Vefmyndavél

TÓNLIST – Íslenskar plötur, úr Mogganum

Stimpilhringjastuð  Stimpilhringirnir – Í botni…
Stimpilhringirnir eru Heimir Barðason (Lopi) en hann syngur og leikur á kassabassa, gítara og fleiri hljóðfæri. Jón B. Bjarnason (Guð) sér þá um trommuslátt, Þorvarður Björgúlfsson (Varði) leikur á kassagítar og Þorsteinn Marel Þorsteinsson (Steini Tótu) leikur á rafmagnsgítar. Þeim til aðstoðar voru Eyjólfur Þorleifsson (baritón saxafónn), Halldór Kristinn Júlíusson (rafmagnsgítar) og Hjörvar Hjörleifsson (rafmagnsgítar). Upptökustjórn var í höndum Hjörvars. Lög og textar eru eftir Heimi Barðason utan að Magnús Þór Sveinsson á

 einn texta. Plötuna er hægt að nálgast í JHM Sport Stórhöfða 35 og Moto, Nethyl 1 eða með því að senda tölvupóst á heimir@frisk.is

TILURÐ þessarar bráðskemmtilegu plötu er sú að nokkrir meðlimir í Vélhjólaíþróttaklúbbnum voru fengnir til að skemmta með tónlist á árshátíð klúbbsins árið 1998. Sveitin var þá óspilandi með öllu en grínið  heppnaðist vel og vatt upp á sig með ári hverju. Að endingu var afráðið að Stimpilhringirnir, eins og þeir félagar kalla sig, myndu spila uppsafnað efni inn á plötu því "annars myndi þessi "steypa" einfaldlega gleymast" eins og fram kemur í bæklingi plötunnar.

Höfuðpaur Hringjanna er Heimir nokkur Barðason sem á sér nokkuð merkilega fortíð í íslensku tónlistarlífi. Heimir var nefnilega meðlimur í síðpönksveitinni Jonee Jonee sem átti eftirminnilegt innslag í Rokk í Reykjavík og kom meira að segja breiðskífu út, Svonatorrek. Tónlist Stimpilhringjanna ber nokkur merki þessa baklands en hún er í grunninn keyrslupönk með dassi af tilraunastarfsemi þeirri sem síðpönkið bar með sér. Minnir stundum á S/H Draum í upphafi ferilsins. Græskulaust árshátíðarflippið er orðið að hinu burðugasta rokki og róli og þó að platan sé ekki nema átta laga og örstutt að lengd heldur hún fullri keyrslu allan tímann. Fimm hundruð sé sé" og "Hafsteinn hestafl" eru skítugir tuddarokkarar og "Tilhlökkunarskita" er sýrt og beyglað, vel heppnað tilraunarokk. Hljóðfæraleikur er hrár og lifandi og söngur Heimis er kraftmikill og nett geðveikur þegar það á við. Textarnir eru glenskenndir þar sem á skiptast skin og skúrir. Undir öllu er þó blind ástríða fyrir vélfákum og hlustendur fá ágæta innsýn í tilvist hins einarða vélhjólamanns.

Frágangur plötunnar, umslagshönnun og slíkt er vandað og fagmannlegt og Í botni… er dásamleg sönnun þess að stundum er vel þess virði að þrykkja "steypunni" á plast.

Arnar Eggert Thoroddsen

Leave a Reply