Vefmyndavél

Þúsund þakkir !

{mosimage}Eftir 9 mánaða  röfl í mér á netinu eru eflaust flestir búnir að fá nóg af mínu bulli. Það sem verra er að ég er ekki hættur því ég á eftir að þakka fyrir mig, en eins og síðustu mánuðina hef ég kosið að nota netið sem fyrr.
   Í fyrsta lagi vil ég þakka öllum fyrir þær innilegu þakkir, hlý orð í minn garð og þá frábæru mætingu á 100 ára afmælið á Sauðárkrók, en ég var ekki einn sem

 stóð í þessu því meðlimir í Vélhjólaklúbb Skagafjarðar stóðu sig frábærlega, en á 20 ára vinnuferli mínum í þágu mótorhjólfólks hef ég aldrei unnið með eins duglegu og áræðanlegu fólki eins og þeim. Einnig vil ég þakka sveitarstjórnarmönnum, lögreglu og sýslumanni fyrir gott samstarf (og afnot af gjallarhorni lögreglunnar).
{mosimage}
Aðeins búið að drulla yfir Hjört í hita leiksins

Fyrir svona nýbrum þarf ótrúlega samheldni og tröllatrú á því sem verið er að gera og sýndi mótorhjólafólk þessa helgi að mótorhjólafólk eru ekki síðri gestir en hver annar. Einnig vil ég þakka sérstaklega ESSO fyrir Hvalfjarðargöngin, Bílabúð Benna fyrir að koma okkur í beina útsendingu á Rás 2 og öllum þeim fyrirtækjum sem gáfu verðlaun fyrir hinar ýmsu keppnisgreinar.
   Eins og margir urðu varir við var gengið með gestabók og rituðu mótorhjólagestir í bókina undir sínum klúbb eða í reitinn almenningur og sumir teiknuðu bara merki klúbbs síns ef merki klúbbsins var ekki til staðar. Í þessa gestabók rituðu 335 manns og einn hundur, en gestabókin var aðeins á lofti í rúman sólahring og að sögn Sunnu (sem er konan mín) “gestabókarinnar gangandi” var enginn sem vildi ekki skrifa í bókina, en hún heldur að rúmlega helmingur gesta hafi skrifað í bókina.
 Keppnishald gekk frábærlega og var til sóma í alla staði fyrir utan að brekkuspyrnan byrjaði klukkutíma of fljótt á föstudeginum miðað við auglýsta dagskrá.
    Úrslit má sjá á www.team-bacardi.tk úr keppnunum og vil ég benda hátíðargestum á að skrifa í gestabókina á þeirri síðu fyrir þá sem vilja þakka fyrir sig.
   Það var vissulega veðrið sem var að stríða okkur, en við búum á Íslandi og þar er aldrei vont veður bara misjafnlega vel klætt fólk.
   Á fimmtudeginum þegar ekið var frá Varmahlíð á Krókinn þar sem sveitarstjórinn og forseti sveitarstjórnar fóru fremstir voru í samfeldri röð 274 hjól án þess að nokkur bíll væri inni á milli hjólanna. Gera má ráð fyrir að um 150-200 hjól hafi verið í viðbót við þetta á Sauðárkrók þessa helgi séu öll hjól talin með.
   Í huga mínum var eins og að við hjólafólkið sem í hópkeyrslunni var værum keppnislið Sauðárkróks að koma heim með heimsmeistarabikarinn að lokinni keppni því það var fólk raðað meðfram allri aðalgötunni í gegnum allan bæinn og allveg frá því að lagt var af stað frá Varmahlíð var fólk á öllum hólum og hæðum að taka myndir og veifa til okkar. Vegalengdin á samfeldu röðinni var sjö og hálfur kílómetri, eða jafn langt og Grettirssundið forðum.
   Þegar farið var upp á tjaldstæði eftir helgina var það eina sem fannst af rusli eftir helgina voru nokkrir sígarettustubbar. Það var gaman að fá kveðju í útvarpið frá löggunni með þökk um frábæra helgi á mánudaginn.
   Um mánaðarmótin er landsmót Snigla og vona ég að sem flestir sjái sér fært að sækja það heim enda er það góð leið  til að þakka Sniglum fyrir gjöfina sem Sniglar gáfu öllum mótorhjólafólki á Íslandi og stendur við Varmahlíð. Einnig er endurokeppni á Blönduósi sömu helgi og vil ég hvetja keppendur og áhorfendur á þeirri keppni að gera sér ferð í Varmahlíð og skoða þetta frábæra listaverk sem er gjöf frá Sniglum til allra mótorhjólamanna á Íslandi. Þarna er auðvitað verið að meina listaverkið FALLIÐ eftir Heidda Snigil no 10 sem afhjúpað var í Varmahlíð 19. júní af Arnari Helga og Heiðari.
   Eins og margir tóku eftir var verið að filma hátíðina og er meningin að gefa út myndband sem verður í kringum 90 mín. Þetta myndband verður svo selt á haustdögum og á eflaust eftir að vera jólagjöf  mótorhjólamannsins í ár.
Þúsund þakkir fyrir helgina,    
 Hjörtur Liklegur   ……(ég er enn að klípa mig “var þetta draumur?”).

Kveðja, Hjörtur L Jónsson

Leave a Reply