Vefmyndavél

Um torfæruhjól og Hafnarfjarðarbæ

Þórir skrifaði fína grein í Moggan á sunnudaginn, hér er hún:
UNDANFARIÐ hafa verið uppi umræður um innanbæjarakstur og utanvegaakstur torfæruhjóla í Hafnarfirði og málum gerð skil m.a. í Fjarðarpóstinum. Virðist í flestum tilfellum vera um að ræða illa upplýsta og réttindalausa unglinga sem leika lausum hala. Slíkt ástand er með öllu óásættanlegt og verður að ráða bót á. En hvernig? Raunverulegur árangur næst ekki nema ráðist sé að rót vandans. Í þessu ákveðna tilfelli byrjar

vinnan inni á heimilunum. Ábyrgðin liggur nefnilega hvergi annars staðar en hjá okkur foreldrum. Hver hleypir réttindalausum ungling á mótorhjóli út í borgarumferðina? Það erum við foreldrarnir sem eigum að virða lög og reglur og sjá til þess að uppfræða og bera ábyrgð á börnum okkar á meðan þau eru ekki sjálf- og lögráða.
Hvað málefni torfærutækja varðar í stærra samhengi er ég þess fullviss að finna megi góðar og fullnægjandi lausnir og það fljótt. Það eina sem þarf núna er vilji yfirvalda. Ekkert annað.

Hingað til hefur aðgerðaleysi yfirvalda í landinu stjórnast af tvennu, þ.e. umhverfis- og peningasjónarmiðum. Hvað umhverfissjónarmiðin varðar þá tel ég okkur best vernda landið gegn óþarfa ágangi einmitt með því að sjá þessari íþrótt fyrir fullnægjandi aðstöðu. Dæmin tala sjálf. Hestamenn hafa t.a.m. fengið stórkostlega aðstöðu til að iðka sína íþrótt og með eindæmum gott að ríða út á nýlögðum reiðstígum sem liggja vítt og breitt kringum höfuðborgina. Betra að veita ríðandi umferð þannig en taumlaust út um allt í gróðurlendi, ekki satt? Þau svæði sem torfæruhjólaíþróttinni hefur þó verið úthlutað til þessa eru fá, fjarri byggð og oftar en ekki á óvistlegum stöðum s.s. nærri öskuhaugum. Er það líklegt til að bera árangur? Hvað mundi okkur finnast um að keyra börnin okkar á slíka staði tvisvar í viku til að fara á fótboltaæfingar eða í reiðskóla? Er okkur sama? Um leið og okkur er sama um hjólafólk erum við líka að hluta ábyrg fyrir vandanum. Óþægilegt en satt.

Hvað peningasjónarmiðin varðar þá verður ekki hjá því litið að sala torfæruhjóla hefur undanfarin ár skilað hundruðum milljóna í ríkiskassann (til mín og þín) svo tími er til kominn að veita fé baka til þessa málaflokks.

Að auki neyðumst við svo líklega til þess að beygja okkur undir það að mótorhjólafólk þarf víst líka sinn skerf af mannréttindum og þar bætist við enn eitt sjónarmiðið, mannréttindasjónarmið, rétturinn til að velja hvernig maður ver frístundum sínum. Sá hópur sem stundar vélhjólaíþróttina er orðinn það stór og fjölbreyttur að löngu er tími til kominn að veita honum athygli og stuðning. Hér eins og í nágrannalöndum okkar eru mótorhjól líklega komin til að vera.

Þó það skipti ofantaldar staðreyndir ekki máli, má geta þess að persónulega nýt ég útivistar reglulega og með ýmsu móti. Kannski það gefi leikmanni víðari sýn? Oftast er ég gangandi, stundum meira að segja á mótorhjóli með ungum syni mínum og einstaka sinnum á hestbaki. Ég hef ákveðið að láta það ekki spilla gleði minni að stundum rekst ég á fólk sem kýs að njóta útivistar á annan máta en ég sjálfur. Ekki dettur mér til hugar að ég hafi æðra tilkall til landsins en næsti maður hvort sem ég er gangandi eða í söðli.

Sem manneskja sem losar fleiri kíló af sorpi daglega, ekur um á eyðslufrekum bíl, horfi aðgerðarlaus á jarðýtur skafa burt heilli álfabyggð svo byggja megi nýja IKEA-verslun í hrauninu við Heiðmörk OG tek annars glaður þátt í þeim uppgangi sem fylgir byggingu nýs reykspúandi álvers, hef ég þó vit á því að setjast ekki í sæti dómara og kveða upp stóradóm yfir öllum mótorhjólamönnum og því sem þeim fylgir. Slíkt væri hræsni. En ég geri mér grein fyrir að úrbóta er þörf og vonast til að skilningur stjórnvalda sé hinn sami.

Sem Hafnfirðingur (eða a.f.a eins og sumir kalla okkur sem ekki eru fæddir hér) tel ég okkur heppna með yfirvöld hér í bæ sem hafa séð sóma sinn í því að byggja upp bæjarfélag sem er eftirsóknarvert að tilheyra. Nú þegar þeim ætti að vera ljóst að þörfin fyrir raunverulegar úrbætur er brýn er ég bjartsýnn á að menn ráðist í það verk, ekki bara í orði heldur með fjármagni, mannafli og metnaði, að búa torfæruhjólaíþróttinni viðeigandi og boðlega aðstöðu í Hafnarfirði. Það væri ekki í fyrsta sinn sem bærinn réðist í blómlega uppbyggingu íþróttastarfs, sem yrði öðrum fyrirmynd.

Höfundur er flugmaður.

Leave a Reply