Grein um Íslandsmótið í Motocross frá Aroni Reynissyni

Nú þegar Íslandsmótið er um garð gengið finnst mér rétt að taka saman nokkra punkta um þá reynslu og þær athugasemdir sem við viðuðum að okkur í sumar. Einnig vil ég hvetja sem flesta til þess að tjá sig um keppnishaldið hvort sem þeir gera það hér á vefnum eða með e-mail til Vélhjólaíþróttanefndar ÍSÍ á aronreyn@simnet.is eða einfaldlega munnlega beint til mín. Næsta vor mun síðan vonandi verða stofnað

sérsamband innan ÍSÍ þar sem öll vélhjóla og vélsleðaíþróttafélög á landinu sem eru innan ÍSÍ munu fá sinn fulltrúa. Þá munu félögin geta komið óskum sínum lýðræðislega á framfæri, lagt fram tillögur og kosið um þær. Það verða því engar breytingar gerðar á núverandi fyrirkomulagi fyrr en eftir að sérsamband hefur verið stofnað.

Almennt séð teljum við að fyrirkomulagið í sumar hafi verið stórt skref í rétta átt en þó voru eftirfarandi athugasemdir gerðar:

1. Breytingar á flokkum.

Ég held að það sé óhætt að segja að það ríkir almenn ánægja með þær breytingar á flokkaskipan sem gerðar voru fyrir 2005. Þær eru skref í rétta átt þó alltaf megi gera betur. Það skapaðist spenna um úrslit í öllum flokkum sem entist fram á síðustu keppni. Það er þó rétt að taka tillit til þess að við erum ennþá lítil íþrótt með tiltölulega fáa iðkendur. Við verðum því að vanda okkur og halda rétt á spilunum þannig að við missum sem fæsta keppendur úr sportinu vegna þess að við erum að hræra í flokkafyrirkomulaginu. Þær óánægjuraddir sem heyrast eru helst vegna þess að byrjendaflokkurinn (C flokkur í fyrra) rann inn í meistaraflokk og þar með hvarf spennan fyrir eldri áhugamenn (yfir 20 ára) um motocross til þess að keppa í eiginlegum byrjendaflokki. Einnig finnst mörgum furðulegt og ónauðsynlegt að verðlauna sérstaklega fyrir litlu hjólin innan meistaraflokks sem er í raun opinn flokkur.

2. Keppnisdagatal.

Þegar lagt var upp með skipulag dagatalsins var fyrst hugað að því að hafa aldrei keppnir tvær helgar í röð (Enduro/Cross). Einnig var gerð tilraun til þess að hafa dagatalið eins og árið á undan þ.e. sama keppni á sama stað á sama tíma. Þar að auki var hugað að jarðvegsgerð brautar með tilliti til veðráttu og dagsetningar. Þ.e. sandbraut á þeirri árstíð þar sem hætta var á vætu o.s.frv. Þetta gekk þokkalega upp nema hvað við fengum rigningu í Álfsnesi í júlí (eftir mikla þurrkatíð í júní). Okkur bárust athugasemdir annarsvegar vegna þess hversu seint og þétt síðustu þrjár keppnirnar voru haldnar og hinsvegar vegna þess að Verslunarmannahelgin var tekin undir keppnishald. Við þurfum að gefa út keppnisdagatal næsta árs fyrir áramót og eru allar athugasemdir vel þegnar sem fyrst.

3. Keppnisreglur og dómgæsla.

Það var ætlun okkar að keppa alfarið eftir alþjóðlegum reglum FIM þetta sumarið. Ekki gáfust fjármunir né tími til þess að þýða þær reglur og notuðum við þær því áfram okkur til halds og trausts. Við vorum því ennþá að nota okkar gömlu heimasmíðuðu reglur sem eru barn síns tíma. Þó var tekið af skarið með það að FIM reglurnar væru ráðandi ef það kæmi upp vafaatriði. Þetta skapaði þó óvissu í dómgæslu sem olli leiðindum. Það hafa verið birtar athugasemdir um þetta opinberlega og því óþarfi að fara frekar ofan í saumana á því hér. Þó vil ég koma því á framfæri að ÍSÍ er búið að taka til hliðar fjármuni sem verja á í þýðingu á FIM reglunum fyrir næsta sumar. Einnig þarf samkvæmt FIM reglunum að skipa dómnefnd sem er til staðar á keppnisstað og tekur strax á öllum vafaatriðum. Ég hvet alla til þess að kynna sér reglurnar en þær er hægt að nálgast á ensku á www.fim.ch

4. Tímatökubúnaður.

Sú breyting var gerð að sendar voru allir seldir til keppenda en einnig var þó boðið upp á takmarkaðan fjölda leigusenda. Einnig var stór hluti móttökubúnaðar endurnýjaður og var þeirri aðgerð lokið fyrir Sólbrekkukeppnina sem gekk í alla staði mjög vel fyrir sig. Segja má að nú sé loksins lokið þeim breytingum sem við lögðum upp með að gera og nú er kominn sá möguleiki að halda mun fleiri æfingar með tímatökum. Það olli okkur því nokkrum vonbrigðum hversu fáir notærðu sér möguleika á tímatökum í Sólbrekkubrautinni fyrir síðustu umferðina. Sá möguleiki verður þó kannaður hvort hægt sé að halda æfingakeppnir öll þriðjudagskvöld næsta sumar og verðlauna í lok sumars fyrir bestan heildarárangur í þeim. Það er a.m.k komið svigrúm til þess að nota búnaðinn meira “ef það er áhugi fyrir því”. Það heyrðust margar óánægjuraddir vegna þessara breytinga sem voru gerðar. Í þessu fólst kostnaðarauki og skert þjónusta fyrir keppendur. Við teljum þó að öllum sé ljóst að ekki var hægt að halda áfram á sömu braut. Það sýndi sig best á því hversu erfiðlega gekk að endurheimta leigusenda í sumar.

5. Opnunartími brauta fyrir keppni.

Það komu fram athugasemdir við opnunartíma brautar fyrir keppnina á Akureyri. Okkur þykir ónauðsynlegt að setja sérstakar reglur um það en það mun þó verða eitt af verkefnum hins nýja sérsambands að fara yfir það mál. Sjálfsagt er þó að geta þess að þeim félögum sem halda Íslandsmót ber réttilega að sjá til þess að allir hafi jafnan möguleika til æfinga í braut fyrir mót og að hæfilegur tími sé tekinn til hliðar til þess að koma braut í keppnishæft ástand.

6. Fjölmiðlar.

Það er mikil breyting sem hefur orðið á því hvernig íþróttinni eru gerð skil í fjölmiðlum. Að öllum ólöstuðum munar þar mest um sjónvarpsþátt sem er sýndur á RÚV og umfjöllun í Morgunblaðinu. Þetta er tvímælalaust ein mesta lyftirstöng sem íþróttin hefur fengið í mörg ár auk þess sem þáttaka útlendinga hefur lyft okkur á mun hærra plan. Þó eru nokkrir (þar á meðal ég) sem eru ósáttir við hversu illa ungu og kvennkyns keppendunum okkar eru gerð skil í þessari umfjöllun. Þó að ekki væri nema að nokkur orð væru látin falla í stað þess að þeirra sé einfaldlega ekki getið í umfjölluninni eins og komið hefur fyrir. Þessir keppendur eru oftast ekki að leggja neitt minna á sig en meistrarflokkskeppendur og eiga því betra skilið.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim aðilum sem lögðu hönd á plóginn í sumar til þess að gera mótaröðina eins ánægjulega og vel heppnaða og raun ber vitni. Maður getur ekki annað en undrast það hvað keppendur og aðstandendur eru tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu til þess að gera þetta að veruleika. Því miður eru það oftast allt of fáir einstaklingar sem axla þessa vinnu þó að heldur hafi miðað í rétta átt eftir sem íþróttafélögum í sportinu hefur fjölgað og þau eflst samhliða því að iðkendum fjölgar. Ég held að allir geti verið sammála um það að framtíðin er björt og ungum iðkendum á örugglega eftir að fjölga á næstu árum.

Kveðja
Aron Reynisson
Form. Vélhjóla og vélsleðaíþróttanefndar ÍSÍ.

Skildu eftir svar