Vefmyndavél

Gamalt út, nýtt inn

ÞAÐ er svo gott sem ár síðan við hófum litla tilraun á þessum síðum í því skyni að sjá hversu samkeppnishæf notuð torfæruhjól eru í samanburði við það nýjasta og besta á markaðnum hverju sinni. Eins og glöggir lesendur muna e.t.v. tókum við árs gamalt Yamaha WR 450, vinsælt hjól sem þó mátti muna fífil sinn fegurri og fórum með það í gegnum allsherjar andlitslyftingu og ferli sem mjög margir íslenskir ökumenn fara í gegnum þegar þeir kaupa sér notað hjól. Eftir lítilsháttar vinnu, stillingar og betrumbætur var fákurinn tilbúinn í slaginn og til að gera langt mál stutt þá hefur hjólið séð margt og misjafnt síðastliðið ár og á öllum þeim tíma hefur það ekki slegið eitt einasta feilpúst eins og lesendur Dagbókarinnar hafa e.t.v. tekið eftir. Eftir allan þennan djöfulgang í harðri samkeppni við ný hjól er niðurstaða okkar sumsé sú að eins til tveggja ára gömul torfæruhjól séu vel samkeppnishæf borið saman við ný hjól og uppfylli hlutverk sitt með sóma mun lengur noti menn þau bara sér til skemmtunar og í létta sunnudagsrúnta en ekki í keppnir. Með því að kaupa notað hjól geta menn sparað sér umtalsverða peninga sem getur hæglega numið 200-300 þúsund krónum. Hinsvegar kalla notuð hjól yfirleitt á tíðara og dýrara viðhald og ættu menn að taka það með í reikninginn þegar þeir glíma við spurninguna um hvort þeir eigi að kaupa notað eða nýtt og á það við um allar hjólategundir.

Meiri kraftur, minni læti! Big Gun-kerfið bætir við nokkrum hestöflum
(ekki að þess hafi þurft) en það sem mikilvægara er að það dró um leið
úr hávaðamengun hjólsins en slíkt er farið að skipta hjólafólk æ meira
máli.

Tilraunadýrið okkar að þessu sinni var sumsé Yamaha WR 450 sem er í flesta staði öflugur járnhestur en átti sínar veiku hliðar. Til að gera það enn sterkara fékk það nokkrar vítamínsprautur og má þar nefna álhlífar til að vernda viðkvæman og rándýran vatnskassa, breiða standpetala fyrir stóra fætur með miklu betra gripi, gott stýri sem veitir þægilega akstursstöðu og þolir vel byltur, nýtt og litríkara útlit, öflugra framljós fyrir þau skipti er maður nær ekki heim fyrir myrkur, Pro Action-fjöðrun sem varð til þess að fjöðrunin hætti loks að slá saman m.a. í lendingu eftir stökk, og nú síðast Big Gun-pústkerfi sem gaf hjólinu örlítið meiri kraft (ekki að það hafi þurft), en það sem mikilvægara er að það dró um leið úr hávaðanum sem hefur lengi verið akkilesarhæll Yamaha-hjólanna. Dásamlegt! Ég vil þakka öllum sem hönd lögðu á plóginn; Ragga í Vélhjólum og sleðum og strákunum hjá Yamaha, þá sérstaklega Lofti, fyrir frábæran stuðning.

Jamminn hefur fylgt okkur í eitt ár og sannað að eldri hjól geta verið
samkeppnishæf og vel það. Þrátt fyrir barning og djöfulgang hefur
hjólið ekki slegið eitt feilpúst. Hjólið er til sýnis í versluninni
Nitro þessa dagana en leit stendur yfir að næsta tilraunadýri í
langtíma reynsluakstur Dagbókarinnar.

En nú er lóan komin og vorið er handan við hornið og stefnan að slá ekkert af með Dagbók Drullumallarans í sumar enda dellan og bullið í sportinu á útopnu. Það er mikið framboð af spennandi nýjum hjólum í ár og von okkar að söluaðilar þeirra lofi okkur að berja eilítið á sem flestum þeirra og miðla þannig reynslunni til ykkar lesenda u.þ.b. einu sinni til tvisvar í mánuði. WR-hjólið okkar hefur þá lokið hlutverki sínu hér í dagbókinni og geta áhugasamir barið það augum hjá versluninni Nitro þar sem það stendur um þessar mundir. Þá er bara einni spurningu ósvarað í bili og það er hvort og hvaða hjól taki við í næsta langtíma reynsluakstri. Málið er í skoðun og ýmsir möguleikar í stöðunni. Ég er helst á því að taka þann óvenjulegasta.

ÞK

Leave a Reply