Hvað gerðist á málþingi um utan vega akstur?

Laugardaginn 30. apríl stóð Landvernd og Umhverfisstofnun fyrir málþingi um akstur utan vega. Á málþingið mættu áhugamenn um efnið, sem og fulltrúar hagsmunaðila, frjálsra félagasamtaka og stofnana. Mótorhjólamenn létu sitt ekki eftir liggja og mættu tveir á fundinn; fulltrúi umhverfisnefndar og Kristján Grétarsson. Kann ég honum mínar bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Málþingið skiptist í tvennt, annars vegar erindi og hins vegar pallborðsumræður. Það var nokkuð ljóst á meðan erindin voru flutt að gamlar syndir fylgja okkur um langa tíð. Frægar myndir sem teknar voru fyrir 

nokkrum árum af ónefndum eiganda mótorhjólaumboðs í Reykjavík, í land
ónefnds bónda, með hjólið á kafi í blautri og iðagrænni mýri birtust í
nánast öllum þeim erindum sem flutt voru á þinginu. Hvergi kom fram
hvar myndirnar voru teknar, né við hvernig aðstæður, enda hefði þessum
hópi fólks verið slétt sama, enda um lögbrot að ræða. Hvernig komst
þessi hópur fólk yfir þessar myndir? Hver vegna voru þessar myndir yfir
höfuð teknar?

Í erindi Davíðs Egilssonar, forstjóra
Umhverfisstofu, kom fram skilningur á aðstöðuleysi vélhjólamanna þegar
hann talaði um að eina leiðin til að minnka utan vega akstur væri
tillitsemi.  Eymundur Runólfsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni,
fjallaði um flokkun vega og sýndi kort af öllum vegum sem heyra undir
Vegagerðina. Í máli hans var hvergi minnst á mótorhjól. Hann kom inn á
notkun skilta við stjórnun á aðgengi, en það er ein af hugmyndum
starfshóps umhverfisráðherra um vegi og slóða í óbyggðum. Skiltin yrðu
t.d. notuð til að sýna fullan eða takmarkaðan aðgang og yrðu
smalaslóðar því flokkaðir með takmarkaða notkun, og engum leift að fara
þar um nema á haustdögum í kringum smalnir. Eingöngu er um hugmyndir að
ræða og engar ákvarðanir hafa verið teknar. Halldór Jónsson,
Gæsavatnafélagið, hélt fróðlegt erindi um ástæður utan vega aksturs og
sýndi myndir frá sýnu svæði máli sínu til stuðnings. Vissulega voru
margar myndir af mótorhjólaförum, þó flestar hafi sýnt samsíða för
fjórhjóla og bíla. Freysteinn Sigurðsson, Landvernd, fjallaði um galla
á lagalegu umhverfi, og kom inn á þann vanda sem við er að glíma hvað
varðar setningu þeirra og framkvæmd. Inga Rósa Þórðardóttir,
Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, sagði frá átaki sem félagið stendur fyrir
í sumar, í samstarfi við fjölmörg félög og fyrirtæki, til að fræða
ferðamenn um skaðleg áhrif utan vega akstur á náttúruna. Seinasta
erindið á þessu málþingi var kynning á nýútkominni skýrslu starfshóps
Umhverfisráðherra um akstur í óbyggðum, sem Árni Bragason,
forstöðumaður náttúrufræðarsviðs hjá Umhverfisstofnun, flutti. Það yrði
of langt mál að fara í alla þá þætti erindsins sem snúa að hagsmunum
vélhjólamanna og því hvet ég alla til að lesa þessa skýrslu og mynda
sér skoðun um þær aðgerðir sem starfshópurinn leggur til.

Næst
voru pallborðsumræður, þar sem fulltrúar eftirtalina samtaka og félaga
sátu fyrir svörum: Ferðafélag Íslands, 4×4, Landvernd, Landsamtök
hestamanna, Bændasamtökin og Samtök ferðaþjónustunnar. Sú ánægjulega
þróun er að eiga sér stað að rödd vélhjólamanna heyrist orðið víða og
var VÍK boðið að taka þátt í pallborðinu, sem það og þáði. Ekki var
vanþörf á því fljótlega beindust öll spjót að vélhjólamönnum og þeim
spjöllum og ónæði sem við völdum, ekki bara á SV-horninu, heldur líka á
hálendinu. Spjöllin eru staðreynd og alveg ljóst að við erum oft á
tíðum sjálfum okkur vestir. Andsvör við spurningum utan úr sal voru því
oft á tíðum hrein og klár fræðsla, þar sem fundargestum var kynnt það
ástand sem ríkir í okkar herbúðum og það algjöra andvaraleysi sem
virðist svo ríkt innan stjórnsýslunnar í okkar garð. Á pallborðið
hlustaði Sigríður Anna Þórðardóttir, Umhverfisráðherra, og sýndi okkar
sjónarmiðum mikinn skilning. Í lok þingsins hélt hún yfirlitsræðu þar
sem helmingur tímans fór í að tala um vélhjólafólk og stöðu okkar í
umhverfinu. Á staðnum var einnig Ómar Ragnarsson, fréttamaður RÚV, og
má segja að hann hafi með eini smávægilegri spurningu ýtt okkar málstað
upp um nokkur sæti, og gert okkur að sigurvegurum málþingsins. Hann
gerði það að umtalsefni hversu mikla peninga við leggjum til Ríkisins
með opinberum gjöldum sem hjólin okkar bera. Þetta hleypur á tugum ef
ekki hundruðum miljóna, sem við borgum til ríkisins af torfæruhjólunum
okkar og þá miðaði hann við innflutning undanfarinna tveggja ára. Hann
beindi orðum sínum til Umhverfisráðherra og spurði hvort þetta væri
réttlátt, í ljósi þeirrar baráttu sem við höfum þurft að heyja fyrir
tilveru rétti okkar sem íþróttamenn. Ómar benti á að kannski væri bara
kominn tími til að við fengjum okkar eigin slóða, líkt og hestamenn fá
sína og göngumenn fá sína. Miðað við hversu miklum fjármunum við skilum
í kassann þá ættum við heimtingu á því.  Spurning hvort að þetta verði
okkar næstu rök fyrir svæðum og aðgerðum.

Of langt mál er að
fara í allt það skítkast sem VÍK fékk á sig á þessu þingi, en mjög
margir eru orðnir uggandi um Reykjanesið og þær raddir verða sífellt
háværari sem vilja friða allan Skagann. Almennt má segja að við erum
ekki að hjálpa okkur sjálfum í þessari baráttunni fyrir
tilveruréttinum, ef við sprautum upp allar brekkur sem við sjáum, tætum
upp mosa og búum til nýja slóða á svæðum sem eru viðkvæm.

Að fundi loknum átti fulltrúi Umhverfisnefndar spjall við Umhverfisráðherra, Landvernd og fulltrúa Landsamtaka hestamanna.

Umhverfisnefnd


Hér er skýrsla starfshóps umhverfisráðherra um utanvegaakstur
!

Skildu eftir svar