Brautirnar á Bolöldu – loftmynd

Góðan dag. Nú er að koma mynd á verkið, en þar sem að mikill þurrkur hefur verið undandarna daga er motocrossbrautin orðin verulega þurr og laus og nánast eins og hveiti. Þegar rignir næst mun ég hefla og þjappa þær vel en einhverjir dropar komu í dag en ekki nóg. Endurosvæðið er að taka á sig nýja mynd. Búið er að bæta við einni leið sem er ætluð fyrir byrjendur og er það merkt með grænum örvum. Gular örvar merkja

millierfiðar leiðir, en rautt er erfiðast. Næst Vífilfellinu og malarnámunum er rauð leið með einni krefjandi brekku og ef ekinn er öfugur sólargangur gæti brekkan reynst mörgum erfið. Þegar farið er inn í þessa leið er ekið framhjá stórum staurum eins og eru á bílastæðinu í báða enda og þetta svæði getur verið hættulegt ef ekki er fylgt stikunum sem búið er að reka niður og mála rauðar.  Ég vil biðja menn að virða merktar leiðir og fara ekki út fyrir stikurnar. Ég sendi með þessu mynd (bráðabirgða) af enduroslóðunum og crossbrautunum tveim sem byrjað er að keyra á (Það er tilvalið að prenta myndina út og hafa með í næstu ferð upp á Bolöldur).

Einnig er búið að merkja sérstakan veg sem byrjar í fyrstu brekkunni (merktur með bláu á loftmyndinni – grænar örvar vísa inn í endurobrautina) sem komið er að eftir að komið er yfir slitlagið sem liggur inn í malarnámurnarm. Ef ekið er eftir þessum mótorhjólavegi endar viðkomandi við gáminn á bílastæðinu.

Eitt að lokum – hættið nú að spóla og gefa hjólunum á bílastæðunum og þeyta grjóti í bílana sem þar eru. Það hlýtur að vera hægt að bíða með að gefa hjólinu þar til komið er inn í einhverja af þessum brautum sem þarna eru. Kveðja Hjörtur L Jónsson

Skildu eftir svar