Samningur um endurosvæði í Jósepsdal / Bolöldu undirritaður á morgun!

Eftirfarandi fréttatilkynning hefur verið send á alla fjölmiðla:

Á morgun, föstudaginn 22. júlí kl. 16:00 verður undirritaður í Litlu kaffistofunni í Svínahrauni samningur milli Vélhjólaíþróttaklúbbsins (VÍK), Landssambands Íslenskra Vélsleðamanna, Reykjavík (LÍV-R) annars vegar og Sveitarfélagsins Ölfus hins vegar um afnot af svæði sunnan við Litlu kaffistofuna og inn í Jósepsdal undir æfingaakstur torfæruhjóla og vélsleða. Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga og verður viðstödd undirritunina á morgun.

Torfæruhjólum hefur fjölgað verulega síðastliðin ár auk þess sem vélsleðamenn hafa lengi haft áhuga á að eignast fast æfingasvæði að vetrarlagi. Umferð torfæruhjóla í nágrenni Reykjavíkur hefur aukist gífurlega á sama tíma, sem leitt hefur til árekstra við annað útivistarfólk og utanvegaaksturs sem nauðsynlegt er að taka á með sameiginlegu átaki íþróttafélaganna, sveitarstjórna og annarra opinberra aðila.Undanfarin ár hefur Vélhjólaíþróttaklúbburinn haft frumkvæði að viðræðum við fjölmörg sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur um möguleika á úthlutun sérstakra aksturs- og æfingasvæða með litlum árangri fyrr en nú.

Með þessu samkomulagi hefur Sveitarfélagið Ölfus sýnt einstakt frumkvæði í umhverfismálum sem önnur sveitarfélög gætu tekið sér til fyrirmyndar. Sveitarfélagið Ölfus, VÍK og LÍV hafa haft gott samráð við hagsmunaaðila, m.a. við Umhverfisstofnun, Landgræðslu Ríkisins og Orkuveitu Reykjavíkur, sem hafa kynnt sér aðstæður torfæruhjóla- og vélsleðamanna.  Með þessu skrefi er stigið stórt skref í því að skapa aðstöðu fyrir íþróttaiðkunn þessa hópa til aksturs á merktum leiðum innan afmarkaðs svæðis, en það hefur verið eitt stærsta baráttumál félaganna um árabil.

Á svæðinu verður komið upp skýrt afmörkuðum akstursbrautum og annarri aðstöðu sem nýtist torfæruhjólamönnum að sumarlagi og vélsleðamönnum að vetrarlagi. Lögð verður mikil áhersla á agaðan akstur á skipulögðum brautum á svæðinu sem ætlað er að draga úr gróðurskemmdum eins og mögulegt er. Þetta framtak er hvorutveggja mikið framfaraskref í umhverfismálum og gífurleg lyftistöng fyrir torfæruhjólaíþróttina og vélsleðasportið.

Skildu eftir svar