heilsu og skynsemi og skjótra viðbragða – og ekki síst hæfileika til að taka ábyrgð á eigin limum og umgengni sinni um náttúru landsins. Jórturdýr, eins og til dæmis kýr, kæmust aldrei langt í motorcross-íþróttinni vegna þess hve sljó þau eru í hugsun. Samt hafa nokkrir einstaklingar með skerta


 ályktunarhæfileika laumað sér inn í raðir meistaranna. Það ber ekki vitni um mikla skynsemi og þaðan af síður færni og ábyrgðartilfinningu að flengjast um merkt fuglafriðlönd á þessum árstíma á þokkalega kraftmiklum mótorhjólum.  Fyrir utan landspjöllin sem það veldur og ófriðinn í varplandinu sýnir þetta líka virðingarleysi gagnvart öðru fólki og áhugamálum þess. Sumir vilja nefnilega vakta vörp álengdar og fylgjast með fuglalífi. Þetta er hljóðlátt tómstundagaman – og vekur ekki eins mikla eftirtekt og motorcrossið – og gefur þar að auki annarskonar fullnægingu en adrenalín-innspýtingin, en fullnægingu engu að síður!  Undanfarið hefur borið nokkuð á þessum “cowriders” á fuglafriðlöndum í Árborg, einkum í kríuvarpinu vestan við Eyrarbakka og í fjörunni og á bökkunum austan við Stokkseyri. Sem starfsmaður umhverfisdeildar í sveitarfélaginu Árborg tek ég þetta nokkuð nærri mér – sem og flestir samborgarar mínir. Þarna viljum við hafa kyrrð og frið. Þar að auki hefur töluverðum fjármunum verið varið til að græða landið upp og hefta þannig sandfok sem lagt hefur yfir byggð. Sú uppgræðsla spillist mjög af hjólaumferð – svo að sandurinn getur tekið sig aftur á flug. Það viljum við ekki. Okkur þykir líka vænt um kríuna, sandlóuna, stelkinn og tjaldinn sem þarna eiga varpstöðvar.  Og nú bið ég ykkur, motorcrossmenn – og höfða til þess hversu klárir þið eruð í kollinum: Ekki gera þetta!  Virðið þessa náttúruperlu sem fjaran og bakkarnir eru á ströndinni og fulglafriðlandið vestan við Eyrarbakka – og reyndar öll friðlönd hvar sem þau eru á landinu. Og verðið þið varið við að aðrir – þ.e. motorcrossmenn af jórturdýrataginu, s.k. “Cowriders” – haldi uppteknum hætti, gefið þeim tiltal! Látið þá vita að svona hegðun geti ekki viðgengist í íþrótt ykkar!  Ég vil líka benda ykkur á að í Árborg er starfandi klúbbur motorcross-íþróttamanna sem rekur æfinga- og keppnisbraut með miklum sóma rétt hjá Selfossi.
Með bestu kveðju – og von um hárfín og jákvæð viðbrögð,

Siggeir Ingólfsson
Umhverfisdeild Árborgar

Skildu eftir svar