Þolaksturskeppnin á Blönduósi

________________________________________
Viðburður: 2. umferð íslandsmótsins í þolakstri (3.&4. stigaumferð)
Staður & Stund: Blönduósi, 02.07.2005
Skipuleggjendur: Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK)
Þátttakendur: Um 60 keppendur í Meistaradeild & Baldursdeils (byrjendur)
Veður: Skýjað, rigning á köflum, kaldi, 12°C
Braut: Gras, mold, sand-/malarbrekkur

Úrslitin eru hér
________________________________________

Um keppnina:
Í gryfjum fyrir ofan Blönduós hélt Vélhjólaíþróttaklúbburinn aðra umferð Íslandsmótsins í þolakstri.  Keppendur aka 3 klukkustundir í hringlaga braut sem lögð er um náttúrlegar hindranir og keppast um að aka sem flesta hringi.  Brautin lá um þúfótt og gróft landslag í bland við snarbrattar sandbrekkur og malarhengjur.  Til leiks voru mættir allir bestu torfæruökumenn landsins ásamt hinum öfluga ökuþór frá Bretlandi Ed Bradley og tvöföldum heimsmeistara í þolakstri, Peter Bergvall frá Svíþjóð.  Að undanskildum snörpum úða hélst veðrið nokkuð þurrt og sólin heiðraði samkomuna með stuttri nærveru.

Heimsmeistarinn ók hraðast
Svíinn Peter Bergvall sigraði heimsmeistaramótið í þolakstri í 125 rúmsentimetra flokki árin 2002 og 2003.  Peter er mættur til Íslands til að kenna akstur torfæruhjóla og keppir jafnframt með Yamaha liðinu.  Þó svo hann náði ekki besta startinu var hann ekki lengi að keyra sig upp í forystuna og var áberandi hraðastur í brautinni.  Peter gleymdi þó að stimpla sig inn í tímatökubúnaðinn að loknum fyrsta hringnum og tapaði þar með forystunni þrátt fyrir að koma fyrstur í mark.

Kári kom skemmtilega á óvart
Hinn ungi Kári Jónsson í TM liðinu hefur greinilega æft stíft í sumar.  Kári náði góðu starti og barðist af miklum krafti allan tímann um forystuna við erlendu keppendurna.  Ökustíll Kára hefur þroskast mikið í sumar og þar sem stöðugleiki hefur bæst við mikinn hraða hans tókst honum að koma á undan núverandi Íslandsmeistara í mark og náði öðru sæti í keppninni.

Ed Bradley með tæknilegan sigur
Bretinn Ed Bradley hefur heldur betur náð að setja mark sitt á keppnistímabilið.  Auk þess að kenna akstur torfæruhjóla keppir hann fyrir KTM liðið og virðist ósigrandi.  Ed ók mjög skynsamlega í mótinu og þrátt fyrir nokkrar byltur í brautinni náði hann sér vel á strik.  Hann kom annar í mark, rétt á eftir Peter, en þar sem Peter tapaði tæknilega einum hring á því að stimpla sig ekki inn lenti Ed í fyrsta sæti og er mjög vel að því kominn.  Ed hefur kept í fjölmörgum Bretlandsmótum og heimsmeistaramótum í mótorkrossi síðustu ár en hefur nánast ekkert keppt í þolakstri og staðfestir árangur hans í þessu móti fjölhæfni hans sem torfæruhjólaökumaður.

Myndir/Magnús Sveinsson

{mosimage}
Kári Jónsson náði góðu starti og náði öðru sæti með hröðum og stöðugum akstri

{mosimage}
Mikið gekk á í startinu og hart barist um bestu línurnar í fyrstu beygjunum

{mosimage}
Þrátt fyrir nokkrar byltur í brautinni lét sigurvegarinn Ed Bradley það ekki slá sig út af laginu

{mosimage}
Ed Bradley á flugi í brautinni

{mosimage}
Tvöfaldur heimsmeistari í þolakstri, Svíinn Peter Bergvall, tók þátt í keppninni og lenti í þriðja sæti

Frekari upplýsingar fyrir fjölmiðla:
Fjölmiðlar geta nálgast frekari upplýsingar um mótið, fleiri myndir frá mótinu, nánari upplýsingar um keppendur, keppnishald sumarsins og starfsemi Vélhjólaíþróttaklúbbsins hjá neðangreindum:
Bjarni Bærings
fjölmiðlafulltrúi VÍK,
Sími: 898-9090
Netfang: bb@medis.is
www.motocross.is

Skildu eftir svar