Vefmyndavél

450 testið úr Mogganum

{mosimage}Það er gaman að sjá hversu þó þokkalega okkur drullumöllurum gengur að fá pláss fyrir sportið okkar í fjölmiðlum – því plássið er naumt skammtað og samkeppnin við aðra – og betur borgandi efnisflokka (ma bíla) er hörð. Vonandi að okkur takist að halda dampi í þessum efnum. 450cc enduróhjólin voru nýlega tekin fyrir í Dagbók Drullumallarans og vil ég þakka öllum sem hönd lögðu á plóginn við að gera þennan sjö hjóla

reynsluakstur mögulegann. Niðurstöður reynsluakstursins komu okkur sjálfum á óvart, vægast sagt. En það var ekki um að villast – 5 af 7 ökumönnum gáfu sama hjólinu atkvæði sitt. Smellið HÉR til að lesa meira um málið. Dagbókin heldur áfram flugi sínu með svipuðu lagi og undanfarið. Meðal efnis á næstunni verður viðtal við Ron Lawson ritsjóra Dirt Bike en hann keppti einmitt á Klaustri í boði KTM. Það var fróðlegt að spjalla við kappann og fá viðbrögð hans við þolkeppninni og innsýn hans í framtíð vélhjólaíþróttarinnar á Íslandi en eins og margir vita hefur íþróttin átt undir högg að sækja þar í Bandaríkjunum þar sem lokað hefur verið fyrir aðgang mótorhjólamanna að stórum landsvæðum. Meira um það á næstu vikum.
Kv, ÞK

Þar sem þetta var heil opna í Mogganum ákvað vefstjóri að taka síðurnar eins og þær koma fyrir, og setja þær inn sem stórar myndir. Hér er fyrri síðan,……og hér sú seinni.

UM DAGBÓK DRULLUMALLARANS.
Varðandi umræður m.a. hér á síðunni um stóra 450cc enduró reynsluaksturinn – sem eru af hinu góða- langar mig að ítreka nokkuð svo enginn þurfi að efast um ágæti og hlutleysi þeirra heiðursmanna sem tóku þátt í þessum reynsluaksti með mér. Ég legg mikla áherslu á að hafa með mér menn sem hafa mikla reynslu og geta komið áliti sínu frá sér í skýru máli og vinna vinnu sína af heilum hug. Þessir heiðursmenn uppfylla sannarlega þessi skilyrði og vil ég þakka Jóni B, Heimi Barða, Róberti Hjörleifs, Denna, Sölva og Gunna Þór fyrir ómetanlega aðstoð í þessu tiltekna verkefni auk umboðsaðilanna sem góðfúslega sendu hjól í reynsluaksturinn. 1000 þakkir. Það gerist ekki á hverjum degi sem menn ná að koma saman 7 hjóla enduró reynsluakstri. Ekki einu sinni í Ameríku. Við megum því bara vera nokkuð sáttir við kraftinn og samheldnina í okkur hér á klakanum.
Niðurstöður reynsluakstursins hafa komið einhverjum á óvart. Okkur líka. Einhver benti mér á að í ameríku þættu mönnum önnur endúróhjól betri. Mikið rétt. Svo hefur reyndar borist í tal að í Ástralíu sé hlutunum öfugt farið miðað við Ameríkuna. Líka rétt. Frá Englandi kemur svo enn ein útgáfan. Ég segi bara – gott að menn hafa skoðanir. En sama hvað mönnum kann að finnast í útlöndum þá tel ég íslenska hjólamenn alveg þess megnuga að mynda sér sínar eigin skoðanir. Við látum ekki segja okkur hvað okkur á að finnast. Það er verðlaus pappír fyrir lesendur (ykkur).
Markaður fyrir séríslenskt mótorhjólablað er afar lítill og ekki gróðavænlegur enda hefur enginn ráðist í slíka útgáfu ennþá. Dagbók Drullumallarans hefur eftir bestu getu reynt að halda merkjum íþróttarinnar okkar á lofti í gegnum þann sterka miðil sem Morgunblaðið er – og gerir svo lengi sem hugsjónin endist undirrituðum. Dagbókin hefur aldrei snúist um peninga og oftar en ekki hefur kostnaður við útgáfuna (bensín, flugfargjöld og hótelkostnaður oþh) komið úr eigin vasa – og græt ég það ekki því ég hefi fengið mikið í staðinn; fjölbreytta reynslu og kynnst mörgu góðu fólki. Dagbók Drullumallarans er ekki biblía, hún er fyrst og fremst hugsuð sem skemmtiefni, til almennrar kynningar á sportinu okkar útávið og að miðla eftir bestu getu (og í baráttu við takmarkað pláss í blaðinu) staðreyndum málsins eins og þær koma okkur fyrir sjónir hverju sinni – á hlutlausan (og vonandi pínu skemmtilegan) hátt.

Kveðja
Þórir Kristinsson
Drullumallari

Leave a Reply